Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp ráðherra við afhendingu verðlauna í hugmyndasamkeppni um fyrirkomulag rafrænna kosninga

Góðir áheyrendur,

Á s.l. vori birti dóms- og kirkjumálaráðuneytið auglýsingu þess efnis, að ráðuneytið hefði ákveðið að standa fyrir hugmyndasamkeppni um tilhögun kosninga með rafrænum hætti. Tekið var fram að hugmyndirnar skyldu fjalla um

- tæknibúnað á kjörstað
- kjörskrármerkingar
- kosningar með eða án notkunar kjörseðla
- sendingu kosningaúrslita af kjörstað til yfirkjörstjórna
- talingu atkvæða á kjörstað eða hjá yfirkjörstjórnum
- úrvinnslu kosningaúrslita.

Alls bárust 6 hugmyndir undir dulnefnum til ráðuneytisins. Sérstakri valnefnd var falið að fjalla um hugmyndirnar og sátu í henni Dr. Jón Þór Þórhallsson sérfræðingur í tölvumálum, Gunnar Eydal skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg, Ingvi Hrafn Óskarsson aðstoðarmaður ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins þeir Arnar Þór Jónsson, Ásdís Ingibjargardóttir, Björn Friðfinnsson og Jón Thors.

Ég hef fallist á niðurstöður nefndarinnar og er þeim dreift hér en ég mun í máli mínu tala út frá þeim.

Flestar hugmyndirnar sem bárust eiga það sammerkt að þær horfa til framtíðar og gera ráð fyrir rafrænt reknu samfélagi, sem ekki er til staðar í dag. Þar er fyrst og fremst átt við að allar tillögurnar nema ein gera ráð fyrir persónuskilríkjum sem hægt sé að árita og lesa rafrænt en slík skilríki eru ekki í notkun hér á landi í dag. Slík skilríki eru þegar komin á markað, en verulegur kostnaður myndi felast í að taka þau upp og tæpast að sparnaður við kosningaframkvæmd eins sér réttlæti hann. Fjölbreyttari not þeirra gætu hins vegar réttlætt þann kostnað síðar. Við erum komin með tölvutækni sem auðveldar hvers konar miðlun og úrvinnslu stafrænna upplýsinga, en vandamálið er að tryggja að innfærsla á vilja kjósanda í leynilegum kosningum sé áreiðanleg og að algjörlega sé girt fyrir kosningasvik. Búið er að gera ýmis konar tilraunir með skoðanakannanir og kosningar á veraldarvefnum, en vandamálið er alltaf það sama – hvernig er hægt að treysta því að sá sem slær atkvæði sitt inn í tölvuna, sem sá sem hann segist vera.

En það er hægt að hugsa sér ýmsar lausnir til einföldunar við þessa innfærslu. Við þekkjum frá nágrannaríkjunum í Evrópu lausnir eins og t.d. kosningaseðla fyrir hvern lista, sem síðan mætti aðgreina með einhvers konar strikamerkingum við talningu og Bandaríkjamenn hafa um áratuga skeið a.m.k. notað eins konar vélræna atkvæðakassa. Nefndin er sammála um að þennan þátt þurfi að athuga betur með tilliti til þess hvað unnt sé að gera með hóflegum kostnaði.

Nefndin telur líka vafamál, hvort allar tillögurnar séu framkvæmdanlegar miðað við núgildandi kosningalög. Hún telur að kerfið þurfi að vera sveigjanlegt þannig að það getið ráðið við framkvæmd laganna . Hún telur að hugmyndasmiðirnir sem þátt tóku í samkeppninni hafi með einni undantekningu ekki kynnt sér lögin nægilega.

Í tillögunum er gert ráð fyrir notkun miðlægrar kjörskrár þótt mismikið sé gert úr þýðingu þess. Miðlæg kjörskrá myndi væntanlega þýða að menn gætu kosið í hvaða kjörstað sem er og utankjörstaðaatkvæðagreiðslur vegna ferðalaga innanlands gætu því dregist verulega saman. Þetta myndi líka auðvelda upplýsingagjöf um heildarkjörsókn og um það , hverjir hefðu neytt kosningaréttar síns á hverjum tíma.

Loks fjalla tillögurnar um ýmis konar tilhögun á sjálfri kosningunni og fyrirkomulagi í kjörklefa. Flestir hugmyndasmiðirnir gera ráð fyrir tölvulæsu fólki sem vart er því að nota tölvu og mús. Aðeins ein tillaga kemur til móts við þá sem eru ekki tölvulæsir og hafa litla eða enga reynslu af tölvum.

Ég ætla ekki að rekja hugmyndirnar nánar, en hér er um samkeppni að ræða um hugmyndir og mikil vinna er eftir að gera úr þeim grunn,sem hægt sé að byggja ákvarðanir stjórnvalda. Hver þeirra hefur sitt sjónarhorn, en til samans gefa þær góða hugmynd um mögulega framtíðarþróun á rafrænu fyrirkomulagi kosninga. Þegar unnt verður að koma þeim á er hægt að hugsa að ýmsar breytingar á kosningum, t.d. að sameina betur án mikils kostnaðar listakjör og persónukjör en nú er unnt og hvers konar úrvinnsla á kosningatölum verður mun framkvæmanlegri og ódýrari.

Nefndin taldi sig ekki geta gert upp milli hugmynda hvað varðar 1. og 2. verðlaun. Gerði hún því að tillögu sinni að sameina 1. – 2. verðlaun, sem samtals nema 800 þúsund krónum og skipta þeim svo jafnt milli þeirra sem hlytu 1.- 2. verðlaun. Nefndin lagði einnig til að auk þess að veita 1. – 2. verðlaun og 3. verðlaun, yrði sú tillaga sem þá er eftir keypt inn fyrir 100 þúsund krónur. Hef ég fallist á þessar tillögur.

Ráðuneytið mun í samræmi við tillögur valnefndarinnar fara þess á leit við þá aðila, sem hreppa 1. – 2. verðlaun í samkeppninni til að starfa saman að því að útfæra hugmyndir sínar og gera sýningarhæfa frumgerð að kosningakerfi. Ráðuneytið vill stuðla að þessu inna þess ramma sem fjárlög leyfa, en einnig kæmi til greina að leita til einkaaðila í sambandi við fjármögnun frumgerðarinnar, enda gæti útkoman orðið markaðsvara sem unnt væri að selja víðar en hérlendis.

Þá hefur nefndin lagt til að stefnt verði að því að hafa frumgerðina til sýnis fyrir almenning. Mætti þá kanna möguleika á að nota hana í tilraunaskyni við aðrar kosningar en sveitarstjórnar- eða þingkosningar, t.d. við prófkjör stjórnmálaflokka eða við annars konar skoðanakönnun um menn eða málefni. Ég tek undir þetta sjónarmið.

(Hér á eftir afhenti ráðherra svo verðlaun í samkeppninni, en þegar nafnleynd var rofin kom í ljós að þeir sem unnið hefðu til 1. – 2. verðlauna væru Tölvubraut ehf. annars vegar og hins vegar Ásta Þorleifsdóttir og Jens Fylkisson, Net- og gagnahögunarhópi EJS
Féllu 400 þúsund í hlut hvors aðila.
3. verðlaun hlaut fyrirtækið Hugvit hf. og námu verðlaunin 200 þúsund krónum.
Loks var keypt inn tillaga Vals Óskarssonar fyrir 100 þúsund krónur).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum