Hoppa yfir valmynd
17. mars 2017 Dómsmálaráðuneytið

Drög að breytingum á almennum hegningarlögum vegna mútubrota til umsagnar

Drög að frumvarpi til breytinga á ákvæðum almennra hegningalaga um mútubrot eru nú til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir til og með 31. mars næstkomandi og skulu þær sendar á póstfangið [email protected]

Drög að frumvarpi til breytinga á ákvæðum almennra hegningalaga um mútubrot eru nú til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir til og með 31. mars næstkomandi og skulu þær sendar á póstfangið [email protected].

Með frumvarpinu er kveðið á um breytingar á 109., 128., 141. a og 264. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Markmið breytinganna er að uppfylla tilmæli vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um erlend mútubrot vegna samnings OECD um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum og tilmæli Fíkniefna- og sakamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) vegna Samnings SÞ gegn spillingu.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að hámarksrefsing fyrir brot gegn 109. gr. almennra hegningarlaga um mútuboð gagnvart opinberum starfsmönnum verði þyngd úr fjögurra ára fangelsi í sex ára fangelsi. Þá er lagt til að hámarksrefsing fyrir brot gegn 264. gr. a um mútubrot í atvinnurekstri verði þyngd úr þriggja ára fangelsi í fimm ára fangelsi. Almennt eru rökin fyrir þyngingu refsinga vegna mútubrota þau að þetta eru alvarleg brot sem veikja m.a. traust á stjórnkerfinu. Brotin stríði gegn almannahagsmunum og heilbrigðu viðskipta- og atvinnulífi, bæði hérlendis og í alþjóðaviðskiptum.

Í öðru lagi fela frumvarpsdrögin í sér að hugtakið opinber starfsmaður getur átt við stjórnendur og starfsmenn lögaðila sem eru að hluta eða í heild í opinberri eigu eða lúta stjórn hins opinbera. Stjórnandinn og starfsmenn lögaðilans þurfa þá að vera í þeirri stöðu eða hafa heimildir í lögum til að taka eða hafa áhrif á ákvarðanir um réttindi og skyldur einstaklinga eða lögaðila og að þeir geti ráðstafað eða haft áhrif á ráðstöfun opinberra hagsmuna eða fjármuna. Í þessu skyni eru gerðar breytingar á 109. greina almennra hegningarlaga, 128. grein og 141. grein a þar sem sérstaklega er fjallað um hugtakið opinber starfsmaður í skilningi almennra hegningarlaga.

Frumvarpið er unnið í samráði við stýrihóp dómsmálaráðherra um eftirfylgni vegna innleiðingar alþjóðlegra tilmæla um aðgerðir gegn spillingu og mútum. Stýrihópnum er ætlað að vinna að því að íslensk stjórnvöld bregðist með fullnægjandi hætti við tilmælum af þessu tagi. Hann á að vera stjórnvöldum til ráðgjafar, efla samstarf stjórnvalda og atvinnulífs á þessum vettvangi og stuðla einnig að símenntun lögreglu, saksóknara, dómara og fleiri aðila.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum