Hoppa yfir valmynd
27. maí 2003 Forsætisráðuneytið

Niðurstöður nefndar um réttindi barna um framkvæmd Íslands á samningi SÞ um réttindi barna

[Þýðing úr ensku]

CRC/C/15/Add.203

31. janúar 2003

ÓBREYTT GERÐ

NEFND UM RÉTTINDI BARNSINS

32. starfstímabil

UMFJÖLLUN UM SKÝRSLUR LAGÐAR FRAM AF AÐILDARRÍKJUM SAMKVÆMT 44. GR. SAMNINGSINS

LOKAATHUGASEMDIR NEFNDAR UM RÉTTINDI BARNSINS:

ÍSLAND

1. Nefnd um réttindi barnsins fjallaði um aðra skýrslu Íslands (CRC/C/83/Add.5), sem borist hafði 27. apríl 2000, á 858. og 857. fundi sínum (sjá CRC/C/SR. 858 og 857) hinn 28. janúar 2003, og samþykkti* eftirfarandi athugasemdir.

A. INNGANGUR

2. Nefndin tekur fram að önnur skýrslan var sett fram í samræmi við leiðbeiningar hennar um skýrslugerð, og þakkar hin fróðlegu skriflegu svör sem veitt voru. Nefndin metur mikils viðveru sendinefndar hátt settra fulltrúa frá ýmsum sviðum, sem stuðlaði að opinskárri og hreinskilinni umræðu um framkvæmd aðildarríkisins á samningnum.

B. FYLGIRÁÐSTAFANIR OG ÁRANGUR AÐILDARRÍKISINS

3. Það hefur verið nefndinni ánægjuefni að veita athygli þeim ráðstöfunum sem aðildarríkið hefur gert í tilefni af fyrri tilmælum. Hún fagnar einnig:

    • fullgildingu á valfrjálsum bókunum við samninginn um þátttöku barna í vopnaviðskiptum, barnasölu, barnavændi og barnaklám,
    • samþykt barnaverndarlaga frá 2002,
    • stofnun Barnaspítala, og
    • samþykkt heilbrigðisáætlunar, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir ráðstöfunum varðandi börn til að bregðast við notkun tóbaks og áfengis, sjá til þess að geðheilbrigðisþjónusta nái víðar, og draga úr meiðslum og dauðsföllum af völdum slysa.

·

C. HELSTU ÁHYGGJUEFNI OG TILMÆLI

C.1 ALMENNAR FRAMKVÆMDARRÁÐSTAFANIR

Yfirlýsingar

4. Nefndin veitir athygli upplýsingum sendinefndarinnar um ráðstafanir aðildarríkisins til að fylgja að fullu 9. og 37. gr. samningsins (þ.e. hvað fyrri greinina snertir ákvæði í barnaverndarlögum frá 2002 og lögum sem senn er búist við að sett verði um að dómstólar einir leiði barnaverndarmál til lykta, og hvað þá síðari snertir samning milli Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu frá 1998 um að heimila föngum undir 18 ára að aldri vistun að eigin ósk á meðferðarstofnunum undir eftirliti stofnunarinnar). Nefndinni þykir þó miður að aðildarríkið hefur enn ekki afturkallað yfirlýsingu sína við 9. gr. Að auki telur hún að samningurinn frá 1998 nái ekki að veita tryggingu að lögum fyrir aðskilnaði frá fullorðnum eins og kveðið er á um í c-lið 37. gr. samningsins.

5. Nefndin mælist til þess við aðildarríkið að:

    1. það hraði lagasetningu sem tryggir að 9. gr. samningsins sé fylgt til hlítar,
    2. það tryggi með lögum að börn í varðhaldi séu aðskilin frá fullorðnum eins og kveðið er á um í c-lið 37. gr. samningsins.

Löggjöf

6. Nefndin veitir athygli þeim upplýsingum sem aðildarríkið hefur veitt um frumvarp til barnalaga, sem meðal annars varðar forsjá barna.

7. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið:

    1. haldi áfram að tryggja að þau lög og önnur lög varðandi börn, svo og stjórnvaldsfyrirmæli, séu byggð á grundvelli mannréttinda og samræmist samningnum,
    2. tryggi að fullnægjandi ráðstafanir séu gerðar til framkvæmdar þeirra í raun, þar með talið með fjárframlögum, og
    3. íhugi að nýta sér möt um áhrif réttinda barna þegar lög eru samin, stefna mótuð og fjárhagsáætlanir gerðar.

Samræming

8. Nefndin fagnar viðleitni aðildarríkisins til að undirbúa samræmda, þverfaglega heildarstefnu í landinu um réttindi barna. Hún fagnar því einnig að í barnalögum frá 2002 er gert ráð fyrir fjögurra ára aðgerðaáætlunum félagsmálaráðuneytis og allra sveitarstjórna á sviði barnaverndar.

9. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið:

    1. íhugi að veita nefnd þeirri sem sett hefur verið á fót samkvæmt ályktun Alþingis í maí 2001 umboð til frambúðar til að samræma störf hinna mismunandi stofnana við framkvæmd samningsins, eða komi upp annarri nægilega öflugri stofnun með víðtækt umboð til þess hlutverks,
    2. tryggi áfram að undirbúningur og framkvæmd landsáætlunar um réttindi barna og þeirra áætlana sem lögin frá 2002 gera ráð fyrir byggist á mannréttindum og fari fram með opnum hætti, samráði og samstarfi,
    3. tryggi áfram að séð sé fyrir nægilegu fé til framkvæmdar þessara áætlana, einkum á sveitastjórnarstigi (t.d. gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga).

Upplýsingar

10. Nefndin metur mikils þær tölfræðilegu upplýsingar sem veittar eru í skriflegum svörum aðildarríkisins, og sú afstaða þess, að nauðsynlegt sé að safna tölfræðilegum upplýsingum um börn og greina þær á skipulegan hátt, er nefndinni til hvatningar.

11. Nefndin hvetur aðildarríkið til þess að:

    1. halda áfram að safna tölfræðilegum upplýsingum á öllum sviðum sem samningurinn tekur til, um allt fólk sem ekki hefur náð 18 ára aldri, einnig börn innflytjenda,
    2. halda áfram að nýta þær upplýsingar til að meta árangur og ákvarða stefnu við framkvæmd samningsins, og
    3. íhuga að taka saman álega heildaryfirlit um upplýsingar á þessu sviði.

Tilhögun eftirlits

12. Nefndin lýsir ánægju sinni á hinu ágæta starfi umboðsmanns barna. Hún óttast þó að sú aðstaða sem aðildarríkið veitir til þess starfs sé ekki í nægu samræmi við verkefni umboðsmanns barna, þar á meðal hinn vaxandi fjölda mála sem kanna þarf.

13. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið tryggi embættinu næga aðstöðu (í mannafla og fé) til að það geti á árangursríkan hátt sinnt því hlutverki sínu að fylgjast með framkvæmd samningsins.

Fjárveitingar

14. Nefndin veitir því athygli að ríki og sveitarfélög hafa aukið fjárveitingar sínar til málefna sem varða í heild efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi barna. Hún er þó þeirrar skoðunar að meira mætti gera á þessu sviði.

15. Í samræmi við 4. gr. samningsins hvetur nefndin aðildarríkið til að auka eins og framast er unnt fjárveitingar til að fylgja eftir efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum barna.

Alþjóðleg samvinna

16. Nefndinni hefur verið ánægja að veita athygli framlögum aðildarríkisins og ýmis konar starfi þess á sviði alþjóðlegrar samvinnu varðandi börn. Hún tekur þó fram að enda þótt þróunaraðstoð til útlanda fari vaxandi að raungildi vex hún ekki sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

17. Nefndin hvetur aðildarríkið til að halda áfram og auka starf sitt á sviði alþjóðlegrar samvinnu, meðal annars með því að leitast við að ná því markmiði Sameinuðu þjóðanna að 0,7% af heildarþjóðarframleiðslu sé varið til alþjóðlegrar þróunaraðstoðar.

Fræðsla / kynning á samningnum

18. Nefndin fagnar viðleitni aðildarríkisins til að kynna samninginn (t.d. með bæklingum um „Réttindi mín” og handbókum um samninginn ætlaðar kennurum).

19. Nefndin hvetur aðildarríkið til að:

    1. styrkja, víkka út og gera varanlega áætlun sína um dreifingu upplýsinga um samninginn og framkvæmd hans meðal barna og foreldra, almennings og allra þátta og stiga hins opinbera, þar með talið ráðstafanir til að ná til viðkvæmra hópa fólks sem er ólæst eða án formlegrar menntunar, og
    2. koma á kerfisbundinni og varanlegri fræðslu um mannréttindi, þar með talin réttindi barna, fyrir alla sem starfa fyrir börn og með börnum (svo sem dómara, lögmenn, starfsmenn löggæslu, opinbera starfsmenn, sveitastjórnarmenn, kennara og starfsfólk í heilsugæslu).

 

 

C.2 SKILGREINING HUGTAKSINS BARN

20. Um leið og nefndin veitir því athygli að barn er í íslenskum lögum skilgreint sem maður yngri en 18 ára (t.d. í lögræðislögum frá 1997), er henni áhyggjuefni að í öðrum lögum er ósamræmi hvað þetta snertir (t.d. að barnabætur ber að greiða til 16 ára aldurs).

21. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið endurskoði löggjöf sína í því skyni að tryggja samræmi aldurstakmarkana við þau lög sem í gildi eru (t.d. lögræðislögin frá 1997).

 

C.3 MEGINREGLUR

Réttur til að sæta ekki mismunun

22. Vegna hins vaxandi fjölda fólks af erlendum uppruna á Íslandi fagnar nefndin viðleitni aðildarríkisins til að bregðast við þörfum þess (t.d. með útlendingalögum 2003, skipun sérstaks fulltrúa hjá ríkislögreglu, útgáfu efnis um menningarlegt umburðarlyndi fyrir heilsugæslustarfsfólk og stofnun Alþjóðhúss í Reykjavík). Nefndin telur engu að síður nauðsynlegt að frekari ráðstafanir verði gerðar til að bregðast tímanlega við þeim möguleika að vandamál vegna kynþáttafordóma komi upp um leið og innflytjendum til landsins fjölgar.

23. Nefndin mælist til þess við aðildarríkið að það:

    1. tryggi öllum börnum á forráðasvæði sínu öll réttindi samkvæmt samningnum eins og kveðið er á um í 2. gr.,
    2. móti heildstæða og samræmda stefnu til að bregðast við vaxandi aðflutningi útlendinga, þar á meðal að veita upplýsingum til almennings er hvetja til umburðarlyndis ásamt því að fylgst sé með og safnað upplýsingum um athafnir sem eiga rætur að rekja til kynþáttafordóma,
    3. kanni aðstæður barna innflytjenda innan sveitarfélaga, einkum í skólakerfinu, og árangur af því starfi sem unnið er til að auðvelda aðlögun þeirra,
    4. tilgreini í næstu skýrslu sinni ráðstafanir og fyrirætlanir sem snerta efni samningsins og aðildarríkið gerir til að fylgja eftir yfirlýsingu þeirri og aðgerðaáætlun sem samþykkt var á heimsráðstefnu gegn kynþáttahyggju, kynþáttamismunun, útlendingahatri og svipaðri afstöðu 2001, um leið og tillit er tekið til almennrar athugasemdar nr. 1 í 1. lið 29. gr. samningsins (markmið með menntun).

Hagsmunir barns í fyrirrúmi

24. Nefndin fagnar því að reglan um það sem barni er fyrir bestu hafi verið lögfest í 4. gr. barnaverndarlaga frá 2002.

25. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið haldi áfram viðleitni sinni til að fella 3. gr. samningsins að öllu leyti inn í alla löggjöf og framkvæmd varðandi börn.

Tillit til skoðana barns

26. Nefndinni er ánægja að þeim upplýsingum að á Íslandi hafi verið komið á ýmis konar tilhögun til að börn geti látið í ljós skoðanir sínar, svo sem netþing æskunnar. Nefndin hefur engu að síður áhyggjur af því að börn kunni að skorta næg tækifæri til afskipta af stefnumálum sem varða þau beinlínis (svo sem skólastjórn, agamálum, fíkniefnavörnum, skipulagsmálum sem þau varða, o.s.frv.), að þau séu ekki nægilega upplýst um hvernig láta megi í ljós skoðanir með árangri, eða upplýst um hvernig framlag þeirra (t.d. ályktanir netþings æskunnar) kunni að verða tekið til athugunar.

27. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið:

    1. auki stuðning sinn við netþing æskunnar, þar á meðal með nægu fjárframlagi,
    2. haldi áfram að hvetja til þess og greiða fyrir því að skoðanir barna séu virtar innan fjölskyldunnar, skólakerfisins, dómstóla, stjórnsýslustofnana og sveitastjórna, og að börn taki þátt í öllum málum sem þau varða eins og kveðið er á um í 12. gr. samningsins, og
    3. komi á fræðslu og þjálfun úti í samfélaginu fyrir foreldra, kennara, félagsmálastarfsfólk og starfsmenn sveitarfélaga er beinist að því að auðvelda börnum að tjá upplýstar skoðanir sínar og fá tekið tillit til þeirra (t.d. með bæklingnum „Ekki heyrist til þeirra sem erfa munu landið”).

 

C.4 UMHVERFI FJÖLSKYLDUNNAR OG UMSJÁ UTAN HENNAR

Ofbeldi / misnotkun / vanræksla / ill meðferð

28. Nefndin fagnar samþykt barnaverndarlaga frá 2002 þar sem er að finna heildarákvæði til verndar börnum gegn vanrækslu og illri meðferð á heimilinu. Hún veitir einnig athygli stofnun Barnahúss til að veita meðferð börnum sem orðið hafa fyrir kynferðislegri misnotkun.

29. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið:

    1. veki foreldra, aðra sem hafa börn í umsjá sinni og almenning til vitundar um bann við líkamlegum refsingum – þar á meðal innan fjölskyldunnar – samkvæmt gildandi lögum,
    2. haldi áfram að styrkja hugmyndirnar sem Barnahús byggir á alls staðar í landinu,
    3. stundi kynningarstarf meðal almennings til að veita fræðslu um slæmar afleiðingar illrar meðferðar á börnum og stuðli að notkun jákvæðra agameðala án valdbeitingar í stað líkamsrefsinga,
    4. sjái fyrir nægilegri aðstöðu til umönnunar, bata og endurhæfingar þeirra sem fyrir ofbeldi hafa orðið, og
    5. veiti kennurum, löggæslustarfsfólki, umönnunarstarfsfólki, dómurum og starfsfólki við heilsugæslu fræðslu í að greina tilvik þar sem ill meðferð hefur átt sér stað, tilkynna um þau og sinna þeim, þar með talið með viðtalsaðferðum sem valda börnum er hafa orðið fyrir misnotkun sem minnstum skaða.

Aðstoð við foreldra

30. Nefndin fagnar viðleitni aðildarríkisins til að móta heildarstefnu í málum varðandi aðstoð við barnafjölskyldur, eins og greinilega kemur fram í þingsályktun um opinbera fjölskyldustefnu, stofnun Fjölskylduráðs, setningu jafnréttislaganna árið 2000, og lögum um fæðingar- og foreldraorlof árið 2000. Nefndinni þykir þó miður að:

      • Stefnumörkun sveitarfélaga á sviði fjölskyldumála hefur ekki verið nægilega sinnt, því að slík stefna hefur hingað til aðeins verið mörkuð í fáeinum tilvikum,
      • einstæðum foreldrum er ekki veittur nægur stuðningur,
      • foreldrum veikra barna er ekki veitt nægilegt frí frá störfum, og
      • almennt séð mun viðleitni til aðstoðar við foreldra, þar með talin gagnsemi starfa ráðsins, verða takmörkuð ef ekki er séð fyrir nægum mannafla og fé.

31. Í samræmi við ákvæði samningsins, einkum 18. og 27. gr. hans, mælist nefndin til þess að aðildarríkið:

    1. herði á viðleitni sinni við að hvetja sveitarfélög til að móta opinbera fjölskyldustefnu og tryggja að sú stefna byggist á mannréttindum og að sveitarfélög hafi yfir að ráða nægu fjármagni til að uppfylla þær kröfur sem sett markmið gera,
    2. herði á viðleitni sinni til að auka aðstoð við einstæða foreldra,
    3. auki það orlof sem foreldrar veikra barna eiga kost á, og
    4. tryggi að Fjölskylduráði sé veitt nægilegt fé til að það vinni þau verk sem því er ætlað.

 

C.5 HEILBRIGÐI OG VELFERÐ

Fötluð börn

32. Nefndin fagnar þeirri stefnu aðildarríkisins að fötluð börn skuli höfð innan hins almenna samfélags og veitir athygli hinni nýju stefnu varðandi langveik börn, þar á meðal á sviði heilsugæslu, almannatrygginga, menntunar og fjármála. Nefndin veitir því einnig athygli að aðstaða til umönnunar langveikra og fatlaðra barna var nýlega tekin í notkun.

33. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið:

    1. auki stuðning við fjölskyldur fatlaðra barna,
    2. haldi áfram að safna upplýsingum um hvernig réttindi fatlaðra barna eru nýtt og greina þær upplýsingar, og
    3. haldi áfram og auki viðleitni sína til að mæta öllum þörfum fatlaðra barna.

Heilsufar ungmenna

34. Nefndin fagnar upplýsingum um:

      • að sumar heilsugæslustöðvar á Íslandi bjóði ungmennum sérþjónustu, þar á meðal á sviði fíkniefnamála og kynsjúkdóma, upplýsingar varðandi þungun og geðheilbrigðisráðgjöf, og
      • að landlæknir hafi hafið starf til að fyrirbyggja sjálfsvíg.

35. Nefndin hvetur aðildarríkið til að:

    1. styrkja viðleitni sína til að auka aðgang að þeirri þjónustu, þar á meðal gegnum menntakerfið, og
    2. haldi áfram að kanna og meta eðli og umfang heilsufarsvandamála meðal ungmenna, og nýti afraksturinn, með fullri þátttöku ungmenna, sem grunn að stefnumörkun og frekara starfi.

 

C.6 MENNTUN

Menntun

36. Nefndinni var ánægja að veita því athygli að hrint hefur verið af stað herferð gegn einelti í mörgum skólum, og að lífsleikni er meðal námsgreina. Henni er þó áhyggjuefni að:

      • menntunarmarkmið samkvæmt 29. gr. samningsins (þ.e. virðing fyrir mannréttindum, umburðarlyndi, og jafnrétti kynjanna og trúarlegra og þjóðernislegra minnihlutahópa) eru hvergi á námsskrá í aðildarríkinu, og
      • að innflytjendabörn hverfa of oft frá námi, einkum framhaldsnámi.

37. Nefndin hvetur aðildarríkið, með Almennar athugasemdir hennar nr. 1 um menntunarmarkmið jafnframt í huga, til að:

    1. fella mannréttindafræðslu, þar á meðal fræðslu um réttindi barna, berum orðum inn í námsskrár allra grunnskóla og framhaldsskóla, einkum hvað varðar virðingu fyrir mannréttindum, umburðarlyndi, og jafnrétti kynjanna og trúarlegra og þjóðernislegra minnihlutahópa, og
    2. styrki þær ráðstafanir sem gerðar eru til að bregðast við tíðu brotthvarfi innflytjendabarna frá námi.

 

C.7 SÉRSTAKAR VERNDARRÁÐSTAFANIR

Kynferðisleg misnotkun

38. Nefndin fagnar upplýsingum um hin nýlega settu lög gegn barnaklámi (2000). Hún fagnar einnig skýrslu um athugun stjórnvalda á umfangi barnavændis og barnakláms, þar sem ýmis tilmæli eru sett fram. Nefndinni þykir þó miður hversu lág aldursmörk eru sett fyrir samþykki til kynmaka (14 ár), þar sem þau kunna að veita börnum eldri en 14 ára ófullnægjandi vernd gegn kynferðislegri misneytingu.

39. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið:

    1. geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til að framkvæma strax öll tilmæli sem sett voru fram í skýrslu stjórnvalda,
    2. geri löggjafarráðstafanir til að tryggja börnum eldri en 14 ára fulla vernd gegn kynferðislegri misneytingu,
    3. móti og framkvæmi landsáætlun um aðgerðir gegn kynferðislegri misneytingu í samræmi við Yfirlýsingu og Aðgerðaáætlun og Alheimsætlun þá sem samþykkt var af Heimsþingi gegn kynferðislegri nýtingu barna í ágóðaskyni 1996 og 2001.

Ungmenni og afbrot

40. Nefndin veitir því eftirtekt að ef frá eru taldar nokkrar sérstakar ráðstafanir, svo sem reglugerð nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og um yfirheyrslur, og breytingarákvæði í lögum um meðferð opinberra mála um yfirheyrslu barna sem orðið hafa fyrir kynferðisafbrotum, er engin heildarskipan í gildi í landinu um afbrotamál að því leyti sem að ungmennum snýr.

41. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið:

    1. komi á sérstöku kerfi réttarfars í sakamálum ungmenna, þar á meðal ungmennadómstólum, og
    2. tryggi að ákvæði samningsins, einkum 37. gr., 39. gr. og 40. gr., svo og aðrar viðeigandi viðmiðunarkröfur á þessu sviði, svo sem Beijing-reglurnar, Ríjad-leiðbeiningarreglurnar, Reglur Sameinuðu þjóðanna um vernd ungmenna sem svipt hafa verið frelsi og Leiðbeiningarreglur um aðgerðir refsivörslukerfisins vegna barna, séu að fullu felld inn í sakamálaréttarfar þess, bæði hvað varðar löggjöf og framkvæmd.

 

C.9 KYNNING Á SKÝRSLUM

42. Í ljósi 6. mgr. 44. gr. samningsins leggur nefndin til að skýrslan og skrifleg svör aðildarríkisins verði gerð íslenskum almenningi sem víðast aðgengileg og að tekið verði til athugunar að birta skýrsluna ásamt viðeigandi samantektum fundargerða og lokaathugasemdum nefndarinnar. Því skjali skyldi dreift sem víðast svo að efna megi til umræðna og efla vitneskju um samninginn, framkvæmd hans og framkvæmdareftirlit á öllum stigum stjórnsýslu aðildarríkisins og meðal almennings, þar á meðal stofnana utan hins opinbera sem láta sig það varða.

43. Í ljósi tilmæla þeirra um reglulegar skýrslur sem nefndin hefur samþykkt og lýst er í fundarskýrslum CRC/C/114 og CRC/C/124, og þar sem þriðja reglulega skýrsla aðildarríkisins er væntanleg innan tveggja ára frá því er fjallað var um aðra skýrslu þess, beinir nefndin því til aðildarríkisins að það leggi fram þriðju og fjórðu skýrslu sína sameinaðar hinn 26. maí 2008 (þ.e. 18 mánuðum fyrir þann skiladag sem nefndin hefur ákveðið fyrir hina fjórðu reglulegu skýrslu).



* Á 862. fundi, sem haldinn var 31. janúar 2003.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum