Hoppa yfir valmynd
29. október 1999 Dómsmálaráðuneytið

Reglur um störf nefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara

Reglur nr. 693 11. október 1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998.

1. gr.

Dómsmálaráðherra skipar þriggja manna nefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara.
Hæstiréttur tilnefnir einn nefndarmann, sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Dómarafélag Íslands tilnefnir einn nefndarmann úr hópi héraðsdómara og Lögmannafélag Íslands tilnefnir einn úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti.
Hver nefndarmaður er skipaður til þriggja ára í senn, en þó þannig að skipunartími eins nefndarmanns rennur út hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.

2. gr.

Um sérstakt hæfi nefndarmanna gilda ákvæði 3. - 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Varamaður tekur sæti í nefndinni í forföllum aðalmanns og þegar aðalmaður er vanhæfur til umsagnar um umsækjendur. Í forföllum varamanns eða ef hann er einnig vanhæfur skal sá aðili sem tilnefndi hann, tilnefna mann í hans stað.
Varamaður tekur einnig sæti í nefndinni ef aðalmaður færist undan störfum í nefndinni af sérstökum ástæðum, öðrum en þeim sem áður eru taldar.
Ef aðalmaður lætur af störfum í nefndinni skal sá aðili sem tilnefndi hann, tilnefna nýjan aðalmann og nýjan varamann ef þörf krefur.
Telji umsækjandi að nefndarmaður sé vanhæfur til að fjalla um umsókn skal hann gera ráðherra grein fyrir þeirri afstöðu sinni innan viku frá því að umsóknarfresti lauk. Slíkar athugasemdir skulu sendar nefndinni til úrlausnar.

3. gr.

Innan viku frá því að frestur til að sækja um embætti héraðsdómara rann út, skal dómsmálaráðherra senda dómnefndinni þær umsóknir sem borist hafa.
Dómnefndin skal skila umsögn um umsækjendur innan fjögurra vikna frá því að umsóknirnar bárust henni. Sá frestur getur þó orðið allt að tveimur vikum lengri, ef sérstakar ástæður valda nauðsyn þess, svo sem mikill fjöldi umsækjenda o.þ.h.

4. gr.

Dómnefnd skal kanna hvort umsækjendur uppfylli skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.
Þá skal nefndin hafa til hliðsjónar eftirtalin atriði við mat á hæfni umsækjenda:

  1. starfsferill
  2. fræðileg þekking
  3. almenn og sérstök starfshæfni
  4. góð tök á íslensku máli

Dómnefndin getur sett sér frekari verklagsreglur við mat á hæfni umsækjenda sem dómsmálaráðherra skal samþykkja.
Nefndin getur boðað umsækjendur í viðtal og krafið þá um ýmis gögn, svo sem öll prófskírteini, sakavottorð, vottorð um endurmenntun og sýnishorn af lögfræðilegum verkefnum.
Þá getur dómnefnd aflað sér vitneskju um starfsferil umsækjanda hjá fyrri vinnuveitendum hans og öðrum, sem samskipti hafa átt við umsækjanda vegna starfa hans.


5. gr.

Dómnefndin skal skila skriflegri umsögn um umsækjendur þar sem fram kemur:

  1. rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda,
  2. rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telur hæfastan og eftir atvikum samanburður og röðun á umsækjendum eftir hæfni.

Ef samkomulag verður ekki um sameiginlega umsögn nefndarmanna getur hver þeirra um sig samið sérálit um hæfni umsækjenda.


6. gr.

Nefndarmönnum er skylt að gæta þagmælsku um atriði er varða umsækjendur og þeir fá vitneskju um í starfi sínu eða eru rædd á fundum nefndarinnar. Þagnarskyldan helst eftir að látið er af starfi í nefndinni.

7. gr.

Dómnefndin skal senda dómsmálaráðherra umsögn sína ásamt umsóknum og fylgigögnum sem hún hefur aflað sér.
Dómsmálaráðherra skal kynna hverjum umsækjanda álit dómnefndar skv. a lið 1. mgr. 5. gr. um hann sjálfan og álit dómnefndar skv. b lið 1. mgr. 5. gr. og gefa honum kost á að gera skriflegar athugasemdir. Berist ráðherra athugasemdir skulu þær bornar undir dómnefndina.
Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara.

8. gr.

Dómsmálaráðuneytið varðveitir umsóknir um embætti héraðsdómara, umsagnir dómnefndar og fylgigögn.
Þeir sem sitja í dómnefnd hverju sinni eiga rétt á að kynna sér fyrri umsagnir nefndarinnar.

9. gr.

Nefndarmönnum skal greidd þóknun úr ríkissjóði fyrir störf sín í nefndinni.
Dómsmálaráðuneytið ákveður fjárhæð þóknunar.

10. gr.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt ákvæðum í 4. mgr. 12. gr. laga um dómstóla nr. 15 25. mars 1998, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um störf nefndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 92/1989.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 11. október 1999.


Sólveig Pétursdóttir.

__________________
Margrét Hauksdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum