Reglugerð um merkingar einnota plastvara og söfnunarmarkmið veiðarfæra í Samráðgátt
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um plastvörur. Reglugerðin er nýmæli og með henni er ætlað að innleiða tiltekin ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins (ESB) 2019/904 sem er ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og fjölnota vara fremur en einnota.
Í reglugerðardrögunum sem nú eru til kynningar er kveðið á um skyldu til að merkja sérstaklega þær plastvörur sem eru einnota og eru upptaldar í drögunum í samræmi við lágmarkskröfur framkvæmdarreglugerðar ESB 2020/2151. Merkingunum er ætlað að upplýsa neytendur um að varan innihaldi plast, um það hvaða úrgangsförgunaraðferðir á að forðast fyrir vöruna og um þau neikvæðu umhverfisáhrif sem fylgja því að dreifa rusli eða öðrum óviðeigandi aðferðum við förgun vörunnar. Um er að ræða vörur sem eru í almennri notkun, s.s. tíðavörur, blautþurrkur, tóbaksvörur sem innihalda plast, og bolla og glös fyrir drykkjarvörur. Samkvæmt breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur legið fyrir frá árinu 2020 að þessar kröfur um merkingar verði innleiddar hér á landi og hafa fyrirtæki á íslenskum markaði mörg hver nú þegar merkt vörur sínar og með því tekið skrefið sem nú stendur til að festa í reglugerð.
Jafnframt er kveðið á um landsbundin, töluleg markmið um söfnun veiðarfæraúrgangs sem byggir á skyldu hvers ríkis, í samræmi við tilskipun 2019/904, um að ríki setji sér landsbundin söfnunarmarkmið fyrir veiðarfæri sem innihalda plast. Í drögunum er sett fram markmið um að á hverju ári verði safnað að lágmarki 60% af því magni veiðarfæra sem sett eru á markað að meðaltali og innihalda plast. Úrvinnslusjóður og fyrirtæki í sjávarútvegi hafa svo í sameiningu það hlutverk að uppfylla markmiðið, sem telst raunhæft en metnaðarfullt með tilliti til sambærilegra markmiða nágrannaríkja.
Reglugerðinni er ætlað að innleiða tiltekin ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins (ESB) 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið og auk þess innleiða að fullu framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2151 um reglur um samræmdar nákvæmar skilgreiningar um merkingar á einnota plastvörum sem eru tilgreindar í D-hluta viðaukans við tilskipun (ESB) 2019/904.
Samráð var haft við Umhverfis- og orkustofnun, Úrvinnslusjóð og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi við samningu reglugerðarinnar.
Athygli er vakin á því að frestur til að senda umsögn í samráðsgátt er til 1. september nk.