Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Steinn Jóhannsson skipaður rektor Menntaskólans við Hamrahlíð

Steinn Jóhannsson hefur verið skipaður rektor Menntaskólans við Hamrahlíð. Að fenginni umsögn skólanefndar Menntaskólans við Hamrahlíð hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ákveðið að skipa Stein í embættið en skipað er til fimm ára frá og með 1. ágúst 2018. Þrjár umsóknir bárust um embætti rektors skólans.

Steinn hefur víðtæka kennslu- og stjórnunarreynslu á framhalds- og háskólastigi og gegndi meðal annars embætti skólameistara Fjölbrautaskólans við Ármúla á árunum 2012–2017 og síðan 2017 hefur hann starfað sem konrektor Menntaskólans við Hamrahlíð og sem settur rektor skólans frá febrúar til apríl 2018. Á árunum 2002–2012 starfaði Steinn sem forstöðumaður kennslusviðs Háskólans í Reykjavík.

Steinn lauk BA-prófi í stjórnmálafræði og sögu frá University of Louisiana í Monroe (1992) og MA-prófi í sagnfræði með áherslu á stjórnmálasögu frá sama skóla (1994). Hann lauk einnig námi í uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands og er með kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi (1996).

Hann hefur einnig gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, svo sem formennsku í Skólameistarafélagi Íslands og siðanefnd Háskólans í Reykjavík.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum