Hoppa yfir valmynd
13. september 2004 Dómsmálaráðuneytið

Leiðbeiningar um alþjóðlegar fjölskylduættleiðingar

Uppfært 27.02.14

Inngangur

Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálanum) frá 1989 og alþðlegum samningi um vernd barna og ættleiðingar milli landa, gerðum í Haag 1993 (Haagsamningurinn).

Með aðild sinni að framangreindum samningum hefur Ísland skuldbundið sig til þess að hlíta ákveðnum reglum við meðferð mála vegna ættleiðingar á erlendu barni.

Í 21. gr. Barnasáttmálans segir m.a. að aðildarríki sem viðurkenni og/eða leyfi ættleiðingu skuli tryggja að fyrst og fremst sé litið til þess sem barni er fyrir bestu. Þau skuli sjá til þess að ættleiðing barns sé aðeins heimiluð af þar til bærum stjórnvöldum sem ákveði samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð og á grundvelli viðeigandi og áreiðanlegra upplýsinga að ættleiðing sé leyfileg með hliðsjón af stöðu barnsins gagnvart foreldrum þess, skyldmennum og lögráðamönnum. Þau skuli og sjá til þess að þeir sem í hlut eiga hafi ef þess er krafist veitt samþykki sitt fyrir ættleiðingu, að íhuguðu máli og að fenginni nauðsynlegri ráðgjöf. Jafnframt segir að aðeins megi taka ættleiðingu milli landa til athugunar sem aðra leið til að sjá barni fyrir umönnun, ef ekki er unnt að koma því í fóstur eða til ættleiðingar eða veita því með einhverjum viðeigandi hætti umönnun í upprunalandi sínu.

Í inngangi Haagsamningsins segir að hverju aðildarríki beri að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að börn geti fyrst og fremst notið umsjár upprunalegrar fjölskyldu sinnar. Ættleiðing milli geti aðeins veitt barni fjölskyldu til frambúðar, sem ekki eigi kost á viðeigandi fjölskyldu í upprunalandi sínu. 

Leiðbeiningar þessar eru settar með skírskotun til framangreindra sjónarmiða.


Skilgreining

Með alþjóðlegri fjölskylduættleiðingu er átt við ættleiðingu erlends ríkisborgara eða fyrrum erlends ríkisborgara, sem á fasta búsetu hér á landi, á tilteknu barni, sem er umsækjanda náskylt og sem er búsett í upprunalandi hans. Þetta á við hvort sem umsækjandi sækir einn um ættleiðingu eða með maka sínum.

Um alþjóðlega fjölskylduættleiðingu gilda íslensk ættleiðingarlög og því er slík ættleiðing ekki heimil nema sýslumaður samþykki hana með útgáfu forsamþykkis í samræmi við 29. gr. ættleiðingarlaga, nr. 130/1999.

Samþykki foreldra

Forsamþykki fyrir alþjóðlegri ættleiðingu verður ekki veitt ef foreldrar barns, annað eða bæði, fara með forsjá þess, nema alveg sérstaklega standi á. Sama á við ef önnur skyldmenni fara með forsjá þess. Ef talið er að alveg sérstaklega standi á og að meðferð máls skuli fram haldið þótt forsjárforeldri sé til staðar, sem einungis getur átt sér stað í undantekningartilvikum, verður að afla upplýsts samþykkis forsjárforeldris eða foreldra til ættleiðingarinnar. Einnig ber þá að afla umsagnar foreldris sem kann að eiga umgengnisrétt við barn.

Samþykki barns

Barn sem náð hefur 12 ára aldri hefur rík tengsl við land sitt og þjóð og eru þá tiltölulega fá ár þar til barn verður lögráða. Forsamþykki fyrir ættleiðingu barns sem náð hefur framangreindum aldri verður því ekki gefið út nema mjög mikilvægar ástæður séu fyrir hendi.

Ef talið er að slíkar ástæður séu fyrir hendi verður samþykki barns til ættleiðingarinnar að liggja fyrir áður en forsamþykki er veitt. Sama á við ef yngra barn hefur þroska til að tjá sig um fyrirhugaða ættleiðingu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um ættleiðingar. Leiðbeina ber barni rækilega um réttaráhrif ættleiðinga hér á landi áður en það veitir samþykki sitt, sbr. meginreglu 2. mgr. 6. gr. laganna. Sýslumaður ákveður í hverju máli fyrir sig hverjum skal falið að annast leiðbeiningarnar.

Málsmeðferð

Ef sótt er um forsamþykki fyrir alþjóðlegri fjölskylduættleiðingu án milligöngu félags sem hefur löggildingu innanríkisráðherra samkvæmt 34. gr. laga um ættleiðingar, sbr. reglugerð nr. 238/2005, ber umsækjanda eða umsækjendum, auk þess sem fram kemur í 3. gr. reglugerðarinnar, að leggja fram fæðingarvottorð barnsins ásamt greinargerð með upplýsingum um barnið, þ.á m. um tengsl þess við umsækjanda eða umsækjendur, hugsanleg systkin og ítarlegum lýsingum á aðbúnaði þess í heimalandinu. Sýna ber fram á, að aðbúnaður barnsins sé með þeim hætti að rík þörf sé á að barnið yfirgefi land sitt og eignist nýja fjölskyldu hér á landi.

Sýslumaður aflar staðfestingar frá viðeigandi aðilum (stjórnvöldum sem fara með ættleiðingarmál eða barnaverndaryfirvöldum í heimalandi barnsins) um að veittar upplýsingar séu réttar og að aðbúnaður og aðstæður barns séu svo sem haldið er fram. Jafnframt kallar sýslumaður eftir yfirlýsingu þar til bærs ættleiðingaryfirvalds í heimalandi barnsins um að barnið sé laust til ættleiðingar hér á landi og óskar eftir, ef því er að skipta, að ættleiðingaryfirvöld í heimalandi barnsins afli samþykkis forsjárforeldra þess eða forsjárforeldris til ættleiðingarinnar og eftir atvikum umsagnar foreldris sem á umgengnisrétt við barnið.

Samhliða þessu, eða að fengnum umbeðnum upplýsingum, sendir sýslumaður umsókn umsækjenda til lögboðinnar umsagnar viðkomandi barnaverndarnefndar, enda telji sýslumaður framkomin gögn gefa tilefni til að halda meðferð málsins áfram.

Þegar upprunaríki hefur staðfest að barni verði ekki tryggð viðunandi umönnun i heimlandinu og að það telji ættleiðingu barnsins til Íslands því fyrir bestu og að fenginni jákvæðri umsögn barnaverndarnefndar, þar sem mælt er með útgáfu forsamþykkis, gefur sýslumaður út forsamþykki fyrir ættleiðingunni.

Sýslumaður sendir forsamþykkið ásamt viðeigandi gögnum til ættleiðingaryfirvalda í heimalandi barnsins, og getur þá ættleiðingarmálið hafist eða haldið áfram í því ríki. Þetta á við hvort sem heimaríki barns er aðili að Haagsamningnum eða ekki.

Ef sýslumaður synjar útgáfu forsamþykkis má kæra synjunina til innanríkisneytisins.

Meðferð mála af þessu getur tekið marga mánuði, jafnvel mörg ár.

Kostnaður vegna skjalaþýðinga o.fl.

Umsækjendum ber að greiða kostnað af þýðingu málsskjala yfir á ensku eða opinbert tungumál í heimaríki barnsins, af löggiltum skjalaþýðanda, svo og annan kostnað sem til kann að falla, t.d. vegna notarialgerða og apostille-staðfestingar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum