Tímabundin staða lögfræðings á skrifstofu almanna- og réttaröryggis
Tímabundin staða lögfræðings á skrifstofu almanna- og réttaröryggis
Við leitum að metnaðarfullum og drífandi lögfræðingi sem hefur áhuga á að starfa með öflugum hópi starfsmanna að málum á sviði almanna- og réttaröryggis. Skrifstofa almanna- og réttaröryggis hefur umsjón með þeim málaflokkum í íslenskri stjórnsýslu er varða með einum eða öðrum hætti öryggi almennings og réttaröryggi í landinu. Þannig sinnir skrifstofan stefnumótun og úrlausn mála í eftirtöldum málaflokkum: löggæsla, ákæruvald, fullnusta refsinga, landhelgisgæsla, almannavarnir og alþjóðleg réttaraðstoð, ásamt aðgerðum gegn ýmis konar brotastarfsemi, s.s. peningaþvætti, skipulagðri brotastarfsemi, mansali, tölvubrotum og hryðjuverkum.
Helstu verkefni og ábyrgð
Starfið felst í fjölbreyttum og krefjandi verkefnum þvert á málaflokka skrifstofunnar þar sem viðkomandi vinnur ýmist sjálfstætt, í teymi eða undir leiðsögn annarra sérfræðinga á skrifstofunni, að því að tryggja skilvirka og viðeigandi úrlausn erinda fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins. Meðal verkefna er;
- afgreiðsla fyrirspurna og verkefna þvert á málaflokka skrifstofunnar, þ.m.t. frá Alþingi og öðrum stjórnvöldum,
- meðferð alþjóðlegra réttarbeiðna,
- gerð umsagna til ríkislögmanns,
- aðstoða aðra sérfræðinga vegna alþjóðlegra úttekta þvert á málefnasvið skrifstofunnar,
- annast samskipti við undirstofnanir og samstarfsaðila o.fl.,
- önnur verkefni sem skrifstofustjóri felur starfsmanni eftir atvikum.
Hæfniskröfur
- Fullnaðarnám í lögfræði með embættis- eða grunn- og meistaraprófi,
- þekking og reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar og/eða starfsreynsla á sviði lögfræði æskileg,
- þekking og reynsla af málefnasviði skrifstofunnar kostur,
- mjög gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti,
- mjög góð enskukunnátta og færni til að tjá sig í ræðu og riti,
- góð kunnátta á einu Norðurlandamáli kostur,
- frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt sem og í hóp,
- drifkraftur, jákvæðni og skipulagshæfileikar,
- rík þjónustulund og samskiptahæfni.
Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hafa gert.
Umsóknum skal fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.
Gert er ráð fyrir að umsækjandi geti hafið störf 1. september n.k. en staðan er tímabundin til eins árs.
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 30.05.2022
Nánari upplýsingar veitir
Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri - [email protected]