Hoppa yfir valmynd
19. mars 2007 Innviðaráðuneytið

Unnið verður eftir fjögurra ára samgönguáætlun

Samgönguáætlanir fyrir árin 2007 til 2010 og 2007 til 2018 voru til umfjöllunar á síðustu starfsdögum Alþingis. Fjögurra ára áætlunin var samþykkt en tólf ára áætlunin var ekki afgreidd eins og gerðist með nokkur önnur frumvörp ríkisstjórnarinnar.

Samgönguáætlun til fjögurra ára lýtur að niðurröðun framkvæmda á hvert ár fyrir sig og er því framkvæmdaáætlun sem byggð er á stefnumótun tólf ára áætlunar hverju sinni. Sú tólf ára áætlun sem er því í gildi nær yfir árin 2003 til 2014 og styðst hin nýsamþykkta fjögurra ára áætlun við hana. Því lítur samgönguráðuneytið svo á að engar truflanir verði á framkvæmdum, undirbúningi eða útboðum verkefna á þessu fjögurra ára tímabili.

Skilyrði sem lög um samgönguáætlun setja fjögurra ára áætluninni 2007-2010 er það að hún rúmist innan ramma áætlunarinnar 2003-2014. Fjárhagsrammi þeirrar áætlunar var 218 milljarðar króna. Samkvæmt útreikningum sem taka mið af þeim fjögurra ára samgönguáætlunum sem hafa verið samþykktar fyrir árin 2003-2006 og 2005-2008 stendur eftir svigrúm að upphæð 141 milljarður króna í áætluninni 2003-2014 og hefur þá ekki verið tekið tillit til verðlags. Ráðstöfun fjögurra ára áætlunarinnar 2007-2010 er upp á 130 milljarða króna. Niðurstaðan er því sú að það sé svigrúm innan núgildandi langtímaáætlunar fyrir áætlunina 2007-2010.

Samgönguráðherra mun skrifa forráðamönnum stofnana ráðuneytisins, sem byggja starf sitt að miklu leyti á stefnumótun samgönguáætlunar hverju sinni, og greina frá þessari afgreiðslu Alþingis og þeirri afstöðu ráðuneytisins að ekki þurfi að koma til truflana á framkvæmdum eða undirbúningi þeirra næstu árin.

Gera verður ráð fyrir að tólf ára samgönguáætlun verði lögð fyrir Alþingi sem kemur saman að afloknum kosningum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum