Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2025 Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Ísland gengið í DARIAH

Ísland er nú fullgildur meðlimur í DARIAH, en um er að ræða evrópskan samstarfsvettvang fyrir stafræna rannsóknainnviði á sviði hugvísinda og lista. DARIAH stendur fyrir Digital Research Infrastructure for the Arts and Humanities og er markmið samstarfsins að sameina fræðimenn, verkfæri og gagnasöfn frá mismunandi löndum. Með aðild Íslands að DARIAH standa vonir til að veita íslenskum og erlendum fræðimönnum gagnkvæman aðgang að sérfræðiþekkingu, auka möguleika á jafningjafræðslu og stuðla að auknu samstarfi þeirra á milli. 

Í tilkynningu á vef DARIAH, þar sem greint er frá aðild Íslands, segir að hér á landi sé ríkulegt safn gagna um íslenska menningu, tungu, sögu og listir. Þar að auki séu Íslendingar meðal tæknivæddustu þjóða heims. Þessi blanda leggi grunn að einstökum rannsóknatækifærum á sviði stafrænna hugvísinda.

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, segir aðild Íslands að DARIAH til marks um áherslu stjórnvalda á hugvísindi og listir, sem og á opið alþjóðlegt rannsóknastarf. „Til að þróa trausta rannsóknainnviði þarf alþjóðlegt samstarf og DARIAH tryggir nauðsynlegan ramma um þekkingarmiðlun, notkun verkfæra og starfshætti. Við erum stolt af því að styðja við framþróun stafrænna hugvísinda og lista, sem og að styrkja tengsl Íslands við evrópska rannsóknasamfélagið.“

Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) verður landsmiðstöð Íslands í samstarfinu, sem bera mun heitið DARIAH-IS/CDHA. MSHL var stofnuð árið 2020 og er samstarf 15 stofnana um innviðakjarna í hugvísindum og listum. Markmið miðstöðvarinnar er að styðja uppbyggingu og aðgengi að rannsóknainnviðum á sviði stafrænna hugvísinda og tengja íslenskar rannsóknir við alþjóðlega þróun á þessu sviði.

Á vef MSHL segir að helstu markmið DARIAH-IS/DHA séu að:

  • þróa og útbúa kennslu- og þjálfunarefni fyrir rannsóknir í stafrænum hugvísindum og listum.
  • þróa stafræn gagnasafnskerfi og verkfæri til að styðja við stafræn verkefni.
  • þjóna sem samstarfsvettvangur allra helstu stofnana sem sinna menningararfi á Íslandi, til að gera stafrænar safneignir aðgengilegar og samhæfðar.
  • miðla gögnum og auðlindum og samþætta verkefni CDHA við vettvanga DARIAH-EU, svo sem SSH Open Marketplace og DARIAH-Campus.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta