Hoppa yfir valmynd
14. október 2002 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra á Kirkjuþingi 2002

Ávarp Sólveigar Pétursdóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra, við setningu Kirkjuþings 13. október 2002.

Ávarp
Sólveigar Pétursdóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra,
á Kirkjuþingi 2002





Biskup Íslands og frú,
Aðrir virðulegir biskupar
Forseti kirkjuþings,
kirkjuþingsfulltrúar
og aðrir góðir gestir.

Við upphaf Kirkjuþings vil ég bjóða nýtt kirkjuþing velkomið til starfa. Það er ánægjulegt að sjá hér aftur kunnug andlit en einnig mörg ný andlit. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hversu margar konur eru orðnir þingfulltrúar. Mál var til komið að skipting kynjanna endurspeglaði þátttökuna í störfum innan kirkjunnar. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum konum fyrir það hversu dygg stoð og stytta þær hafa verið, og mikil kjölfesta í safnaðarstarfinu, ávallt reiðubúnar að fórna tíma og vinnu til óeigingjarnra starfa í þágu kirkjunnar. Konur á Íslandi hafa í aldanna rás verið burðarás í að viðhalda trúnni og styrkja kristnina í landinu. Það er því mikið fagnaðarefni að konum hefur nú verið veitt brautargengi til aukinnar þátttöku í æðstu stjórn kirkjunnar á kirkjuþingi, líkt og í öðrum störfum á kirkjulegum vettvangi. Síðastliðið vor stóð jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar fyrir málþingi undir heitinu KONUR Á KIRKJUÞING, og vafalítið hefur sú umræða átt ríkan þátt í jafna aðild kynjanna hér. Ég hvet ykkur kirkjuþingskonur til virkrar þátttöku í störfum kirkjuþings og vænti góðs af.
Ég vil líka nota tækifærið til þess að þakka kirkjuþingsfulltrúum síðustu fjögurra ára fyrir mjög gott og árangursríkt starf við að fylla með starfsreglum út í rammalögin um þjóðkirkjuna frá 1997 undir traustri forystu Jóns Helgasonar, forseta Kirkjuþings. Ég veiti því athygli að vinnubrögð og störf kirkjuþings verða æ skilvirkari, sem sést ef til vill best á því að þrátt fyrir að skráð þingmál séu orðin meira en þrjátíu talsins, hyggst kirkjuþingið ljúka störfum á einni viku, sem er mun skemmri tími en á undanförnum árum. Ég vil líka láta í ljós ánægju mína með það að kirkjuþingsmenn minnist sérstaklega 150 ára afmælis barnaskólans á Eyrarbakka, en það minnir okkur á hið afar mikilvæga hlutverki kirkjunnar í menntamálum þjóðarinnar á fyrri tíð.

Þegar litið er yfir málaskrána kennir margra grasa. Mörg málanna eru hefðbundnar árlegar skýrslugjafir og önnur snerta lagfæringar eða endurbætur á eldri starfsreglum. Sum mál hafa verið í mótun og umræðu í langan tíma, þar sem þau hafa þurft mjög víðtæka umfjöllun innan kirkjunnar á öllum stigum hennar. Í því sambandi má sérstaklega nefna starfsmannastefnu þjóðkirkjunnar og endurskoðun á reglum um val á prestum. Þau mál voru einnig til umræðu á síðasta kirkjuþingi og verða nú tekin fyrir á nýjan leik.

Eitt stærsta mál þessa kirkjuþings er tillaga að stefnumótun fyrir þjóðkirkjuna, en kirkjuráð og biskup Íslands standa að flutningi tillögunnar. Í kjölfar setningar þjóðkirkjulaganna 1997 og til að nota tilefnið, þegar þúsund ára kristnitöku var minnst árið 2000, einsetti þjóðkirkjan sér að hefja mjög ítarlega endurskoðun á öllu starfi sínu, og hófst handa við undirbúning að þeirri vinnu, hvernig hún ætti að stefna inn í næstu öld. Á síðasta ári var gengið frá skipuriti fyrir biskupsstofu með skilgreiningu á verkefnunum. og hver bæri ábyrgð á þeim. Nú er ætlunin að vinna áfram að stefnumótun samkvæmt hefðbundnum aðferðum stjórnunarfræðinnar og með markvissum hætti með tilliti til stöðu þjóðkirkjunnar og hlutverks í nútímasamfélagi. Framtíðarsýnin verður skilgreind með það í huga að gera starfið markvissara og til að bæta það og efla. Stefnt er að því að virkja sem flesta innan þjóðkirkjunnar til þátttöku í þessari stefnumótun. Meðal annars fór fram rækileg kynning og umfjöllun á Prestastefnunni á Egilsstöðum í júní sl. um stefnumótunina. Hér er um gífurlega umfangsmikið og stórt verkefni að ræða og ég óska þess af alhug að þjóðkirkjan nái þeim háleitu markmiðum sem hún stefnir að í þessum efnum. Ráðgert er að á kirkjuþingi árið 2003 verði síðan lögð fram til afgreiðslu, tillaga um mörkun framtíðarstefnu.

Um nokkurra ára skeið hafa viðræðunefndir af hálfu þjóðkirkjunnar og ríkisins fjallað um prestssetur og prestssetursjarðir og framtíðarskipan þeirra í eignaréttarlegu tilliti. Viðræðurnar hafa vissulega dregist mjög á langinn og vonir um að það sæi fyrir endann á málinu áður en þetta Kirkjuþing kæmi saman brugðust. Málið er þó komið á það stig að fulltrúar ríkissjóðs í viðræðunum hafa lagt fram tilboð sem felur í sér afhendingu 84 prestssetra og prestssetursjarða til þjóðkirkjunnar til fullrar eignar og umráða ásamt verulegri meðgjöf. Um það tilboð náðist ekki samkomulag. Hér er hvorki staður né stund til að rekja stöðu þessa máls nánar, en viðræðum verður haldið áfram og ég tel mikilvægt að það verði farsællega leitt til lykta.

Á síðastliðnu ári reyndist nauðsynlegt að gæta verulega aukins aðhalds í fjármálum ríkisins til að ná endum saman og þjóðkirkjan fór ekki varhluta af þeim aðgerðum, því að lögbundin verðlagsuppfærsla sem koma átti á sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld var ekki látin koma til framkvæmda. Nú í haust var ákveðið að framlagið fái eðlilega uppfærslu frá fyrra ári og engar ráðagerðir eru uppi um frekari skerðingu á sóknar- og kirkjugarðsgjöldum.

Senn verða liðin fimm ár frá því að þjóðkirkjulögin tóku gildi. Í lögunum fólust mörg nýmæli, nýskipan og miklar skipulagsbreytingar. Þótt sitt hvað þurfi að lagfæra í þeim, hafa þau að stofni til reynst vel. Nú fer og að reyna á byltingarkennt nýmæli sem var fólgið í því að prestar skuli ráðnir tímabundið til 5 ára. Forvígsmenn prestastéttarinar töldu þetta ákvæði afar slæmt, því að starfsöryggi presta gæti verið í uppnámi enda starf þeirra oft vandasamt. Forsvarsmenn sóknarnefnda töldu hins vegar afar kærkomið að fá ákvæði af þessum toga í lögin, því að þótt prestar séu óháðir í embættisfærslunni, væru þess dæmi að samvinna prests og safnaðar eða sóknarnefndar gengi ekki upp. Ég hlýt að lýsa ánægju minni með það að almennt virðist sem samstarf presta og sóknarnefnda sé það gott að ekki þykji ástæða til að auglýsa stöðurnar að nýju, en það er sú leið sem annars væri rétt að fara, standi vilji safnaða til þess.

Eitt atriði sem ég vil nefna við ykkur góðir kirkjuþingsmenn til umhugsunar, er skipulag safnaðarstarfs íslendinga sem búa á erlendri grund. Á síðustu árum hefur Íslendingum sem setjast að erlendis til lengri eða skemmri tíma fjölgað. Íslensk fyrirtæki hafa í vaxandi mæli hafið starfsemi á erlendri grund og samningar okkar við nágranna- og samstarfsríki okkar í Evrópu hafa stórlega létt Íslendingum að setjast að og starfa erlendis.

Þegar þannig myndast íslensk samfélög erlendis vaknar fljótlega þörfin á að koma skipulagi á trúarlíf þess fólks sem samfélagið myndar. Í nokkrum mæli hefur verið komið til móts við þetta með samstarfi kirkju og ráðuneyta, en ég tel rétt að menn taki það til skoðunar að koma á fastmótaðra skipulagi á kirkjustarf þjóðkirkjumanna á erlendri grundu eins og við þekkjum frá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum.


Góðir þingfulltrúar,

Um leið og ég þakka gott hljóð við ég óska Kirkjuþingi velfarnaðar og allra heilla í störfum sínum og megi Guð vera með ykkur öllum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum