Hoppa yfir valmynd
28. júní 2018

Doktorsnemi í uppeldis- og menntunarfræðum

Doktorsnemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á kynjaða menningu barna.
Auglýst er eftir doktorsnema til að taka þátt í rannsóknarverkefni sem nýlega hlaut styrk frá Jafnréttissjóði Íslands. Rannsóknarverkefnið ber heitið Börn á tímum kynlífsvæðingar og stafrænnar tækni: Rannsókn og aðgerðir. Markmið rannsóknarinnar er að skoða kynjaða menningu á grunn- og gagnfræðaskólastigi (5-9 ára og 12-15 ára) og á netinu. Þar verða skoðuð þau tækifæri og takmarkanir sem börnum og unglingum eru sett við að birta og móta kyngervi sitt. Rannóknarniðurstöður verða nýttar til að hanna gagnvirka heimsíður fyrir börn og kennara, sem veitir uppbyggilega leiðsögn til að takast á við málefni sem börnin sjálf telja brýn og snerta kynjuð samskipti og kynjaðan reynsluheim þeirra. 

Nánari lýsing á verkefninu
Rannsóknarverkefnið er unnið af rannsóknarteymi á vegum Rannsóknastofu í jafnrétti, kyngervi og menntun (RannKyn) í samstarfi við Rannsóknastofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) og Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar. Doktorsverkefnið er styrkti til 16 mánaða og hefst haustið 2018. Vinna doktorsnema við verkefnið verður uppistaða doktorsritgerðar hans. Nemandinn mun vinna undir umsjón dr. Önnudísar G. Rúdólfsdóttur dósents á Menntavísindasviði Háskóla Íslands í samstarfi við dr. Jón Ingvar Kjaran lektor á Menntavísindasviði og Brynju Elisabeth Halldórsdóttur, lektor á Menntavísindasviði. Doktorsneminn mun koma að þeim hluta rannsóknarinnar sem snýr að eldri aldurshópnum eða 12-15 ára.
Skyldur doktorsnemans felast í undirbúningi verkefnis og þátttöku við gagnasöfnun og gagnagreiningu. Doktorsneminn mun sinna fræðilegum skrifum ásamt leiðbeinanda og öðrum sem tengjast verkefninu. Þótt doktorsnemi gangi inn áður mótaða rannsókn býður verkefnið upp á sveigjanleika og frekari afmörkun á viðfangsefninu. Gert er ráð fyrir frumkvæði frá nemanda í mótun rannsóknarverkefnis síns.

Hæfnikröfur
Umsækjandi skal hafa lokið eða vera að ljúka meistaraprófi á sviði menntunar- og/eða félagsvísinda. Krafa er um að umsækjandi hafi góða þekkingu á eigindlegum rannsóknaraðferðum. 

Æskilegt er að umsækjandi hafi menntun og þekkingu sem nýtist verkefninu, s.s. uppeldis- og menntunarfræðum, grunnskólafræðum og kynjafræðum.   

Umsækjandi verður að hafa mjög góð tök á íslensku og ensku, bæði í töluðu og rituðu máli.  Mikilvægt er að umsækjandi geti unnið bæði sjálfstætt og tekið þátt í teymisvinnu. Góð samskiptahæfni er nauðsynleg. 

Umsóknarferli
Vinsamlega skilið inn eftirfarandi gögnum með umsókninni:
- Greinagerð þar sem umsækjandi lýsir hvernig hann uppfyllir skilyrði stöðunnar, hvers vegna hann hefur áhuga á að vinna þetta verkefni og hugmyndir umsækjanda um framlag til verkefnisins (hámark 2 síður).
- Ferilskrá (CV)
- Prófskírteini
- Nöfn tveggja meðmælenda (nafn, tengsl við umsækjanda, tölvupóstfang og símanúmer). 

Umsóknarfrestur er til 16. júlí 2018.

Umsókn skal sendast inn rafrænt á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf. 

Gert er ráð fyrir að umsækjandi geti hafið störf eigi síðar en 15. september, 2018. Í framhaldi af ráðningu þarf umsækjandi að sækja formlega um doktorsnám við Háskóla Íslands.

Laun eru samkvæmt kjarasamningin fjármálaráðuneytis og hlutaðeigandi stéttafélags. 

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Frekari upplýsingar veitir dr. Annadís  Greta Rúdólfsdóttir ([email protected]) stjórnandi verkefnisins. 

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum