Hoppa yfir valmynd
19. maí 2006 Innviðaráðuneytið

Breytingar ráðgerðar á reglugerðum um stærð og gerð og búnað ökutækja

Verið er að undirbúa breytingar á reglugerð er snýr að stærð og þyngd ökutækja og reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Þeir sem vilja gera athugasemdir við reglugerðardrögin eru beðnir að senda þær ráðuneytinu eigi síðar en föstudaginn 26. maí.

Í öðru tilvikinu er um að ræða breytingu á reglugerð nr. 688/2005 um stærð og þyngd ökutækja. Eru það breytingar sem snúa meðal annars að leyfa festingar fyrir yfirbreiðslur og vörn þeirra þó svo að þær standi lítillega út fyrir leyfða heildarbreidd ökutækis.

Í hinu tilvikinu er um að ræða breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja. Snýst hún um undanþágur frá reglum um stærð og breidd ökutækja og kemur meðal annars til vegna umsóknar um notkun bifreiðar og eftirvagns sem fyrirhugað er að nota á flugvöllum við flutning á eldsneyti fyrir flugvélar. Dæmi eru um að stórar kranabifreiðar og eftirvagnar hafi verið skráð þótt breidd þeirra hafi verið meiri en núgildandi reglugerðarákvæði heimila. Rétt þykir að í reglugerðina verði bætt ákvæði sem heimilar undanþágu frá reglum um leyfilega hámarksstærð bifreiðar, dráttarvélar og eftirvagns sem eingöngu er ætlað að nota utan vega eða á vegi þar sem almenn umferð er bönnuð. Akstur í almennri umferð verði háður leyfi lögreglustjóra.

Reglugerðardrögin má sjá hér að neðan.

REGLUGERÐ

um breytingu á reglugerð nr. 688/2005 um stærð og þyngd ökutækja.

1. gr.

7. gr. breytist þannig.

Í stað ?tengivagns? í lið 7.3 kemur: eftirvagns.

2. gr.

8. gr. breytist þannig:

Við lið 8.3 bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sama gildir um festingar fyrir yfirbreiðslu og vörn þeirra.

3. gr.

11. gr. breytist þannig:

Á eftir lið 11.4 kemur nýr liður, 11.5, sem orðast svo:

11.5 Verði sótt um undanþágu, sem taka skal gildi eftir 31. desember 2007, samkvæmt lið 11.1, varðandi ökutæki sem fellur undir skilgreiningu í lið 22.900 í 22. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, skal lögreglustjóri, áður en undanþága er veitt, ganga úr skugga um að viðkomandi ökutæki sé skráð og merkt í samræmi við reglugerð um gerð og búnað ökutækja, reglugerð um skráningu ökutækja og, eftir atvikum, reglur sem Umferðarstofa setur samkvæmt fyrrnefndum lið 22.900 í 22. gr.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 75. og 76. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987 og öðlast þegar gildi.

REGLUGERÐ

um breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja

1. gr.

22. gr. breytist þannig:

Á eftir lið 22.205 kemur nýr liður, 22.900 sem orðast svo:

22.900 Undanþága frá reglum um stærð ökutækis.

(1) Bifreið, dráttarvél og eftirvagn má, samkvæmt reglugerð þessari, vera stærri en hámarksgildi í reglugerð þessari og reglugerð um stærð og þyngd ökutækja segja til um sé ökutækið notað utan vegar eða á vegi þar sem almenn umferð er bönnuð.

(2) Umferðarstofa getur ákveðið að framan og aftan á ökutæki, sbr. (1), séu merki sem sýna greinilega breidd og lengd ökutækis. Umferðarstofa ákveður gerð merkjanna.

(3) Um akstur ökutækja, sbr. (1), á vegum og notkun þeirra þar fer eftir reglugerð um stærð og þyngd ökutækja.

3. gr.

Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt 2. mgr. 8. gr., 2. mgr. 30. gr., 1. og 2. mgr. 32. gr., 1. mgr. 33. gr. og 60. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987 tekur þegar gildi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum