Hoppa yfir valmynd
24. mars 2017 Innviðaráðuneytið

Sveitarfélög verði studd betur til sameininga

Frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. - mynd

Uppbygging innviða, aukinn hvati til sameiningar sveitarfélaga, fjölbreyttari leiðir til að fjármagna samgönguframkvæmdir, ákvörðun ríkisstjórnarinnar í dag um 1.200 milljóna króna viðbótarframlag til vegaframkvæmda á árinu og uppskipting innanríkisráðuneytis voru meðal umræðuefna í ræðu Jóns Gunnarssonar, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra á landsþingsi Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag.

Í upphafi ræðu sinnar nefndi ráðherrann þá skiptingu innanríkisráðuneytisins í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti annars vegar og dómsmálaráðuneyti hins vegar sem nú er framundan og sagði sveitarstjórnarmenn um landið allt hafa kallað eftir þessari breytingu. Einnig gat hann þess að byggðamál hefðu verið flutt til ráðuneytisins og væru þar með komin undir sama þak og sveitarstjórnarmálin, samgöngumálin, fjarskiptin, póstmálin og málefni rafrænnar stjórnsýslu.

Uppbygging innviða

Þá fjallaði ráðherrann um uppbyggingu innviða, m.a. á sviði fjarskipta og sagði að eftir styrkveitingar fjarskiptasjóðs við sveitarfélög vegna 2016 og 2017 verði einungis um 1.600 styrkhæfir staðir eftir ótengdir á landsvísu í landsátakinu Ísland ljóstengt. Sagði hann átakið hafa leitt af sér sóknarfæri fyrir atvinnustarfsemi víða um land og bætt búsetugæði í dreifðum byggðum. Einnig sagði hann brýnt að huga að nauðsynlegum innviðum fyrir öryggisfjarskipti, farsíma, farnet, sjónvarp og útvarp.

Um byggðaáætlun sagðist ráðherrann gera ráð fyrir að ný byggðaáætlun sem taki til áranna 2018 til 2022 verði lögð fyrir Alþingi á komandi haustþingi og kallaði hann eftir góðu samstarfi við sveitarstjórnarmenn um mótun hennar.

Frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga

Staða og framtíð sveitarstjórnarstigsins

Jón Gunnarsson fjallaði nokkuð um eflingu sveitarstjórnarstigsins og kvaðst meðal annars vilja sjá ákveðna hvata innbyggða í tekjustofnakerfi sveitarfélaga sem styddi betur við sameiningu þeirra. Tryggja þurfi að reglur Jöfnunarsjóðs sveitafélaga hjálpi vel þeim sveitarfélögum sem vilja sameinast og leitað verði leiða til að tryggja að slíkar sameiningar styrki stöðu sveitarfélaga sem ein meginstoð velferðar íbúanna.

„Hér sé ég fyrir mér að setja megi frekari hvata í kerfið þannig að sveitarfélög sjái ávinning og hagræði af því að sameinast. Mín hugsun er sú að verulegir fjármunir gætu orðið til ráðstöfunar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum til að styrkja sveitarfélög við undirbúning sameiningar, endurskipulagningar og uppbyggingar í sameinuðu sveitarfélagi. Frumkvæði um þetta verður þó að koma frá sveitarfélögunum sjálfum. Ég hef hins vegar ákveðið að setja á fót verkefnishóp sem ætlað er að vinna að stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði en sú vinna yrði unnin í beinu framhaldi af því að nefnd um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins skili sinni niðurstöðu. Verkefnishópnum yrði ætlað að skoða frekari leiðir til að stuðla að sameiningu sveitarfélaga, m.a. með hliðsjón af reynslu liðinna ára,“ sagði ráðherra ennfremur.

Lagafrumvörp á sviði sveitarstjórnarmála

Fram kom í máli ráðherra að fyrir Alþingi liggi a.m.k. þrjú stjórnarfrumvörp sem varða beinlínis sveitarstjórnarstigið:

  • Frumvarp til breytinga á sveitarstjórnarlögum. Tilgangur þess er að afnema þá lagaskyldu sem hvílir á Reykjavíkurborg að fjölga þurfi borgar­fulltrúum úr 15 í að minnsta kosti 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar í maí 2018 og færa það í hendur borgarstjórnar sjálfrar að ákveða hvort þörf sé á fjölgun borgarfulltrúa. Eftir sem áður getur borgarstjórn ákveðið að fjölga kjörnum fulltrúum í allt að 27 kjósi hún svo.
  • Frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Tilgangur frumvarpsins er að vega á móti þeim áhrifum sem lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, hafa haft á útsvarstekjur sveitarfélaganna með úthlutun sérstaks framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem samsvarar þeim auknu tekjum sem féllu til sjóðsins frá miðju ári 2014 og út árið 2015 vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010.
  • Frumvarp sem heimilar ríki og sveitarfélögum gjaldtöku af uppbyggingu bílastæða vítt og breitt um landið, utan þéttbýlisstaða. Gjaldtökunni yrði einnig ætlað að standa undir rekstri bílastæðanna og uppbyggingu þjónustu sem tengist bílastæðum við ferðamannastaði.

Sérstök framkvæmdaáætlun fyrir stofnleiðir

Ráðherra vék síðan að samgöngumálum og minnti á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segi að leitað verði fjölbreyttari leiða til að fjármagna samgöngukerfið, meðal annars með samstarfsfjármögnun þar sem það er hagkvæmt og kvaðst hann óska eftir góðu samstarfi við sveitarfélög um land allt varðandi uppbyggingu samgöngumannvirkja.

„Það sjá allir að það er torsótt að fara í alla þá uppbyggingu sem við erum sammála um að þurfi að ráðast í á samgöngukerfinu nema leita nýrra leiða. Við erum fámennt samfélag sem byggir þessa 103.000 ferkílómetra stóru eyju og getum ekki horft framhjá því að skoða aðrar lausnir í uppbyggingu samgöngukerfisins. Það hefur ekki farið framhjá neinum að eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem ráðherra samgöngumála var að skipa starfshóp til að kanna hvernig ráðast megi í umfangsmiklar framkvæmdir við stofnleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að leita lausna við að bæta stofnleiðir út frá höfuðborginni: Suðurlandsveg austur fyrir Selfoss með nýrri brú yfir Ölfusá, Reykjanesbraut frá flugstöðinni og í gegnum Hafnarfjörð og Vesturlandsveg upp í Borgarnes með tvöföldun Hvalfjarðarganga og lagningu Sundabrautar. Jafnframt er hópnum falið að setja fram tillögur um fjármögnun framkvæmdanna, til dæmis með veggjaldi.

Ýmis rök mæla með því að ráðist verði í sérstaka framkvæmdaáætlun fyrir umræddar stofnleiðir með annars konar fjármögnun en hefðbundnu ríkisframlagi. Undanfarin ár hefur dregið úr fjárveitingum til samgöngumála og hægst á uppbyggingu samgöngukerfisins, þrátt fyrir að í fjárlögum 2017 sé að finna mestu framlög til samgöngumála frá hruni. Langt er í land með að byggja upp samgöngukerfið svo það uppfylli staðla og miðað við það fé sem ætlað er til nýframkvæmda á hverju ári, mun það taka langan tíma – auk þess sem allar nauðsynlegar framkvæmdir á framangreindum stofnleiðum hafa ekki komist á áætlun.“

Ráðherra nefndi einnig samþykkt ríkisstjórnarinnar á fundi hennar í dag um að bæta við 1,2 milljörðum króna til tiltekinna samgönguverkefna.

Flugstöð á Reykjavíkurflugvelli

Reykjavíkurflugvöllur kom til umræðu í lok ræðunnar og sagði ráðherra þá meðal annars: „Mín sýn er að á meðan ekki hefur verið tekin ákvörðun um nýjan stað fyrir innanlandsflugvöll, þá verður hann áfram í Vatnsmýrinni og að sú starfsemi sem fyrir er á Reykjavíkurflugvelli verði tryggð. Ég er heill í því að skoða aðra framtíðarmöguleika, en það er verkefni sem að mínu mati mun taka mörg ár. Ég hef því lagt mikla áherslu á það að hafin verði uppbygging á flugstöð fyrir farþega og starfsfólk en núverandi aðstaða er óboðleg og því brýnt að fara í þær framkvæmdir strax. Þá hef ég fengið ráðgjafa til þess að fara sérstaklega yfir öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar og sú úttekt mun ná bæði til sjúkraflugs og almannavarnahlutverks vallarins. Niðurstaða þeirrar vinnu mun liggja fyrir með vorinu og gefa okkur frekari upplýsingar í þessum efnum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum