Hoppa yfir valmynd
23. desember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á eftirliti með lögreglu

Innanríkisráðherra hefur skipað í nefnd um eftirlit með störfum lögreglu í samræmi við breytingar á lögreglulögum sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor. Skipan nefndarinnar er nýmæli í lögreglulögum og er henni meðal annars ætlað að taka við erindum frá borgurum og greina hvort um sé að ræða kæru um refsiverða háttsemi eða kvörtun er lúti að starfsaðferðum lögreglu.

Aðdragandi málsins er sá að innanríkisráðherra skipaði nefnd í byrjun árs 2015 sem fjallaði um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglu. Var nefndin skipuð í kjölfar ábendinga frá umboðsmanni Alþingis og ríkissaksóknara um að úrbóta væri þörf.

Nefndinni var falið að meta núverandi kerfi og lagareglur og gera tillögur að breyttu verklagi og lagabreytingum. Þannig var henni falið það hlutverk að gera tillögu að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi sem fælist í móttöku og afgreiðslu á kærum og kvörtunum vegna starfa lögreglunnar, eftirfylgni á athugasemdum ríkissaksóknara vegna starfa lögreglu og eftir atvikum frumkvæðiseftirliti með störfum lögreglu. Nefndin skilaði skýrslu síðari hluta árs 2015 og setti fram drög að breytingu á lögreglulögum sem kynnt voru á vef ráðuneytisins.

Í lögreglulögum hefur verið mælt fyrir um hvernig fara skuli með kærur á hendur lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við  störf hennar. Hins vegar hefur ekki verið að finna í lögunum sérstök ákvæði sem kveða með skýrum hætti á um hvernig fara skuli með kvartanir á hendur lögreglu vegna einstakra starfa eða starfshátta lögreglu almennt.

Í lögunum segir að hlutverk eftirlitsnefndar sé að:

  • taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans; berist héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara slíkar kærur eða rannsókn er hafin á slíku broti án kæru skal eftirlitsnefnd tilkynnt um það,
  • taka við kvörtunum vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald; berist slíkar kvartanir til annarra embætta eða stofnana skulu þær framsendar nefndinni án tafar,
  • taka til athugunar mál þegar maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot,
  • taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til.

Formaður nefndarinnar er Trausti Fannar Valsson, dósent við Háskóla Íslands, sem skipaður er án tilnefningar, og aðrir nefndarmenn eru Þorbjörg Inga Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, tilnefnd af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður, tilnefnd af Lögmannafélagi Íslands. Nefndin er skipuð frá fyrsta janúar næstkomandi til fjögurra ára og er sjálfstæð stjórnsýslunefnd.

Nefndin hefur aðsetur að Skuggasundi 3, 101 Reykjavík.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum