Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2019

Lektor við Námsbraut í sjúkraþjálfun

Lektor við Námsbraut í sjúkraþjálfun – Heilbrigðisvísindasvið – Háskóla Íslands – Reykjavík

Laust er til umsóknar fullt starf lektors við Námsbraut í sjúkraþjálfun innan Læknadeildar á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Starfið felur fyrst og fremst í sér kennslu og rannsóknir, auk stjórnunarskyldu. Gert er ráð fyrir að viðkomandi muni m.a. hafa umsjón með námskeiðum og kenna efni á sviði heilsueflingar og/eða geðheilbrigðis, innan sjúkraþjálfunar.

Menntunar- og hæfniskröfur:
Doktorspróf eða próf sem jafnað verður til doktorsprófs, eða jafngild hæfni að mati dómnefndar
Klínísk reynsla innan sjúkraþjálfunar
Sérþekking á sviði heilsueflingar/velferðar, og/eða geðsjúkraþjálfunar/heilsusálfræði
Rannsóknarvirkni á sviði sjúkraþjálfunar
Reynsla af kennslu/leiðbeiningu á háskólastigi og stjórnun er mikill kostur
Hæfni í mannlegum samskiptum 
Umsækjendur þurfa að geta kennt og átt í samskiptum við starfsmenn og nemendur námsbrautarinnar á íslensku og/eða ensku

Helstu verkefni:
Hafa umsjón með og kenna námskeið um heilsueflingu/velferð, og/eða geðsjúkraþjálfun/heilsusálfræði
Byggja upp rannsóknir við námsbrautina á sviði sjúkraþjálfunar
Leiðbeina í BS og MS verkefnum á sviði sjúkraþjálfunar, með áherslu á heilsueflingu/velferð, og/eða geðsjúkraþjálfun/heilsusálfræði
Taka þátt í stjórnun námsbrautarinnar

Við ráðningu verður miðað við, að sá er starfið hlýtur falli sem best að aðstæðum og þörfum námsbrautarinnar.

Ráðið verður í starfið til fimm ára, með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Rektor er heimilt að veita framgang í stöðu dósents eða prófessors strax við nýráðningu uppfylli viðkomandi þau skilyrði sem kveðið er á um í reglum nr. 263/2010 um framgang og tímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.

Umsóknarfrestur er til og með 18. mars 2019. 

Æskilegt er að viðkomandi hefji störf eigi síðar en 1. ágúst 2019.

Sótt er um starfið á vefsíðu Háskóla Íslands undir laus störf

Umsækjendur skulu láta fylgja með umsókn sinni, ferilskrá, vottorð um námsferil sinn, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og rannsóknaráætlun ef til ráðningar kemur. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Ef ekki er unnt að skila fylgigögnum með umsókn á rafrænu formi skal skila þeim í þríriti til vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík. Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Við ráðningar í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands. 

Nánari upplýsingar veitir Kristín Briem, prófessor og formaður Námsbrautar í sjúkraþjálfun ([email protected] / s. 525 4096).

Háskóli Íslands er stærsta mennta-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er á meðal 300 bestu háskóla heimsins samkvæmt lista Times Higher Education. Hann er ríkisháskóli sem staðsettur er í miðbæ Reykjavíkur. Fjölbreyttur, nútímavæddur og hratt vaxandi, býður Háskóli Íslands upp tækifæri á nær 300 brautum til náms og rannsókna innan flestra sviða vísinda og menntunar, þ.e. innan félagsvísinda, heilbrigðisvísinda, hugvísinda, menntavísinda og verk- og raunvísinda.

Námsbraut í sjúkraþjálfun tilheyrir Læknadeild sem er ein af sex deildum Heilbrigðisvísindasviðs við Háskóla Íslands. Námsbrautin býður upp á fimm ára nám til starfsréttinda í sjúkraþjálfun; þriggja ára BS nám í sjúkraþjálfunarfræðum og tveggja ára MS nám í sjúkraþjálfun. Á hverju hausti eru teknir inn 35 nemendur samkvæmt frammistöðu á inntökuprófi. Það er stefna Námsbrautar í sjúkraþjálfun að mennta sjúkraþjálfara sem eru gagnrýnir í hugsun, byggja starf sitt á gagnreyndri þekkingu, skila árangri, fylgja siðareglum og eru virkir í símenntun. Við útskrift eiga nemendur að hafa þróað með sér fagmennsku og samfélagslega ábyrgð. Við námsbrautina starfa núna sex akademískir starfsmenn sem allir stunda metnaðarfullar rannsóknir á ýmsum sviðum innan sjúkraþjálfunar og tengdra sviða, í samvinnu við erlenda og innlenda aðila. Ætlast verður til að sá sem hlýtur umrætt starf breikki og styrki enn frekar rannsóknarsvið námsbrautarinnar.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum