Hoppa yfir valmynd
8. mars 2018

Nýdoktor í lífupplýsingafræði - Háskóli Íslands - Reykjavík - 201803/523

 

Nýdoktor í lífupplýsingafræði - Rannsóknir og þjónusta - Háskóli Íslands

Umsóknarfrestur framlengdur til 17. apríl nk.

Auglýst er eftir nýdoktor í lífupplýsingafræði og felst starfið í þróun hugbúnaðar fyrir lífupplýsingafræði og uppsetningu forrita á tölvukjarnanum Mími sem staðsettur er á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. Hlutverk nýdoktorsins er tvíþætt. Annars vegar að sinna Mími og þjónusta rannsóknahópa sem vilja nýta hugbúnað til lífupplýsingafræðilegra greininga, en margir hópanna tilheyra Lífvísindasetri Háskóla Íslands (http://lifvisindi.hi.is/). Hins vegar að sinna grunnrannsóknum á sviði lífupplýsingafræði í samstarfi við Pál Melsted (https://melstedlab.github.io).

Þjónustuhluti verkefnisins felst í að setja upp og viðhalda tilteknum hugbúnaði og grunnskrám fyrir lífupplýsingafræðilegar greiningar, setja upp vinnslulínur, aðstoða rannsakendur við tiltekin verkefni og greiningar, þjálfa framhaldsnema og aðra rannsakendur. 

Rannsóknarverkefni nýdoktorsins felst í þróun algríma fyrir greiningu gagna úr háhraðaraðgreiningum og forrita til að greina samröðun DNA/RNA og magngreina RNA.

Umsækjandi hefur tækifæri til að taka þátt í margþættum rannsóknaverkefnum, vinna sem meðhöfundur á greinum og stunda sjálfstæðar rannsóknir.

Hæfnikröfur
Doktorspróf í lífupplýsingafræði, tölulegri líffræði, líftölfræði eða skyldri grein.
Krafist er víðtækrar reynslu í lífupplýsingafræði, tölulegri líffræði, líftölfræði eða sambærilegri grein. 
Reynsla af linux og lífupplýsingafræði, t.d. að setja inn forrit, skriptur og gagnasöfn, eiga við uppfærslur, forritun og skriptun í Python, R/bioconductor og bash skelinni, og keyra forrit á háhraða raðgreiningargögnum er æskileg.
Æskilegt er að umsækjandi hafi reynslu og áhuga á því að þróa forrit og hugbúnað á sviði lífupplýsingafræði og að þróa verkfæri og vinnslulínur fyrir vísindalegt samfélag.

Staðan er til tveggja ára með möguleika á framlengingu eftir framvindu verkefnisins. 

Umsókn og umsóknarfrestur
Umsóknarfrestur er til og með 17. apríl 2018. Gert er ráð fyrir að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst.
Sótt er um starfið á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf.  

Vinsamlega skilið eftirfarandi gögnum með umsókninni:
Kynningarbréfi (ekki meira en 2 bls.) þar sem umsækjandi lýsir hvernig kröfur starfsins eru uppfyllt. Áhuga viðkomandi á verkefninu og hvað hann getur lagt af mörkum til þess.
Ferilskrá.
Staðfest afrit af prófskírteinum (BSc, MSc og PhD) og einkunnadreifing.
Nöfn, sími og tölvupóstfang tveggja meðmælenda með lýsingu á tengslum þeirra við umsækjanda.
Yfirlit yfir birtingar ef það á við.
Umsækjendum er einnig boðið að senda PDF útgáfu af meistara- og/eða doktorsritgerð sinni, sem og aðrar birtingar sem við eiga (hámark 5 skjöl).

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Frekari upplýsingar veita Páll Melsted, prófessor ([email protected]) og Arnar Pálsson, dósent ([email protected]).

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi.  Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans. 

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum