Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mat á starfsemi og árangri Brúarskóla

Mennta- og menningarmálaráðuneyti lét gera frumkvæðisúttekt á starfsemi Brúarskóla og hefur skýrsla hennar nú verið birt á vef ráðuneytisins. Brúarskóli er tímabundið skólaúrræði sem hefur það að markmiði að gera nemendur hæfari til að stunda nám í almennum grunnskóla. Með úttektinni var kannað hvernig skólinn næði markmiðum sínum og hvort ráðgjafarþjónusta skólans veitti almennum grunnskólum þá þjónustu sem þeir þurfa.

Upplýsinga var aflað með viðtölum við stjórnendur og rýnihópa starfsmanna í Brúarskóla og starfsmenn ráðgjafarsviðs Brúarskóla. Einnig var sendur spurningalisti til tiltekinna skóla í Reykjavík og foreldra sem nú eiga börn í Brúarskóla. Þá var kannað viðhorf skóla um land allt sem fengið höfðu þjónustu frá ráðgjafarsviði.

Meðal helstu niðurstaðna úttektarinnar er að skólastjórnendur í almennum grunnskólum sem unnið hafa með nemendum sem hafa verið í Brúarskóla telja mikilvægt að skólavistin bæti líðan, hegðun og færni í samskiptum. Þeirra mat er að árangur skólavistar sé jafnan í samræmi við markmið skólans og að samstarf við skólann hafi gengið vel. Þeir telja þó brýnt að bið eftir skólavist verði stytt. Starfsfólk Brúarskóla og stjórnendurnir sem rætt var við kalla eftir því að samstarf stofnana sem koma að málefnum barna sem glíma við hegðunarvanda verði formlegra. Meirihluti foreldrar barna í Brúarskóla telja að börnum þeirra líði vel í skólanum, skólavistin hafi almennt jákvæð áhrif á hegðun og að þau taki framförum í daglegum athöfnum. Samskipti foreldra við skólann eru góð og foreldrar eru ánægðir með viðmót starfsfólksins. Ábendingar þeirra miða til að mynda að því að samhliða dvöl barns í Brúarskóla fengju foreldrar leiðsögn eða stuðning við uppeldi. Starfsfólkið tekur undir þá hugmynd og telur að það gæti eflt skólastarfið og aukið árangur nemenda.

Skýrslan um Brúarskóla skiptist í fimm undirkafla sem snúa að stefnu skólans, skólastarfi, kennarastarfi og foreldrum barna í skólanum með ábendingum um tækifæri til umbóta. Einnig er sérstakur kafli um ráðgjafarsvið Brúarskóla sem talið er mikilvægt að þróa áfram ásamt því að leita leiða til að sú þjónusta nýtist skólum á landsvísu.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum