Hoppa yfir valmynd
21. mars 2001 Dómsmálaráðuneytið

Alþjóðleg lögreglusamvinna innan Schengen svæðisins


Alþjóðleg lögreglusamvinna innan Schengen


Eitt af meginmarkmiðum Schengen samningsins er að berjast gegn alþjóðlegri brotastarfsemi. Þetta kallar á víðtækt samstarf lögreglu í aðildarríkjunum. Stærsti þáttur í lögreglusamvinnu Schengen ríkjanna er rekstur sameiginlegs miðlægs gagnabanka – Schengen upplýsingakerfisins (SIS) – þar sem, eftir ströngum reglum, eru settar inn upplýsingar um stolna muni eins og t.d. bifreiðar, skotvopn, skilríki o.fl. Þá eru og settar þar inn upplýsingar um eftirlýsta einstaklinga til að mynda, týnda einstaklinga, einstaklinga, sem neita á um inngöngu inn á Schengen svæðið, einstaklinga, sem stefna á fyrir dóm sem vitnum eða þá, sem leita þarf uppi til að kynna fyrir þeim dómsniðurstöður. Að þessum gagnabanka hefur lögregla aðgang til að sækja gögn. Þá hefur útlendingaeftirlitið einnig aðgang að bankanum til að leita upplýsinga í þeim málum, sem þar eru til meðferðar. Slíkur gagnabanki leiðir til mjög aukins upplýsingaflæðis og auðveldar allt samstarf á milli lögreglu Schengen ríkjanna. Skilvirkni eykst og málarekstur verður allur einfaldari.

Tl að tryggja að allar þær upplýsingar, sem settar eru inn í gagnabanka Schengen séu réttar og í samræmi við reglur, hefur hvert aðildarlandanna sett upp svokallaða SIRENE skrifstofu (Supplementary Information Request on National Entry). Starfsmenn hennar fara yfir og leggja mat á allar þær upplýsingar, er leggjast eiga inn í bankann. Skrifstofa þessi er einnig eins konar miðpunktur lögregluembætta í viðkomandi landi sem og gagnvart öðrum Schengen löndum þegar dreifa skal upplýsingum í gegnum gagnabankann. Ef t.d. franska lögreglan lýsir eftir peningafalsara í SIS kerfinu og sá finnst á Íslandi, þá munu SIRENE skrifstofur þessara tveggja landa sjá um dreifingu allra þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru á milli landanna og varða til að mynda handtökuna og væntanlegt framsal hins handtekna til Frakklands. SIRENE skrifstofan á Íslandi er í húsnæði Ríkislögreglustjórans að Skúlagötu 21, Reykjavík, og er undir hans stjórn.

Auk alþjóðlegrar samvinnu lögreglu í gegnum Schengen upplýsingakerfið gerir Schengen samningurinn ráð fyrir auknu sameiginlegu eftirliti lögreglu innan svæðisins. Í baráttunni gegn aukinni alþjóðavæðingu skipulagðrar glæpastarfsemi hafa yfirvöld lögreglu og dómsmála, með gildistöku Schengen samningsins, fengið möguleika á stóraukinni samvinnu landa á milli. Til að styrkja þetta samstarf hefur lögregla til að mynda fengið heimild til, undir ströngum skilyrðum þó, að elta meinta sakamenn yfir landamæri ríkjanna og í framhaldinu handtaka þann eða þá er veitt var eftirför. Slíkt kæmi þó varla til hér á landi, eðli málsins samkvæmt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum