Hoppa yfir valmynd
Kennsla og rannsóknirHöfuðborgarsvæðið

Doktorsnemi í landfræði (fornvistfræði)

Doktorsnemi í landfræði (fornvistfræði)

Háskóli Íslands auglýsir eftir doktorsnema í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, í verkefni sem hlotið hefur styrk frá Rannsóknasjóði Íslands til næstu þriggja ára. Verkefnið ber yfirskriftina Völd, auður og pest í tveimur dölum: Svarfaðardalur, Hörgárdalur og nágrenni um 870/1500 (stytt.: Tvídæla). Megin markmið verkefnisins er að rannsaka myndun lagskiptingar í samfélagi Eyjafjarðarsvæðisins á miðöldum.

Undir handleiðslu leiðbeinanda, snýst verkefnið um að afla gagna á vettvangi og á rannsóknastofu sem varða samfélag og umhverfi á Eyjafjarðarsvæðinu á miðöldum og túlkun þeirra í staðbundnu og víðara samhengi. 

Verkefnið nær yfir þrjú ár og er búist við að sá er fyrir valinu verður geti hafið störf í september 2021.

Leiðbeinandi: Egill Erlendsson, prófessor.

Helstu verkefni og ábyrgð

Rannsóknin sem doktorsneminn innir af hendi myndar sérstakan verkþátt innan Tvídælu sem ber heitið Umhverfisbreytingar og landnotkun í Svarfaðardal og Hörgárdal á miðöldum. Fornvistfræðilegum aðferðum er hér beitt til að rannsaka myndun byggðamynsturs í tíma og rúmi, tímbil ábúðar, landnotkun (t.d. beit, kornrækt), aðgengi að auðlindum og stjórnun þeirra. Þær spurningar sem verkþátturinn leggur fram snúa að tíma, hraða og umfangi landnáms, breytingum á áherslum í landbúnaði og samfélagsgerð, umhverfis- og samfélagslegum afleiðingum svarta dauða á 15. öld, afnámi byggða og umhverfisbreytingum í víðara samhengi á misjöfnum rýmis- og tímakvörðum.

Verkefnið felur í sér (ekki tæmandi): 

 • Vettvangsvinnu til að afla nauðsynlegra gagna/sýna til að byggja upp fornvistfræðileg gagnasöfn.
 • Byggingu tímaramma fyrir jarðvegssnið og/eða setkjarna með gjóskulögum og geislakolsgreiningum.
 • Frjókornagreiningu í hárri tímaupplausn, gagnavinnslu og túlkun gagna.
 • Myndun og samþættingu upplýsinga um umhverfislegar, efnahagslegar og samfélagslegar breytingar eins og þær birtast í fornvistfræðilegum gögnum og í samvinnu við aðra þátttakendur og verkþætti innan Tvídælu (fornleifafræði, sagnfræði, jarðfræði).
 • Birtingu og kynningu á niðurstöðum verkefnisins í ritrýndum, alþjóðlegum tímaritum, á ráðstefnum og málstofum.
 • Samantekt á niðurstöðum verkefnisins í doktorsritgerð undir lok doktorsnáms.

Verkefnið nýtur rannsóknaaðstöðu við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Hæfniskröfur

 • Umsækjendur þurfa að hafa meistaragráðu í landfræði, líffræði, jarðfræði, fornleifafræði eða tengdum greinum.
 • Umsækjandi þarf að geta unnið sjálfstætt og eiga gott með að vinna í teymi.
 • Krafa er gerð um góða enskukunnáttu og -færni, í töluðu og rituðu máli.
 • Góð kunnátta og færni í íslensku í töluðu og rituðu máli er kostur.
 • Reynsla af fornvistfræðilegum aðferðum er kostur.
 • Þekking og áhugi á umhverfi og samfélögum á Norður Atlantshafssvæðinu er kostur.
 • Færni í að kynna niðurstöður verkefnisins í ritrýndum vísindagreinum og á ráðstefnum innanlands og erlendis.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara hafa gert.

Umsókninni skal fylgja: 

 1. ferilskrá,
 2. kynnisbréf þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað hann/hún hefur fram að færa við mótun og framkvæmd þess (ekki lengra en ein blaðsíða),
 3. afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistaranám),
 4. tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvernig má hafa samband við umsagnaraðila.
 5. staðfesting á enskukunnáttu

Viðtöl fara fram í maí og júní.

Sá umsækjandi er fyrir valinu verður, þarf að sækja formlega um skráningu í doktorsnám og fá hana samþykkta áður en starfið getur hafist (umsókn um doktorsnám fyrir þessa stöðu hefur ekki sérstakan umsóknarfrest). Upplýsingar um hvernig sækja má um doktorsnám í landfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið má nálgast hér. Fáist umsókn samþykkt, skráist viðkomandi í doktorsnám í landfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið sem hefur aðsetur í Öskju í Reykjavík.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans, sjá hér: http://www.hi.is/haskolinn/jafnrettisaaetlun#markmid2

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands, sjá hér: http://www.hi.is/haskolinn/malstefna_haskola_islands

Háskóli Íslands er gróskumikið þekkingarsamfélag og er fjölbreyttur og lifandi vinnustaður. Akademískt frelsi, fagmennska og jafnrétti eru gildi skólans og er mikið lagt upp úr sveigjanleika og þátttöku starfsmanna í uppbygginu náms og rannsókna við skólann.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa um 390 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Á sviðinu eru um 2000 nemendur, þar af um fjórðungurinn framhaldsnemar. Verkfræði- og náttúruvísindasvið stærir sig af fjölbreytileika og umbótasinnuðu umhverfi þar sem þekkingaröflun og miðlun er í fyrirrúmi.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 17.05.2021

Nánari upplýsingar veitir

Egill Erlendsson - [email protected] - 5254474

Smelltu hér til að sækja um starfið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira