Hoppa yfir valmynd
28. júní 2018

Doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði

Opið er fyrir umsóknir fyrir stöðu doktorsnema innan Umhverfis- og auðlindafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Verkefnið er fjármagnað af RANNIS og er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

Heiti verkefnis og lýsing
„Landfræðilegt sjálfbærnimat á leiðum til aukinnar rafvæðingar í samgöngum“.
Markmið rannsóknarinnar er að framkvæma sjálfbærnigreiningu á leiðum til aukinnar rafvæðingar í samgöngum á Íslandi sem byggir m.a. á landfræðilegum upplýsingakerfum, kvikum kerfislíkunum, og sjálfbærnivísum.  Meðal annars verða metin áhrif á flutnings- og dreifikerfi raforku, á tekjur og gjöld hins opinbera, útgjöld einstaklinga, umhverfisáhrif og áhrif á orkuöryggi. 

Námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði er þverfræðileg námsbraut á framhaldsstigi sem stofnsett var á haustmisseri 2005. Námsbrautin heyrir undir öll fræðasvið Háskóla Íslands Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Félagsvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið. Námsbrautinni er ætlað að koma til móts við þarfir samfélagsins, sem og vaxandi áhuga nemenda, á rannsóknum, þjónustu og stefnumótun tengdri umhverfismálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Meginmarkmið námsins er að útskrifa nýja kynslóð fagfólks sem hefur haldgóða þekkingu og færni á sviði umhverfis- og auðlindafræða og getur unnið þvert á fræði og faggreinar.

Verkefnið er styrkt til þriggja ára og vinna við það hefst 1. september 2018, eða eftir samkomulagi.

Menntunar- og hæfniskröfur
- Meistaragráða í verkfræði eða skyldum greinum eða bakgrunnur í tölvunarfræðum og aðgerðargreiningum 
- Reynsla af landfræðilegum upplýsingakerfum er kostur. 
- Enskukunnátta í töluðu og rituðu máli.

Umsóknarfrestur
Umsóknarfrestur er til og með 16. júlí 2018. Sótt er um starfið á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf.

Nánari upplýsingar veitir Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor ([email protected]).

Umsókninni skal fylgja i) kynnisbréf (ekki lengra en 1bls)  þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað hann/hún hefur fram að færa við mótun og vinnslu þess. Til viðbótar skal fylgja; ii) ferilskrá, iii) afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistaranám), iv) tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvernig má hafa samband við umsagnaraðila.

Við ráðningu verður tekið tillit til náms- og rannsóknarferils, birtinga, rannsóknaráhuga, meðmæla sem og reynslu og þekkingar sem tengist viðfangsefni verkefnisins. 

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.
Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.
Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi.  Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans. 

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum