Hoppa yfir valmynd
13. mars 2008 Innviðaráðuneytið

Framkvæmdir við Suðurlandsveg og Vaðlaheiðargöng hefjast á næsta ári

Tvöföldun Suðurlandsvegar frá Litlu kaffistofu að Hveragerði og jarðgöng undir Vaðlaheiði eru meðal þeirra framkvæmda sem felast í viðauka við samgönguáætlun 2007-2010, sem kynntur var í dag. Gert er ráð fyrir að báðar þessar framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2009. Þá felur viðaukinn einnig í sér að framkvæmdum við tengivegi víða um land verður flýtt, auk tiltekinna framkvæmda við hafnir og flugvelli.

Í kjölfar ákvörðunar um niðurskurð þorskkvótans ákvað ríkisstjórnin á síðastliðnu sumri að grípa til mótvægisaðgerða í formi framkvæmda í samgöngumálum til að draga úr áhrifum fyrirsjáanlegs aflasamdráttar. Tilkynnti ríkisstjórnin flýtingu framkvæmda að upphæð 6.500 m.kr. Í ljósi svo mikilla breytinga á samgönguáætlun þótti nauðsynlegt að gera viðauka við samgönguáætlun 2007 – 2010, sem samþykkt var á Alþingi í mars 2007, og gera þar með grein fyrir breytingum á einstökum liðum áætlunarinnar. Viðauki þessi er nú kynntur og verður hann lagður fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu nú á vorþingi.

Auk þeirra atriði sem að framan greinir er í viðaukanum tekið á nokkrum frekari breytingum á áætluninni, sem nauðsynlegt er talið að gera. Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu breytingum sem lagt er til að gerðar verði í hverjum málaflokki fyrir sig. Langflest þeirra verkefna sem fjallað er um í viðaukanum eiga sér þegar stoð í fjárlögum 2008.

Vegamál

Meginefni breytinga í vegagerð tekur á ákvörðunum sem ríkisstjórnin tók á síðastliðnu sumri um flýtingu vegaframkvæmda víða um land. Nokkrar aðrar tillögur eru þó gerðar nú um breytingu á áætluninni. Ein þeirra er um nýjan tengiveg að Bakkafjöruhöfn, en samkvæmt áætlunum sem nú eru uppi um hafnargerð þar þarf að leggja veginn á þessu ári. Önnur breytingin varðar jarðgöng undir Vaðlaheiði og miðast við að framkvæmdir þar geti hafist á árinu 2009 og að framkvæmdir við Suðurlandsveg hefjist einnig árið 2009. Báðar þessar framkvæmdir verða í einkaframkvæmd. Hluti ríkisins verði greiddur með jöfnum árlegum greiðslum í 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur.

Lagt til að greitt sé mótframlag vegna endurbóta á ferjuhöfnum á Dalvík og Brjánslæk. Þá er sýnt að ekki verður unnt að vinna að nokkrum verkefnum eins og fyrri áætlun gerði ráð fyrir þar eð undirbúningur hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir. Hluti af því svigrúmi sem við það myndast er notað til að auka framkvæmdir við tengivegi. Stofnkostnaður vegna Grímseyjarferju er tiltekinn sérstaklega en var áður innifalinn í upphæðinni til ferja og flóabáta. Að lokum er lagt til að gerðar verði breytingar á fjárveitingum til almenningssamgangna m.a. vegna fjölgunar ferða Herjólfs til Vestmannaeyja og styrkts flugs til Vestmannaeyja.

Flugmál

Helstu breytingar á áætlun um flugmál eru þær að lagt er til að lengingu Akureyrarflugvallar um 460 m auk ýmissa annarra tengdra aðgerða verði flýtt. Viðhaldsframkvæmdum á flugvellinum er einnig flýtt til samræmis. Gert er ráð fyrir að gerð verði flughlöð við nýja samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli og einnig verði gerð ný bráðbirgðaaðstaða fyrir innanlandsflug á vellinum. Framangreindar framkvæmdir eru fjármagnaðar með lántöku hjá ríkissjóði á svipaðan hátt og endurgerð Reykjavíkurflugvallar á sínum tíma. Sérstök fjáröflun til samgöngumiðstöðvarinnar er felld niður þar sem gert er ráð fyrir að miðstöðin verði fjármögnuð á annan hátt og hún standi sjálf undir kostnaði við fjárfestingu og rekstur.

Siglingamál

Liður í ákvörðun ríkisstjórnar um mótvægisaðgerðir vegna samdráttar þorskveiðiheimilda var að fresta skyldi gildistöku ákvæða hafnalaga um breytingu á styrkjum til hafnarframkvæmda um tvö ár eða til 1. janúar 2011. Hafnir sem verða fyrir tekjusamdrætti og eru með verkefni inni á gildandi samgönguáætlun eiga því möguleika á að fresta framkvæmdum sem voru á áætlun árin 2007 eða 2008 til áranna 2009 og 2010.

Nokkrar hafnir hafa þegar valið þennan kost í ár og ljóst er að fleiri munu bætast í hópinn á næsta ári. Í fjárlögum fyrir árið 2008 var þess vegna tekin ákvörðun um tímabundna frestun 200 m.kr. framlags til hafnarmannvirkja. Á grundvelli upplýsinga sem fyrir liggja hjá Siglingastofnun Íslands um stöðu verkefna er gerð tillaga um færslu verkefna fyrir 200 m.kr. frá árinu 2008 yfir á árin 2009 og 2010.

Frá samþykkt samgönguáætlunar 2007-2010 í mars síðastliðnum hafa komið fram óskir um nokkrar minniháttar breytingar á verkefnum sem falla undir siglingamálakafla áætlunarinnar. Hér er gerð tillaga um breytingar á samgönguáætlun til að mæta þessum óskum. Um er að ræða breytingar á fimm liðum í siglingamálaáætluninni, tvær á rekstrarliðum og þrjár á stofnkostnaðarliðum. Lagt er til að liðurinn Hafnir, líkantilraunir og grunnkort verði hækkaður vegna óska sveitarfélaganna um rannsóknir vegna nýrrar atvinnustarfsemi. Eins er gerð tillaga um fjárveitingu til að hefja fyrstu rannsóknir og líkantilraunir vegna nýrrar hafnar við Húsavík. Gerð er tillaga um hækkun á samningi við Neyðarlínuna um rekstur Vaktstöðvar siglinga. Gerðar eru ýmsar tillögur um breytingar og frestun verkefna að ósk sveitarfélaganna.

Fjarskiptamál

Aðgerðir í fjarskiptamálum eru ekki hluti af viðauka við samgönguáætlun. Ríkisstjórnin ákvað þó að flýta framkvæmdum við uppbyggingu í fjarskiptamálum sem hluta af áðurnefndum mótvægisaðgerðum.

Uppbyggingu á fyrsta hluta gsm-netsins, GSM I, sem er nær til hringvegarins og 5 fjallvega, er nánast lokið. GSM II tekur til stofnvega aðallega á Vestfjörðum og NA-landi og tveggja þjóðgarða. Áætlunin gerði ráð fyrir að þeirri uppbyggingu yrði lokið á árinu 2009 en samkomulag hefur náðst við aðilann sem fékk verkefnið um að þeirri uppbyggingu verði hraðað og gert er ráð fyrir að verkefninu verði að mestu lokið á þessu ári. Stærsta hluta þess svæðis sem GSM II verkefnið náði til á N-Austurlandi verður þjónað á markaðsforsendum.

Útboð á umfangsmesta verkefninu sem eru háhraðatengingar til allra landsmanna er nú í gangi en verkefnið nær til tenginga á um 1200 stöðum á landsbyggðinni. Útboðsferlið og val á tilboðsaðila tekur um 5 mánuði og framkvæmdatími ræðst af tilboðum, en verður þó aldrei lengri en 22 mánuðir. Uppbyggingu á svæðum sem mótvægisaðgerðir vegna skerðingar þorskkvóta ná til, þ.e. Vestfirðir og á N-Austulandi verður lokið fyrr, eða á innan við ári frá undirritun samnings.

Einnig hefur verið í undirbúningi að koma ljósleiðaraþráðum NATO í borgaraleg not. Stefnt er að útboði á afnotum þeirra á vormánuðum. Þau meginmarkmið hafa verið höfð að leiðarljósi að stuðla að aukinni samkeppni í gagnaflutningum á innanlandsmarkaði og um leið að auka aðgengi almennings að háhraðatengingum, einkum út á landi, auk þess að draga úr kostnaði vegna viðhalds og reksturs ljósleiðaranna. Talið er að aðgangur nýrra aðila að flutningsgetu út á land muni auka verulega samkeppni og hafa jákvæð áhrif á verð til í neytenda (smásölu).



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum