Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tugir listamanna ræddu listamannalaun á opnum fundi

Jónatan Garðarsson formaður stjórnar listamannalauna, menningar- og viðskiptaráðherra, Margrét Tryggvadóttir ritari BÍL og Óskar Eggert Óskarsson sérfræðingur hjá Rannís. - mynd

Menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir bauð til opins kynningarfundar í gær í Eddu, húsi íslenskunnar, um breytingu á lögum um listamannalaun og áherslur og stefnu listamannalauna til næstu þriggja ára.

Í vor voru samþykktar breytingar á lögum um listamannalaun í því skyni að styrkja faglega starfslaunasjóði listamanna og tryggja betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar. Tveimur nýjum launasjóðum var bætt við; launasjóði kvikmyndahöfunda og þverfaglegum sjóði fyrir 67 ára og eldri. Einnig mun úthlutunarmánuðum fjölga í hverri grein.

Jónatan Garðarsson formaður stjórnar listamannalauna fór yfir áherslur sitjandi stjórnar, breytingar og ferlið við úthlutun listamannalauna og því næst sátu sérfræðingar og ráðherra fyrir svörum.

Kom Jónatan meðal annars inn á að nafnleynd ríkir yfir þeim er starfa í úthlutunarnefndum hvert ár uns úthlutun hefur verið gerð opinber, starf varamanna í úthlutunarnefndum sem meðal annars geta verið kallaðir inn ef aðalmaður reynist vera of tengdur umsækjanda og aðra faglegri nálgun á úrvinnslu umsókna. Jónatan fór einnig yfir þær breytingar sem hafa orðið í gegnum tíðina og hvernig stjórnin er skipuð.

Jónatan benti á að bæði stjórn listamannalauna og sérfræðingar hjá Rannís sem sér um verklega umsýslu og afgreiðslu umsóknanna eru til reiðu hvað varðar upplýsingagjöf og aðstoð. Á fundinum kom einnig fram að mikill fjöldi listamanna sækir um laun ár hvert og eru umsóknir almennt mjög góðar.  Meðaltal árangurshlutfalls umsækjenda við síðustu úthlutun (fyrir lagabreytingu) samkvæmt upplýsingum á vef Rannís var 23%, þeas 241 umsækjandi af 1032 fengu listamannalaun.

 

Líflega umræður og lófatak 

Að erindinu loknu tóku við pallborðsumræður sem Vigdís Jakobsdóttir stýrði. Fyrir svörum sátu menningar- og viðskiptaráðherra, fyrrnefndur Jónatan Garðarsson, Margrét Tryggvadóttir ritari BÍL og Óskar Eggert Óskarsson sérfræðingur hjá Rannís.

Í kjölfarið sköpuðust líflegar umræður þar sem fundargestir spurði spurninga og komu með hugmyndir um hvernig bæta megi umgjörð listamannalaunanna og starfsumhverfi skapandi greina. Meðal þess sem kom sterkt fram var beiðni um að kannaður yrði sá möguleiki að dreifa mætti laununum sem eru í raun mánaðarleg verktakagreiðsla, yfir lengra tímabil eða skipta þeim upp með það að markmiði að listamenn geti tekið að sér tímabundin verkefni án þess að missa réttinn til starfslauna. Samkvæmt reglum um listamannalaun er ekki heimilt að gegna fullu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur ef listamaður hlýtur starfslaun í sex mánuði eða meira. Var bent á að ef möguleiki væri að skipta greiðslunum eða dreifa ættu listamenn sem þrífast í svokölluðu „gigghagkerfi“ þar sem treyst er á tímabundin verkefni meiri möguleika á að ná endum saman og missa ekki af tækifærum. Einnig var rætt það óöryggi sem fylgir því að listamannalaun sé verktakagreiðslur en ekki laun í hefðbundnum skilningi þar sem listamaðurinn sjálfur verður að greiða af þeim öll gjöld og því séu eftirlaunaárin áhyggjuefni margra.

Tímasetningar voru annað mál sem brann á fundargestum og skoða þyrfti umsóknarfrest með tilliti til mismunandi starfstétta. Erfitt væri sem dæmi að sækja um laun til að starfa við verkefni sem ekki væri búið að ákveða að yrði að raunveruleika. Var bent á að skoða þyrfti stórar dagsetningar í listaheiminum í samfellu við umsóknarfrest. Einnig var nefnt að gott væri að skoða samfellt styrkjakerfi til listamanna og listaverkefna svo sem hvort heiðursverðlaun Alþingis eigi að verða hluti af listamannalaunum og hvort menningarsamningar við bæjarfélög séu betur til þess fallin að styðja við listviðburði út á landi frekar en önnur styrktarform.

Tugir listamanna og forsvarsmenn bandalaga þeirra mættu og sköpuðust líflegar umræður um kosti og galla listamannalauna sem ráðherra segist taka fagnandi. „Það komu margar góða hugmyndir fram, fólk var málefnalegt og hvatti kollega sína áfram með lófataki,“ segir ráðherra sem segir það mikið gleðiefni hve margir mættu og tjáðu sig.

„Ég tek starf mitt sem menningarmálaráðherra alvarlega og veit að í listafólkinu okkar eru fólgin tækifæri og aukin lífsgæði fyrir okkur sem þjóð og komandi kynslóðir – en það þýðir ekki að ég sé sérfræðingur í hvernig listafólk vinnur. Þess vegna er heiðarlegt og opið samtal líkt og skapaðist á fundinum ómetanlegt. Líkt og einn fundargesta komst að orði þá skilar engu að kasta athugasemdum sínum og hugmyndum í næsta vegg – samtal er lykilinn að framförum. Ráðuneytið mun leggjast í vinnu með þær umræður og hugmyndir sem fram komu með það að leiðarljósi að bæta kerfið okkar,“ segir Lilja Dögg og bendir áhugasömum á að opið sé fyrir umsóknir um listamannalaun til 1. október næstkomandi. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum