Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2007 Innviðaráðuneytið

Ísland meðal fyrstu landa með umhverfisskýrslu samgönguáætlunar á landsvísu

Umhverfismat samgönguáætlunar fyrir árin 2007 til 2018 fylgir nú áætluninni í fyrsta sinn og er það í samræmi við ný lög frá Alþingi á liðnu vori. Í skýrslu um matið er gerð grein fyrir heildarmati á afleiðingum áætlunarinnar á umhverfi og samfélag. Ísland er meðal fyrstu landa í Evrópu sem hrint hafa í framkvæmd mati á umhverfisáhrifum samgönguáætlunar á landsvísu en nokkur Evrópulönd hafa lagt fram umhverfisskýrslur með áætlunum sem ná til einstakra landsvæða.

Samgöngukerfi landsins hefur margvísleg áhrif á samfélag, náttúru og loftslag.
Samgöngukerfi landsins hefur margvísleg áhrif á samfélagið, náttúrufar og loftslag.

Skýrslan og aðferðin

Með umhverfismatinu er stuðlað að því að tekið sé mið af umhverfissjónarmiðum við gerð tillögu að samgönguáætlun, að áætlunin sé í samræmi við aðrar áætlanir og lög og alþjóðlega samninga. Í skýrslunni eru skilgreind þau áhrif sem kunna að verða veruleg og lagðar fram tillögur um hvernig bregðast má við þeim og jákvæð áhrif eru einnig dregin fram. Skýrsluna vann vinnuhópur fulltrúa samgönguráðuneytis, Vegagerðarinnar, Flugmálastjórnar Íslands og Siglingastofnunar Íslands. Með hópnum störfuðu ráðgjafar frá VSÓ ráðgjöf.

Stefnumótun og markmið samgönguáætlunar miða beint að því að bæta og þróa samgöngur til að ná fram jákvæðum samfélagslegum áhrifum. Matshópurinn leit sérstaklega til framkvæmda í mismunandi landshlutum og var einnig fjallað sérstaklega um höfuðborgarsvæðið og miðhálendið þegar rætt var um áhrif á náttúru. Fjallað var um áhrif samgönguáætlunar á náttúrufar í hverjum landshluta en einnig um heildaráhrif áætlunarinnar á náttúrufar.

Umhverfismat samgönguáætlunarinnar er viðamikið plagg, hátt í 100 blaðsíður. Drög að skýrslunni voru send hagsmunaaðilum og vakin athygli almennings á þeim með auglýsingu síðastliðið haust. Bárust fjölmargar ábendingar frá sveitarfélögum, stofnunum og samtökum. Skýrslunni er skipt í fjóra hluta sem fjalla um skipulag og aðferðafræði matsvinnunnar, stefnumið áætlunarinnar og tengsl hennar við aðrar áætlanir og alþjóðlega samninga, umhverfisáhrif og vöktunaráætlun og að síðustu samantekt á athugsemdum og ábendingum sem fram komu við kynningu.

Helstu áhrif samgönguáætlunar

Fimm áhrifaþættir samgönguáætlunar eru:

Greiðari samgöngur. Stytting leiða milli byggðakjarna til að lágmarka ferðatíma. Undir þetta markmið fellur fjöldi framkvæmda svo sem að stytta leiðir milli staða með nýframkvæmdum, gerð jarðganga, breiðari brýr, nýjar hafnir og stækkun flugvalla. Einnig ýmsar umbætur svo sem að byggja vegi upp úr snjó, breikka og bæta legu vega og tryggja fullt burðarþol allt árið.

Uppbygging grunnnets. Áhrifaþáttur sem miðar að því að tryggja og/eða auka afkastagetu kerfisins, fyrst og fremst í formi framkvæmda og aukinnar afkastagetu. Megin áherslan er á uppbyggingu vegakerfisins. Grunnnetið tekur einnig til hafna og flugvalla sem eiga að halda í við tækniþróunina með rými fyrir stærri farartæki.

Aukið öryggi. Stefnumið um að draga úr slysum og óhöppum í samgöngum. Aðgerðir sem miða að því að fækka slysum til dæmis með styttingu leiða, byggingu vega upp úr snjó, breikkun og betri legu þeirra og ýmsum aðgerðum sem snúa að sjófarendum.

Aukin umferð. Aukin umferð vegna byggðaþróunar og bættra samgangna hefur neikvæð áhrif á losun mengandi efna í andrúmslofti og hljóðvist.

Nýframkvæmdir. Flestar nýframkvæmdir samgönguráætlunar hafa einhver neikvæð og jafnvel óafturkræf áhrif á náttúrufar, svo sem á vistkerfi, búsvæði, líffræðilega fjölbreytni, jarðmyndanir, vatnakerfi, landslag og víðerni.

Áhrif á samfélag, náttúrufar og loftslag

Áhrif samgönguáætlunar á samfélagið eru margvísleg og eru flestar framkvæmdir hennar til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á ferðir meginhluta landsmanna. Sumar framkvæmdir gætu haft neikvæð staðbundin áhrif í því tilfelli að ýta undir erfiða stöðu í jaðri stóru byggðakjarnanna. Allar bætur og styttingar á þjóðvegakerfinu munu bæta öryggi og auka umferð. Líklegt er að auknir landflutningar hafi neikvæð áhrif á almenna vegfarendur. Fylgjast þarf með þróun mengunar frá samgöngum í þéttbýli svo sem hávaða og svifryki.

Helstu áhrif á náttúrufar eru vegna einstakra framkvæmda víða um landið. Neikvæð áhrif eru meðal annars rask á gróðri og jarðminjum, tap á búsvæðum og skerðing á friðlýstu og/eða ósnortnu landi. Mest röskun á nútímahrauni fylgir vegaframkvæmdum á Norðausturlandi og Suðvesturlandi. Óvissa er um áhrif hafnar í Bakkafjöru og þarf að afla upplýsinga um náttúrufar við mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar.

Þá segir í matsskýrslunni að áður en ákvörðun er tekin um hálendisvegi þurfi að eiga sér stað almenn umræða í þjóðfélaginu þar sem margvísleg sjónarmið komi fram um tilgang og nauðsyn slíkra framkvæmda.

Óvissa er um áhrif samgönguáætlunar á hafið en mikilvægt er talið að fylgja eftir þeirri heildarstefnumörkun sem liggur fyrir um málefni hafsins, þar með talið að vernda hafsvæði sem teljast sérstök og viðkvæm.

Um áhrif á loftslag segir að til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni sé nauðsynlegt að líta til samgangna sem mikils mengunarvalds. Samgöngur valda meira en 90% af brennslu eldsneytis á Íslandi og því sé til mikils að vinna ef losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim er takmörkuð. Spáð er að mest aukning á losun á koltvíoxíði verði vegna flugumferðar en fiskiskip og bílar eigi samanlagt um helming losunar þess vegna samgangna. Bent er á að losun á koltvíoxíði frá flugvélum sé ekki hluti af Kyoto-bókuninni. Mikilvægt er að stefna að því að losun mengandi efna í andrúmsloftið frá bílum aukist ekki í sama hlutfalli og umferðin. Talið er raunhæft, samkvæmt spám umhverfisráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Orkuspárnefndar að stefna að því að losun koltvíoxíðs í andrúmsloftið frá bílaumferð muni ekki aukast verulega til ársins 2018.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum