Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2007 Innviðaráðuneytið

Aukin upplýsingagjöf fyrir erlenda ökumenn á Íslandi

Hert viðurlög við umferðarlagabrotum, áherslur í umferðaröryggi og upplýsingagjöf fyrir erlenda ökumenn á Íslandi voru umfjöllunarefni blaðamannafundar, sem samgönguráðherra efndi til í dag, í samstarfi við Umferðarstofu, Vegagerðina, lögregluna á Hvolsvelli og Sjóvá.

Frá blaðamannafundi um umferðaröryggismál.
Frá blaðamannafundi um umferðaröryggismál. Frá vinstri: Einar Guðmundsson, Kristján L. Möller og Sveinn Kristján Rúnarsson.

Í ávarpi við upphaf fundarins sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra tilefnið vera þá miklu ferðahelgi sem framundan væri og að okkur væri ,,öllum hollt að staldra við og brýna okkur sjálf til þess að sýna ábyrgð í umferðinni og raunar ekki aðeins um þessa helgi heldur alltaf." Um leið var minnt á þau hertu viðurlög við umferðarlagabrotum sem tekið hafa gildi síðustu vikur og mánuði og meðal annars kynnt eins konar reiknivél á vef Umferðarstofu auk þess sem kynntar voru nýjar upplýsingar á ensku fyrir erlenda ökumenn á Íslandi.

Í lok ávarps síns bað samgönguráðherra fyrir eftirfarandi orðsendingu til ökumanna um helgina:

  • Sýnum aðgæslu í umferðinni, ökum á löglegum hraða í samræmi við aðstæður með beltin spennt og án vímuefna.
  • Það verður mikil umferð um helgina. Gerum ráð fyrir að allar ferðir okkar taki lengri tíma en vanalega, ætlum okkur meiri tíma. Það er betra að koma of seint í áfangastað en komast alls ekki.
  • Sýnum ábyrga hegðun í umferðinni.

Að loknu ávarpinu opnaði samgönguráðherra nýjan hlekk á vefsíðu Umferðarstofu, us.is, sem nefnist sektir og viðurlög. Er þar að finna reiknivél þar sem unnt er að skoða hver eru viðurlög við því að aka yfir hámarkshraða. Einnig er hægt að skoða viðurlög við ölvunarakstri.

Ný skilti á ensku og upplýsingar í bílaleigubíla

Vegagerðin og Sjóvá hafa haft samvinnu um gerð nýrra upplýsingaskilta á ensku sem ætluð eru erlendum ökumönnum á Íslandi. Skiltin verða sett upp á allmörgum stöðum á þjóðvegakerfinu þar sem malbik endar. Er þar vakin athygli á að framundan sé malarvegur og að hámarkshraði þar sé 80 km á klukkustund. Hvert skilti kostar kringum 200 þúsund krónur uppkomið og er ráðgert að setja upp á næstu vikum kringum 20 skilti. Það fyrsta var sett upp á Krýsuvíkurvegi þar sem malbikaður vegarkafli endar. Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, sem styrkt hefur skiltagerðina, afhjúpaði skiltið á fundinum ásamt Kristjáni L. Möller samgönguráðherra og Jóni Rögnvaldssyni vegamálastjóra.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvoldvelli, kynnti ný upplýsingablöð á ensku sem ætluð eru erlendum ökumönnum. Lögreglan á Hvolsvelli hefur haft frumkvæði að því að láta útbúa upplýsingablöðin og sagði Sveinn Rúnar það gert þar sem hlutfall erlendra ökumanna meðal þeirra sem teknir eru fyrir hraðakstur færi sífellt hækkandi. Með þessari orðsendingu frá lögreglunni er vakin athygli á að hámarkshraði á íslenskum þjóðvegum sé 90 km og bent á að hraðakstur sé varasamur ekki síst á malarvegum, þar sem einbreiðar brýr eru á þjóðvegunum og búfé geti verið við vegina. Sveinn og Einar Guðmundsson, forstöðumaður Forvarnahússins, afhentu síðan fulltrúum frá nokkrum bílaleigum vænan skammt af þessum upplýsingablöðum. Verður þeim dreift á bílaleigur og annars staðar þar sem má vænta þess að erlendir ökumenn séu á ferð.

Hér má skoða reiknitöfluna á vef Umferðarstofu.

Nýtt upplýsingaskilti fyrir erlenda ökumenn.
Kringum 20 slíkum skiltum verður komið fyrir á þjóðvegakerfinu á næstu vikum. Þetta skilti er á Krýsuvíkurvegi.

Ný upplýsingaspjöld fyrir ferðamenn afhent fulltrúum frá bílaleigum.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, afhendir hér fulltrúum frá nokkrum bílaleigum nýju upplýsingaspjöldin fyrir erlenda ökumenn á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum