Hoppa yfir valmynd
29. mars 2017 Innviðaráðuneytið

Jón Gunnarsson ávarpaði sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins

Jón Gunnarsson ávarpaði sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins í dag. - mynd

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók þátt í sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins í Strassborg sem haldið er á vegum Evrópuráðsins. Þingið gerir reglulega úttektir á stöðu staðbundins lýðræðis í aðildarríkjum og á þinginu nú er kynnt úttekt á stöðu sveitarstjórnarmála á Íslandi. Ávarpaði ráðherra þingið og gerði frekari grein fyrir stöðu mála hér á landi og svaraði fyrirspurnum þingfulltrúa.

Skýrslan er í meginatriðum mjög jákvæð og fá sveitarstjórnarlögin frá 2011 mjög jákvæða umsögn sem og hvernig íslenskum sveitarstjórnum tókst að vinna sig út úr afleiðingum efnahagshrunsins og gerði ráðherra það að umtalsefni í ávarpi sínu. Hann sagði að um þriðjungur sveitarfélaga hefði átt í verulegum fjárhagserfiðleikum vegna falls krónunnar og mikillar verðbólgu og kostnaðaraukningar en staðan væri allt önnur nú sem þakka mætti aðgerðum sveitarstjórnarfulltrúa og nýjum reglum um fjármál sveitarfélaga.

Einnig sagði ráðherra sérstaklega ánægjulegt að ráða mætti af skýrslunni að staða lýðræðis væri góð á Íslandi og samskipti ríkis og sveitarfélaga væru með ágætum og í ákveðnum farvegi, sbr. 128. grein sveitarstjórnarlaga sem kveður á um reglubundið samráð og samstarf ríkis og sveitarfélaga.

Hann sagði mikilvægustu umbætur sveitarstjórnarlaganna vera reglurnar um að rekstur sveitarfélaga skuli vera í jafnvægi á hverju þriggja ára tímabili og um að skuldir mættu ekki vera meiri en sem næmi 150% af tekjum sveitarfélaga. Einnig sagði hann mikilvæg ákvæðin um að boða skuli íbúafund í sveitarfélagi ef 10 kjósenda krefðust og um að halda íbúakosningar ef fleiri en 20% kjósenda krefðust.

Sveitarstjórnarþing Evrópu er hluti af starfsemi Evrópuráðsins, „The Congress of Local and Regional Authorities“. Þingið er ráðgefandi gagnvart ráðherranefnd og þingi Evrópuráðsins. Á því eiga sæti kjörnir fulltrúar frá sveitarfélögum og héruðum í Evrópu. Sveitarstjórnarþingið hefur unnið að ýmsum Evrópusamningum um málefni sveitarstjórnarstigsins, en þar ber hæst Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem Ísland hefur fullgilt. Fullgilding felur í sér að aðildarríki skuldbinda sig til að virða sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga í innlendri lagasetningu sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum