Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra á Kristnitökuhátíð

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra á Kristnitökuhátíð 2. júlí 2000



Forseti Íslands
Aðrir landsmenn
Erlendir gestir



Hér á Þingvöllum varð þjóðin til. Hana mynduðu afkomendur fólks sem hingað sigldi frá fjarlægum löndum í leit að friði og farsæld. Forfeður þess komu frá byggðum og áhrifasvæðum norræns fólks í Noregi og á Bretlandseyjum. Þeir voru af norrænum og keltneskum stofni. Þeir voru víkingar, bændur, kaupmenn, skáld og sögumenn. Þeir voru menn, konur og börn, frjálsir menn og ófrjálsir. Flestir voru þeir goðatrúar, en aðrir voru kristnir eða trúðu á vættir og dísir eða einhverja blöndu af átrúnaði.

Þeir sáu skjótt að koma þyrfti skipulagi á samskipti þeirra sem landið byggðu, til þess að sameina krafta þeirra til nauðsynlegra verka. Þeir sáu að setja þyrfti lög og skera úr deilumálum með friðsamlegum hætti. Þetta gerðu þeir. Þeir komu á hreppum og staðbundnum þingum heima í héraði og þeir komu á allsherjarþingi hér á Þingvöllum. Hér fóru bæði fram löggjafarstörf og dómsstörf í aðskildum stofnunum. Hér komu menn árlega saman frá öllum landsins byggðum og hér skapaðist sú samkennd sem gerði íbúa landsins að einni þjóð – Íslendingum.

Íslendingar vildu ekki framselja ákvörðunarvald sitt til eins höfðingja. Þeir vissu af reynslu forfeðra sinna að slíkt gat haft í för með sér ánauð og erfiða tíma og þeim var ljóst að margir forfeðranna höfðu einmitt flúið ánauð konungsvalds, sem taldi að þegnarnir væru til að þjóna valdinu, en ekki hið gagnstæða. Sú skipan ríkti hér í nær fjórar aldir eftir upphaf landnámsins. Hér ríktu lögin en ekki konungar með framkvæmdavald, en það var skipan sem ekki átti sér hliðstæðu í álfu okkar á þeim tíma.

Þegar að því kom að velja þurfti þjóðinni sameiginleg trúarbrögð, sökum erlends þrýstings og trúmálaágreinings valdamikilla höfðingja, leystu menn það á þessum stað. Tekist var á með brandi orðsins, en ekki brandi blóðsins. Og lausnin var fundin, að því er segir í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, á þann veg að málið var lagt í dóm viturs manns, Þorgeirs Ljósvetningagoða, sem sjálfur var goðatrúar.

Hinn eftirminnilegi úrskurður hans, varð heillaríkur. Kristin trú hefur orðið þjóðinni til blessunar. Hún hefur mildað mannlega framkomu á margvíslegan hátt, gefið þjóðinni viðmið í daglegu lífi og veitt henni styrk og huggun í þrautum.

Með kristnitökunni bárust nýir straumar til landsins. Ekki bara straumar trúarinnar heldur straumar evrópskrar kirkjuskipunar og evrópskrar bókmenningar. Hér spruttu af þeim meiði bókmenntir á norrænni tungu, bókmenntir sem enn eru akkeri íslenskrar menningar. Biskupsstólar og klaustur urðu fræðslustofnanir í fremstu röð. Kristin trú , kristið siðferði og kristin kirkja urðu og eru enn styrkur þjóðarinnar í baráttunni við náttúru sem á sér óblíðar hliðar og ýmis áföll sem yfir hafa dunið. Þjóðin nærðist af kristinni trú og kirkjan óx af þjóðinni. Hin upprunalega norræna tunga varðveittist, ekki síst fyrir tilstuðlan þeirra kirkjulegu rita sem á hana voru skráð.

Fyrir tilstuðlan erlends drottnara skipti þjóðin síðar um kirkjudeild. Það gerðist ekki á jafn friðsamlegan hátt og kristnitakan sjálf. Siðaskiptin röskuðu þó ekki þeim kjarna kristinnar trúar sem þegar var óaðskiljanlegur þjóðarsálinni og er það enn. Þau urðu til þess að styrkja menningu okkar og þjóðerni.

Í upphafi nýrrar aldar horfum við fram á veg. Við sjáum ekki til loka þess árþúsunds sem nú er hafið, en við hefjum göngu okkar með trúna að leiðarljósi, trúna sem þjóðin ákvað á þessum stað fyrir þúsund árum að helga líf sitt og störf.

Megi Guð blessa okkur á þeirri braut.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum