Hoppa yfir valmynd
27. júlí 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra í samkvæmi að aflokinni vígslu stafkirkju í Þjórsárdal

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra í samkvæmi að aflokinni vígslu stafkirkju í Þjórsárdal 23.07.00


Biskup Íslands,
Góðir gestir

Ég flyt ykkur kveðju forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, og býð ykkur fyrir hans hönd hjartanlega velkomin hingað í Þjóðveldisbæinn.

Við höfum í dag verið viðstödd ánægjulega kirkjuvígslu, sem minnti okkur á
þá atburði sem hér urðu fyrir tæplega 900 árum, en það var árið 1104 sem
eldgos í Heklu lagði hér blómlega byggð í rúst. Við höfum líka kynnst
byggingarlagi íslenskrar stafkirkju frá 11. öld , en það byggingarform
virðist hafa einkennt fyrstu kirkjur hér á landi sbr. t.d. fornleifagröft á
Þórarinsstöðum við Seyðisfjörð sem lauk á síðasta ári. Stafkirkjur
varðveittust lengur í Noregi og til að minna á það hafa Norðmenn gefið
Íslendingum stafkirkju, sem nú er risin í Vestmannaeyjum og verður vígð þar innan skamms.

Íslendingar hafa á 1100 ára sögu þjóðarinnar lært að lifa við kosti þess og
galla að byggja þennan hluta Atlantshafssprungunnar. Við höfum þolað eldgos og jarðskjálfta um leið og við höfum að síðustu áratugum notið jarðhitans sem þessu fylgir og er okkur svo mikilvæg orkulind. Þá fylgja mikilvægar sjávarauðlindir Atlantshafshryggnum, auðlindir sem eru undirstaðan að góðum lífskjörum þjóðarinnar.

Þótt við höfum ekki samtímalýsingu á eldgosinu 1104, vitum við af rituðum heimildum að það átti sér stað. Eftir varð eyðileggingin og við tæknistig þess tíma var óhugsandi að endurreisa byggðina, sem eldgosið hafði fært í kaf.

Við vitum að hér í Þjórsárdal var eitt sinn blómleg byggð. Við þekkjum nöfn
landsnámsmanna er hér reistu bú og nokkurra þeirra sem hér síðar bjuggu.
Þeirra frægastur er væntanlega Gaukur Þiðrandason, er bjó að bænum Stöng.

Við kunnum líka skil á bæjarnöfnum svo sem Skallakoti, Stöng og
Skeljastöðum. Við vitum nú um tvær kirkjur, sem hér stóðu , þ.e. kirkjuna
að Stöng og kirkjuna á Skeljastöðum, þar sem m.a. var notað blý í þaki kirkjunnar, sem bendir til góðra efna þeirra bænda sem að henni stóðu.

Heklugosið 1104 var vissulega skelfilegur atburður fyrir þjóðina, en fyrir okkur sem nú lifum opnar það glugga að lífi og lífsháttum þeirra Íslendinga sem þá voru uppi, með því að varðveita þokkalega þau mannvirki, sem þá stóðu í Þjórsárdal.

Þetta minnir að vissu leyti á eldgosið í Vesúvíusi á Ítalíu sem árið 79 færði bæinn Pompei í kaf með 6 - 7 metra þykku lagi af ösku og vikri. Til er samtímalýsing af þeim atburðum, en ekkert jafnast á við það sem ljós kom, þegar öskulaginu var sópað af borginni og nútímamenn kynntust í einu vettvangi lífi íbúanna þegar eldgosið varð. Þarna höfðu orðið mannskaðar í gosinu og þótt líkamar þeirra sem fórust, hefðu horfið í tímans rás , var eftir farið sem þeir mörkuðu í öskulagið. Með því að dæla gipsi í farið hafa menn jafnvel getað fengið afsteypur af fólkinu og á þeim séð skelfingarsvip þeirra sem þarna mættu sínu skapadægri.

Hér í Þjórsárdal hafa menn ekki fundið neitt slíkt og e.t.v. hafa íbúarnir
sloppið úr gosinu heilir á húfi, en það er engin furða að nágrannar okkar á meginlandi Evrópu sem fréttu af slíkum hamförum, teldu Heklu vera hliðið að logum Vítis.

Í hamförum sem hér um ræðir var maðurinn harla máttlaus. Hann stóð hér
andspænis afli sem enginn mannlegur máttur ræður við. En menn fundu sér huggum og styrk í kristinni trú og með með hana í farteskinu gengu menn æðrulausir mót því sem koma skyldi. Þannig var líf þjóðarinnar um aldir og enn fáum við styrk í trúnni, þegar erfiðleikar steðja að.

Margir hafa komið að þessu verki en forsætisráðuneytið, Landsvirkjun og Gnjúpverjahreppur kostuðu smíði þessarar kirkju rétt eins og Þjóðveldisbæinn á sínum tíma. Gunnar Bjarnason tók að sér að reisa bygginguna eftir teikningum og frásögn Hjörleifs Stefánssonar og Þjóðminjasafnið hefur lagt til góða gripi og starfsmenn þess hafa unnið mjög gott starf.

Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka þeim, sem hér hafa komið að
framkvæmdum á þessari kirkju, sem undirstrikar svo vel sögu okkar Íslendinga í landi náttúruhamfara og ég tel það vel viðeigandi og tæaknrænt að vígsla hennar eigi sér stað núna á 1000 ára afmæli kristnitökunnar. Ég óska okkur öllum til hamingju með þetta verk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum