Hoppa yfir valmynd
19. september 2002 Dómsmálaráðuneytið

Mikil réttarbót í frumvarpi til nýrra barnalaga

Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi s.l. þriðjudag nýtt frumvarp til barnalaga. Í frumvarpinu er að finna nokkur nýmæli s.s. að foreldrar geti með sérstakri yfirlýsingu mælt fyrir um það hver skuli fara með forsjá barns þeirra að þeim látnum, lögfest verði að kona, sem elur barn eftir tæknifrjóvgun, teljist móðir þess og að lögfest verði nýtt þvingunarúrræði vegna brota á umgengnisrétti.

19. september 2002

Mikil réttarbót í frumvarpi til nýrra barnalaga.


Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi s.l. þriðjudag nýtt frumvarp til barnalaga. Frumvarpið er samið af sifjalaganefnd og er ávöxtur endurskoðunar sem hófst árið 1999.Leitað var umsagnar fjölmargra aðila og lýstu þeir flestir yfir mikilli ánægju með frumvarpsdrögin. Fram komu þó ýmsar ábendingar og athugasemdir og var tekið tillit til þeirra við samningu frumvarpsins. Frumvarpið hefur í för með sér mikla réttarbót fyrir alla aðila og vonir standa til að hægt verði að leggja það fyrir Alþingi á komandi þingi. Ekki verður um að ræða kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði frumvarpið lögfest. Mörg nýmæli eru í frumvarpinu og eru þau helstu þessi:

Í frumvarpinu er leitast við að setja fram forsjárskyldur með fyllri og skýrari hætti en gert er í núgildandi lögum. Þá er lagt til að lögfest verði heimild fyrir foreldra til þess að mæla fyrir um, með sérstakri yfirlýsingu, hver skuli fara með forsjá barns þeirra að þeim látnum. Þetta er þó bundið því skilyrði að yfirlýsingin sé ekki andstæð lögum og í samræmi við hagsmuni barns. Foreldrum verður einnig heimilt að gera með sér tímabundna samninga um forsjá barns. Einnig má nefna að réttur barns til að tjá sig um mál er ekki bundinn við 12 ára aldur.

Lagt er til að móðir verði skylduð til að feðra barn sitt, en í gildandi barnalögum er ekki að finna ákvæði sem leggur slíka afdráttarlausa skyldu á móður. Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði um að kona, sem elur barn eftir tæknifrjóvgun, teljist móðir þess. Með þessu er komið í veg fyrir hugsanlegar deilur um móðerni barns í þeim tilvikum þegar notaðar eru gjafaeggfrumur við tæknifrjóvgun. Enn fremur að lögfest verði ákvæði um réttarstöðu sæðisgjafa.

Þá er lagt til að maður, sem telur sig föður barns, geti höfðað faðernismál. Einnig að dómara verði heimilt að skipa málsvara fyrir hinn stefnda í faðernismáli, þegar sérstaklega stendur á. Þetta gildir líka í vefengingarmálum og málum til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Einkum eru höfð í huga þau tilvik þegar stefndi er útlendingur og dvelst ekki hér á landi.

Lagt er til að heimild dómsmálaráðuneytisins til að skera úr ágreiningi um forsjá verði afnumin, og aðeins dómstólar leysi úr slíkum málum. Ekki er talið að álag muni aukast á dómstóla við þetta, þar sem forsjármál sem skotið er til dómsmálaráðuneytisins eru nú orðin mjög fá. Enn fremur er lögð til sú breyting að í vissum tilvikum verði dómstólum veitt heimild til að skera úr um meðlag og umgengni, en nú er slíkt vald eingöngu á hendi stjórnvalda. Úrskurðarvaldið er þó bundið við þau mál sem dómstólar hafa þegar til meðferðar og varða ágreining foreldra um forsjá barns eða faðerni.

Loks verður nefnd sú breyting að lögfest verði nýtt þvingunarúrræði vegna brota á umgengnisrétti, en það er að umgengni verði komið á með beinni aðfarargerð ef álagning og innheimta dagsekta skilar ekki viðunandi árangri. Samkvæmt gildandi lögum er eina úrræðið álagning dagsekta. Í löggjöf flestra norrænna ríkja er að finna slíkt ákvæði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum