Hoppa yfir valmynd
24. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fundur norrænna velferðarráðherra í Finnlandi

Velferðarráðherrar Norðurlandanna leggja áherslu á að velferðarkerfi þjóðanna taki mið af lýðfræðilegri þróun þar sem hlutfall aldraðra fer stöðugt hækkandi. Stuðla þarf að virkni aldraðra og heilbrigðum lífsháttum og styðja getu þeirra til sjálfsbjargar eins lengi og unnt er. 

Norrænir ráðherrar heilbrigðis- og félagsmála funduðu í Vasa í Finnlandi dagana 20. – 21, júní síðastliðinn. Ráðherrarnir voru sammála um nauðsyn þess að velferðarkerfi þjóðanna séu sterk, þau þurfi að taka mið af lýðfræðilegri þróun og bera breytingar sem fylgja hækkandi hlutfalli aldraðra. Umfjöllun um virka og heilbrigða öldrun bar hátt á fundi ráðherranna. Þeir lögðu allir áherslu á að Norðurlandaþjóðirnar væru í fremstu röð varðandi öldrunarþjónustu og heilbrigði en töldu jafnframt að samstarf þjóðanna í þessum efnum væri gefandi og mikils virði. Evrópusambandið hefur ákveðið að árið 2012 skuli tileinkað virkri öldrun og Norðurlandaráð hefur einnig ákveðið að gera þessu efni sérstaklega hátt undir höfði á næsta ári.

Á fundi ráðherranna var einnig fjallað um stuðning við fjölskyldur sem eiga í félagslegum vanda og mikilvægi þess að beita snemmtækum og fyrirbyggjandi aðgerðum. Í þessu sambandi kynntu Finnar nýja skýrslu þar sem fjallað er um reynslu af rekstri fjölskyldumiðstöðva víða á Norðurlöndunum.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpaði ráðherrafundinn og ræddi meðal annars um áherslur og ýmsar aðgerðir stjórnvalda á sviði heilbrigðismála. Hann sagði frá vinnu við gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar til ársins 2020, stöðu mála á sviði áfengis- og tóbaksvarna, þátttöku Íslands í átaki Sameinuðu þjóðanna fyrir auknu umferðaröryggi og sitthvað fleira gerði hann að umtalsefni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum