Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2007 Innviðaráðuneytið

Breytt þjónusta við lögskráningu sjómanna

Vakin skal athygli á því að lagabreytingar um síðustu áramót um fækkun tollstjóraembætta hafa áhrif á þjónustu sem snýr að lögskráningu sjómanna og er á ábyrgð samgönguráðuneytisins. Sums staðar á landinu verður um lengri veg að fara til að reka erindi er varða lögskráningu sjómanna í þeim tilvikum sem krafist er mætingar hjá lögskráningarstjóra.

Samkvæmt lögum nr. 43/1987 eru tollstjórar lögskráningarstjórar hver í sínu umdæmi. Með lagabreytingunni um síðustu áramót var tollstjórum fækkað úr 26 í 8. Sem dæmi má nefna að umdæmi tollstjórans í Reykjavík nær nú yfir Suðvesturland og þar með talið umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og umdæmi lögreglustjóranna á Akranesi, í Borgarnesi og Stykkishólmi.

Þetta þýðir að tollstjórinn í Reykjavík sér um lögskráningu sjómanna á Akranesi og Stykkishólmi og tollstjórinn á Akureyri bætir við sig lögskráningu fyrir Húsavík. Oftast hefur verið unnt að ganga frá lögskráningu með símbréfi eða tölvupósti en í stöku tilvikum er krafist mætingar hjá lögskráningarstjóra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum