Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2019

Verkefnastjóri við kennaradeild

Laus er til umsóknar 100% staða verkefnastjóra vettvangsnáms og æfingakennslu við kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Vegna væntanlegra breytinga á fimmta námsári kennaranema – svonefndu starfsnámsári – mun verkefnastjóri vettvangsnáms fá tækifæri til þess að móta og þróa ákveðna þætti því tengdu. Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf ekki síðar 1. ágúst 2019.

Verkefnastjóri hefur yfirumsjón með skipulagi og framkvæmd vettvangsnáms og æfingakennslu kennaranema og umsýsl með meistararitgerðum kennaranema. Næsti yfirmaður er deildarformaður kennaradeildar. Starfsstöðin er á háskólasvæðinu á Akureyri.

Kennaradeild Háskólans á Akureyri menntar kennara til starfa í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum eða á öðrum sviðum menntamála. Markmiðið er að veita þeim örugga þekkingu á undirstöðuþáttum starfsins svo þeir geti tekist á hendur þau hlutverk sem það leggur þeim á herðar. Þeir eiga jafnframt að vera færir um að þróa og móta skóla sem lærdómssamfélag, iðka rannsóknir eða stunda frekara nám. Sjá nánar á vef Háskólans á Akureyri www.unak.is

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Meistarapróf í uppeldis- og kennslufræði, menntunarfræði eða sambærilegum greinum ásamt leyfisbréfi til kennslu.
  • Reynsla af kennslu í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er nauðsynleg
  • Reynsla af leiðsögn kennaranema er nauðsynleg
  • Fræðileg sérhæfing í starfstengdri leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar er kostur
  • Stjórnunarreynsla innan skólakerfisins er kostur
  • Góð samskiptafærni, hæfni í sjálfstæðum vinnubrögðum og skipulagshæfni eru nauðsynleg
  • Góð færni í íslensku og ensku er nauðsynleg og færni í einu skandinavísku tungumáli er æskileg
  • Góð almenn tölvukunnátta

Umsókn skal fylgja:

  • Greinargóð skýrsla um náms- og starfsferil
  • Staðfest afrit af viðeigandi prófskírteinum og leyfisbréfi til kennslu
  • Kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda í starfið
  • Tilnefna skal tvo meðmælendur. Æskilegt er að annar þeirra sé næsti yfirmaður umsækjanda í núverandi eða fyrra starfi hans

Umsóknarfrestur er til og með 6. maí 2019. Umsókn ásamt fylgigögnum skal senda rafrænt til skrifstofu rektors Háskólans á Akureyri á netfangið [email protected]. Ekki eru notuð stöðluð umsóknareyðublöð. Ófullnægjandi umsóknir eru ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu í starfið hefur verið tekin. Umsókn getur gilt í sex mánuði eftir að umsóknarfresti lýkur, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996. Háskólinn á Akureyri áskilur sér jafnframt rétt til að hafna öllum umsóknum.

Laun eru skv. kjarasamningi Félags háskólakennara á Akureyri og fjármálaráðherra.

Nánari upplýsingar veitir deildarformaður kennaradeildar, Kristín M. Jóhannsdóttir, netfang [email protected].

Háskólinn á Akureyri stuðlar að jafnrétti kynjanna og hvetur konur jafnt sem karla til að sækja um laus störf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum