Hoppa yfir valmynd
1. mars 2018

Doktorsnemi - Háskóli Íslands, Umhverfisverkfræði - Reykjavík - 201803/448

 

Doktorsnemi í umhverfis- og byggingarverkfræði - Verkfræði- og náttúruvísindasvið - Háskóli Íslands

Námsbraut í Umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands auglýsir lausa til umsóknar stöðu doktorsnema í umhverfisverkfræði (eða umhverfisfræði) með áherslu á blágrænar regnvatnslausnir í borgarumhverfinu. Verkefnið er styrkt til þriggja ára af Rannsóknasjóði, Rannís. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Vatnaverkfræðideild Háskólans í Lundi, Landbúnaðarháskóla Íslands og íslenska hagsmunaaðila. 

Markmið doktorsverkefnisins er að lýsa myndun ofanvatns og virkni blágrænna ofanvatnslausna í misleitu borgarumhverfi á veturna þar sem tíð skipti eru á milli frosts og þíðu. Verkefnið innifelur mælingar á yfirborðsrennsli og jarðvegsísig í svelgjum, úrvinnslu gagna, og vatnafræðilegar hermanir. Niðurstöðurnar verða birtar í alþjóðlegum vísindatímaritum.   

Bakgrunnsupplýsingar um hverfið sem verður rannsakað og tengd prógrömm:

Urriðaholt hverfið hannað með tilliti til blágrænna ofanvatnslausna sjá hér: (https://www.youtube.com/watch?v=sq8K9rcV1u8)

Lund University “Sustainable Urban Flood Management, SUrF” sjá hér: (http://www.surf.lu.se/ ), 

Lund University “Urban Nature: Nature Based Solutions (NBS) in Urban Areas” research project sjá hér: (http://www.cec.lu.se/research/urban-nature)

Umsækjendur þurfa að hafa lokið MSc gráðu í umhverfis- og/eða byggingarverkfræði, eða í umhverfisvísindum með sterkan eðlisfræðibakgrunn. Reynsla við gagnaúrvinnslu og vatnafræðilega líkangerð er ákjósanleg. Umsækjendur þurfa að vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og búa yfir færni í aðferðafræði og mannlegum samskiptum. Enskukunnátta í ræðu og riti er skilyrði fyrir samþykkt í námið. Sá sem verður ráðinn þarf að senda formlega umsókn um doktorsnám á heimasíðu Háskóla Íslands.

Umsóknarfrestur er til og með 12. apríl 2018. 

Samkomulag verður um upphafsdag, en ákjósanlegt er að það verði í síðasta lagi í september 2018. 
 
Sótt er um starfið á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf.

Umsókninni skal fylgja kynnisbréf þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað hann/hún hefur fram að færa við mótun og vinnslu þess. Kynnisbréfið skal ekki vera lengra en ein blaðsíða. Til viðbótar skal fylgja; i) ferilskrá, ii) afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistaranám), iii) tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvernig má hafa samband við umsagnaraðila, og iv) yfirlýsing um ensku kunnáttu (mest hálf blaðsíða), og niðurstöður TOEFL/IELTS prófs ef þær upplýsingar liggja fyrir. 
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Nánari upplýsingar veitir Hrund Andradóttir prófessor ([email protected]). 

Laun eru samkvæmt kjarasamningi hlutaðeigandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi.  Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans. 

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum