Hoppa yfir valmynd
Kennsla og rannsóknirHöfuðborgarsvæðiðHáskóli Íslands

Rannsóknarstarf: Kortlagning sjónrænnar hlutaskynjunar, Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun, Háskóla Íslands

Rannsóknarstarf: Kortlagning sjónrænnar hlutaskynjunar, Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun, Háskóla Íslands

Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun (www.visionlab.is/islenska) auglýsir fullt starf nýdoktors til tveggja ára eða doktorsnema til þriggja ára. Starfið er fjármagnað af Rannsóknasjóði (www.rannis.is) með verkefnastyrknum: "Kortlagning sjónrænnar hlutaskynjunar: Einstaklingsmunur, raskanir og hæfileikar". Stjórnandi rannsóknarinnar er dr. Heiða María Sigurðardóttir (við Háskóla Íslands, https://visionlab.is/heida/). 

Helstu verkefni og ábyrgð

Hvaða sjónrænu víddir greina hluti í sundur? Eru þessar víddir grundvallarstoðir hlutaskynjunar- og kennsla? Þetta verður kannað með því að rannsaka einstaklingsmun á hegðun, sértækar raskanir sem og hæfileika, og þroskaferil sjónskynjunar. Gervitauganet þjálfuð í myndrænum kennslum verða notuð til að meta þær víddir sem skipta máli fyrir einstaklingsmun á hlutaskynjun. Við munum jafnframt meta, með mælingum á hegðun og með heilarafritun, hvort fólk sem á í sérstökum vandræðum með að bera kennsl á andlit eða orð eigi jafnframt óvenju erfitt með að greina í sundur aðra hluti. Við skrásetjum hvernig hlutaskynjun barna breytist með aldri til að meta hvort og þá hvaða sjónrænu víddir þroskast óháð hver annarri og hversu hratt þær þroskast. Að lokum er ætlunin að kanna hvort hlutaskynjun spái fyrir um erfiðleika í orðakennslum (lestrarvanda) eða hvort erfiðleikar í orðakennslum spái fyrir um síðari vanda í hlutakennslum, og hvort þessi tengsl velti á hversu mikið hlutir líkjast orðum í útliti.

Niðurstöður rannsóknarinnar koma til með að nýtast til að móta kenningar um orða-, andlits- og hlutaskynjun sem og kenningar um orsakir lesblindu og andlitsblindu. Vonast er til að niðurstöðurnar geti orðið grunnur að mótun nýrra skimunar- og þjálfunaraðferða fyrir lesblint fólk.

Verkefnið í heild sinni innifelur mælingar á hegðun, líkanagerð og heilarafritun (EEG). Rannsóknarefni nýdoktorsins innan heildarverkefnisins mun svo ráðast af sérsviði og áhugasviði viðkomandi kandídats.

Hæfniskröfur

Hæfniskröfur (nauðsynlegar):

  • Doktorsgráða (nýdoktorsstaða) eða meistarapróf (doktorsnemastaða) í viðeigandi fræðigrein (t.d. í hugfræði, tilraunasálfræði, reiknifræðilegum taugavísindum, hugrænum taugavísindum, tölvunarfræði eða stærðfræði) áður en störf hefjast.

Hæfniskröfur (sækilegar):

  • Reiknifræðilegur (computational) bakgrunnur, reynsla af gervitauganetum 
  • Reynsla af útgáfu á rannsóknagreinum 
  • Reynsla af gagnaúrvinnslu og myndrænni framsetningu gagna 
  • Reynsla af forritun/skriptun (til dæmis MATLAB, Python, R) 
  • Reynsla af sálfræðitilraunaforritum (til dæmis PsychoPy/Psychtoolbox
  • Reynsla af rannsóknum á hlutaskynjun/hlutakennslum 
  • Gott vald á íslensku og ensku, bæði í ræðu og riti
  • Góð samskiptahæfni og lipurð í mannlegum samskiptum

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara hafa gert.

Öll áhugasöm sem uppfylla nauðsynlegar hæfniskröfur eru hvött til að sækja um.

Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun (www.visionlab.is) býður upp á lifandi og fjölbreytt akademískt umhverfi. Núverandi og fyrrverandi meðlimir labbsins koma frá ýmsum löndum úr öllum heimshornum. Nýdoktorinn mun koma inn í þetta samfélag framhaldsnema, nýdoktora og akademískra starfsmanna sem allir vinna að rannsóknum á skynjun og hugarstarfi. Labbið er vel fjármagnað með styrkjum og býður upp á góðan tækjakost til rannsókna. Forstöðumenn Rannsóknamiðstöðvar um sjónskynjun eru dr. Árni Gunnar Ásgeirsson (Háskólinn á Akureyri), dr. Sabrina Hansmann-Roth (Háskóli Íslands), dr. Árni Kristjánsson (Háskóli Íslands), dr. Inga María Ólafsdóttir og dr. Heiða María Sigurðardóttir (Háskóli Íslands).

Umsækjendur skulu senda inn ferilskrá, prófskírteini eftir því sem við á (MS eða PhD), bréf sem tilgreinir rannsóknarreynslu þeirra og markmið í starfi, lista yfir ritrýndar birtingar ef við á, auk nafna, síma og netfanga tveggja akademískra meðmælanda. 

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans (https://www.hi.is/haskolinn/jafnrettisaaetlun).

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands

Innan Háskólans eru fimm fræðasvið og deildir skólans eru 25 talsins. Háskóli Íslands býður fjölbreytt nám á öllum stigum og er eini háskóli landsins sem býður grunnnám og framhaldsnám á öllum helstu fræðasviðum. Jafnframt er Háskóli Íslands öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðlega vísu og hafa vísindamenn Háskólans hlotið fjölmargar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir vísindastörf sín.

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands er í fararbroddi á sviði heilbrigðismála á Íslandi og gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu íslenska heilbrigðiskerfisins með menntun heilbrigðisstarfsmanna. Helstu sérfræðingar þjóðarinnar í heilbrigðisvísindum koma að kennslu og rannsóknum á sviðinu.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 03.10.2022

Nánari upplýsingar veitir

Heiða María Sigurðardóttir, dósent - [email protected]

Smelltu hér til að sækja um starfið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira