Hoppa yfir valmynd
1. júní 1999 Dómsmálaráðuneytið

Fyrsta vegabréfið afhent dómsmálaráðherra

Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra var afhent fyrsta íslenska vegabréfið sem gefið er út samkvæmt nýjum lögum um vegabréf sem tóku gildi í dag, 1. júní 1999

Fyrsta vegabréfið afhent dómsmálaráðherra



Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra var afhent fyrsta íslenska vegabréfið sem gefið er út samkvæmt nýjum lögum um vegabréf sem tóku gildi í dag, 1. júní 1999. Jóhann Jóhannsson framkvæmdastjóri Útlendingaeftirlitsins afhenti dómsmálaráðherra bréfið á skrifstofu hennar í dómsmálaráðuneytinu.
Byrjað var að taka við umsóknum um ný vegabréf á öllum lögreglustjóra- og sýslumannsembættum í morgun. Biðtími eftir útgáfu þeirra er allt að 10 virkir daga. Ef þau tilvik koma upp að nauðsynlegt sé að fá vegabréf með skemmri fyrirvara er unnt að sækja um hraðafgreiðslu á útgáfustað vegabréfanna að Borgartúni 30, þriðju hæð, en gjald fyrir útgáfu með þessum hætti verður tvöfalt það gjald sem lagt er á útgáfu með venjulegum hætti.
Hið nýja vegabréf hefur ýmsa öryggisþætti sem tryggja eiga áreiðanleika þess. Meðal þeirra er tölvulesanleg rönd, hátæknileg öryggisprentun og ýmislegt fleira sem hefur ekki verið í íslenskum vegabréfum fram til þessa. Hönnun nýja bréfsins er einnig nýstárleg og ber hún með sér tilvísanir til siglinga víkinga, atvinnuvega, nútímasamgangna, náttúru Íslands og fleiri íslensk sérkenni.
Þrátt fyrir tilkomu nýju vegabréfanna halda eldri vegabréf gildi sínu í þann tíma sem þar er tilgreindur.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 1. júní 1999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum