Hoppa yfir valmynd
Kennsla og rannsóknirHöfuðborgarsvæðiðHáskóli Íslands

Lektor í byggingarverkfræði

Lektor í byggingarverkfræði

Laust er til umsóknar fullt starf lektors í byggingarverkfræði við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Markmið deildarinnar er að styrkja nám og rannsóknir í verkfræðilegum aðferðum sem stuðla að sjálfbæru þjóðfélagi. Leitað er að umsækjendum með sérfræðiþekkingu á einum eða fleiri af eftirtöldum fagsviðum (í röð eftir mikilvægi): Húsbyggingartækni, eðlisfræði bygginga, varma- og rakaflutningur í byggingareiningum, efnisfræði, áhrif bygginga á heilsu, umhverfi og samfélag, sjálfbærni í mannvirkjagerð, verkfræðileg burðarþolshönnun fyrir örugga og sjálfbæra innviði og byggt umhverfi, sem tekur tillit til áhrifa loftslagsbreytinga, óblíðra náttúruafla og náttúruhamfara.

Helstu verkefni og ábyrgð

Viðkomandi mun kenna námskeið í byggingarverkfræði, bæði í grunn- og framhaldsnámi, og leiðbeina framhaldsnemum í rannsóknanámi. Fyrirlestrar í grunnnámi fara almennt fram á íslensku og er ætlast til þess að viðkomandi geti kennt á íslensku innan þriggja ára. Háskóli Íslands aðstoðar erlenda starfsmenn við að læra og ná tökum á íslensku máli.

Starfssvið

 • Að byggja upp alþjóðlega viðurkenndar rannsóknir, birta ritrýndar vísindagreinar, afla utanaðkomandi rannsóknarstyrkja og eiga virka þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og samstarfi.
 • Að byggja upp meistara- og doktorsnám á fagsviðinu og leiðbeina nemendum í framhaldsnámi.
 • Þróa, kenna og hafa umsjón með grunn- og framhaldsnámskeiðum.
 • Vinna akademísk þjónustu- og stjórnunarstörf.

Hæfniskröfur

 • Doktorspróf í byggingarverkfræði.
 • Reynsla af háskólakennslu á fagsviði starfsins.
 • Reynsla í rannsóknum innan fagsviðs og öflun styrkja til rannsóknarstarfa.
 • Hafa birt ritrýndar vísindagreinar og ráðstefnugreinar í faginu.
 • Góð samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum.
 • Góð hæfni í skrifuðu og töluðu máli.

Umsækjandi þarf að geta uppfyllt skilyrði Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir löggildingu starfsheitisins verkfræðingur og hljóta leyfisbréf fyrir starfsheitinu innan árs frá upphafi starfsins.

Við ráðningu verður miðað við að sá er starfið hlýtur falli sem best að aðstæðum og þörfum Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara hafa gert.

Gert er ráð fyrir að viðkomandi hefji störf þann 1. ágúst 2023.

Umsækjendur skulu láta eftirfarandi gögn fylgja umsókn sinni:

 1. Kynningarbréf þar sem m.a. kemur fram hvernig umsækjandi uppfyllir hæfniskröfur
 2. Prófskírteini eða eftir atvikum vottorð um námsferil
 3. Akademíska ferilskrá (Curriculum Vitae)
 4. Ritaskrá
 5. Skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið
 6. Greinargerð um rannsóknar- og kennsluáform ef til ráðningar kemur
 7. Upplýsingar um þrjá mögulega umsagnaraðila sem hafa má samband við

Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín eftir því sem við á. Umsóknargögnum sem ekki er hægt að skila rafrænt skal skila í tvíriti til vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Ráðið verður í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Umhverfis- og byggingarverkfræðideild er ein sex deilda Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.  Við deildina stunda um 160 stúdentar nám, þar af um 60 framhaldsnemar. Við deildina starfa um 15 akademískir starfsmenn.  Deildin hefur sterk alþjóðleg tengsl og mörg rannsóknaverkefni eru unnin í samstarfi hérlendis og erlendis. Kennsla í grunnnámi við Háskóla Íslands fer að jafnaði fram á íslensku en kennsla í framhaldsnámi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild er alþjóðleg og fer að jafnaði fram á ensku.

Háskóli Íslands er stærsta vísindastofnun Íslands og er í hópi 500 bestu háskóla heims almennt en innan verkfræði og tækni er HÍ metin í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt matslista Times Higher Education. Akademískt frelsi, fagmennska og jafnrétti eru gildi háskólans og er áhersla á sveigjanleika og þátttöku starfsfólks í uppbyggingu náms og rannsókna. Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa um 400 manns við rannsóknir og kennslu og nemendur eru um 2000. Starfsumhverfið er alþjóðlegt og um fjórðungur starfsfólks og framhaldsnema eru erlendir.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 07.10.2022

Nánari upplýsingar veitir

Guðmundur Freyr Úlfarsson, Deildarforseti - [email protected]

Smelltu hér til að sækja um starfið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira