Hoppa yfir valmynd
12. maí 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dómsmálaráðherra við opnun nýrrar lögreglustöðvar í Grafarvogi

Ávarp dómsmálaráðherra við opnun nýrrar lögreglustöðvar í Grafarvogi. 12. maí 2000


Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að óska Grafarvogsbúum og Lögreglunni til hamingju með nýja aðstöðu lögreglunnar. Það er til marks um áherslur lögreglunnar að þessi nýja aðstaða sé á sama stað og fjölskyldumiðstöð fyrir íbúa á svæðinu. Hingað sækja íbúar Grafarvogs þjónustu af ýmsum toga og má segja að lögreglan sé nú nær hinu daglega amstri íbúanna.

Þessar breytingar eru mjög í takt við hugmyndir um grenndargæslu, sem ég hef lagt mikla áherslu á að löggæslan tileinki sér í enn ríkari mæli en nú er. Ég hef enda óskað eftir tillögum frá Lögreglunni í Reykjavík um endurskipulagningu hverfalöggæslunnar.

Ég hef lagt mikla áherslu á bætta löggæslu almennt, fjölgun lögreglumanna og eflingu lögregluskólans.Ég hef sérstakan áhuga á því að efla samvinnu lögreglu, foreldra, skóla og félagasamtaka um forvarnir gegn afbrotum, ekki síst hvað varðar fíkniefnaneyslu ungs fólks. Samhliða þessu er nauðsynlegt að efla grenndarlöggæslu og gera lögregluna sýnilegri.
Með því fyrirkomulagi sem hér er lagt upp með getur lögreglan náð góðum tengslum við íbúana og lært að þekkja umhverfið sem þeir búa við. Það eykur líkur á því t.d. að unnt sé að átta sig á því á byrjunarstigi ef ungt fólk er komið í snertingu við fíkniefni eða efni komin í dreifingu í ákveðnum hverfum eða skólum. Lögreglan getur sinnt í auknum mæli forvörnum, í stað þess að vera sífellt að slökkva elda sem kviknað hafa.

Með grenndarlöggæslu og auknum tengslum borgara og lögreglu aukast því líkur á því að borgarar veiti lögreglu upplýsingar um brotastarfsemi. Þannig geta lögreglumenn leitast við að grípa inn í áður en vandamálin verða illviðráðanleg. Þekking lögreglumanna á hverfinu, íbúum þess og ekki síst traust íbúa til lögreglumannsins leiðir því til þess að lögreglan fær oft mun betri upplýsingar um ýmsa brotastarfsemi og á auðveldara með að vinna úr þeim upplýsingum í ljósi fyrri reynslu og þekkingar.

Hér í Grafarvogi hefur verið unnið gott starf , lögreglan hefur sinnt grenndargæslu og samstarfi við borgarana með góðum árangri. Enda hef ég stundum vísað til löggæslunnar í Grafarvogi sem fyrirmyndar í þessum efnum.
Við verðum að hafa í huga að Grafarvogshverfi hefur þá sérstöðu í Reykjavík að hlutfall íbúa yngri en 25 ára er hvergi meira. En grenndargæsla er ekki síst til þess fallin að halda utan um unga fólkið, og beina þeim á réttar brauta sem afvega leiðast áður en stórfelld vandamál hafa skapast.

Ég hef trú á því að þessi nýja aðstaða muni efla starf lögreglunnar í Grafarvogi og færa hana nær íbúunum. Þessi staðsetning minnir á að lögreglan starfar með borgurunum og fyrir þá. Þetta er traustur grundvöllur fyrir enn betri löggæslu í Grafarvogi. Ég óska okkur öllum til hamingju með þennan áfanga og lögreglunni velfarnaðar í starfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum