Sérfræðingur í hættumati með áherslu á snjóflóð og skriður
Sérfræðingur í hættumati með áherslu á snjóflóð og skriður
Veðurstofa Íslands auglýsir eftir sérfræðingi á sviði hættumats í fullt starf á nýrri deild sem vinnur að verkefnum tengdum snjóflóðum og skriðum á þjónustu- og rannsóknasviði.
Undir deildina falla þau hlutverk Veðurstofunnar sem skilgreind eru í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og reglugerðum þeim tengdum. Innan deildarinnar verður m.a. unnið að hættu- og áhættumati, verkefnum tengdum vörnum gegn snjóflóðum og skriðuföllum, alþjóðasamstarfi, ráðgjöf, miðlun og annarri þjónustu á sviði ofanflóða sem nær yfir bæði snjóflóð og skriðuföll. Deildin ber ábyrgð á faglegri þróun og þekkingu sem snýr að ofanflóðum og sinnir stefnumótun, faglegri umsjón og stjórn verkefna tengdum ofanflóðavöktun. Hluti starfsmanna deildarinnar sinna sólarhringsvöktun ofanflóða samkvæmt vaktafyrirkomulagi sem unnið er í samvinnu við deildarstjóra náttúruvárvöktunar. Deildin ber einnig ábyrgð á faglegri umsjón, ráðgjöf og stjórn verkefna tengdum landupplýsingakerfum Veðurstofunnar.
Viðkomandi yrði hluti af öflugu teymi á fagsviði ofanflóða. Teymið vinnur meðal annars að hættumati, vöktun og rannsókna- og þróunarverkefnum tengdum ofanflóðum. Veðurstofan annast gerð hættumats vegna ofanflóða fyrir þéttbýli og skíðasvæði. Sömuleiðis vinnur stofnunin að úttekt á ofanflóðahættu í dreifbýli og hættumati í tengslum við framkvæmdir og skipulag. Starfið er á Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði þar sem hópur ofanflóðasérfræðinga starfa. Snjóflóðasetrið er í Vestrahúsinu þar sem ýmsar aðrar rannsóknarstofnanir eru einnig til húsa.
Helstu verkefni og ábyrgð
Sérfræðivinna við gerð hættumats vegna snjóflóða og skriðufalla. Miðlun upplýsinga til sveitarfélaga, skipulagsyfirvalda og annarra hagsmunaaðila. Mótun og þátttaka í rannsókna- og þróunarverkefnum tengdum ofanflóðahættu. Verkefnisstjórn tilgreindra verkefna eftir atvikum.
Hæfniskröfur
- Háskólapróf og framhaldsmenntun á sviði raunvísinda, verkfræði eða sambærileg menntun sem nýtist í starfi
- Góð kunnátta í landupplýsingakerfum (LUK) er nauðsynleg
- Þekking á hættumati tengdu náttúruvá er kostur
- Þekking og reynsla á notkun líkinda- og tölfræði í starfi er kostur
- Þekking á íslenskri náttúru og áhugi á viðfangsefninu
- Góð tölvukunnátta nauðsynleg
- Hæfni í mannlegum samskiptum
- Færni og geta til að miðla niðurstöðum innan teymis og út á við bæði í ræðu og í riti
- Góð færni í íslensku og ensku
- Farsæl reynsla í verkefnastjórnun er kostur
Gildi Veðurstofunnar eru þekking, áreiðanleiki, framsækni og samvinna. Ráðningar hjá stofnuninni taka mið af þessum gildum.
Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.
Á þjónustu- og rannsóknasviði fer fram þekkingaröflun, rannsóknir, veðurþjónusta, náttúruvárvöktun og miðlun upplýsinga. Tilgangur sviðsins er að mæta þjónustuþörf samfélagsins í samræmi við hlutverk Veðurstofunnar og vinna fjórar deildir að verkefnum sviðsins með eftirfarandi faglegar áherslur:
- Veðurspár og náttúruvárvöktun.
- Loftslag, veður, vatn, jöklar og haf
- Eldvirkni, jarðskjálftar og jarðhnik.
- Snjóflóð og skriður.
Sviðið ber ábyrgð á að móta og fylgja eftir þjónustustefnu Veðurstofunnar sem stuðlar að upplýstri og vandaðri ákvarðanatöku á sviði náttúruvár, náttúruverndar og nýtingar auðlinda.. Sviðið er hluti af breyttu skipulagi á Veðurstofunni og er eitt tveggja kjarnasviða stofnunarinnar.
Nánari upplýsingar um nýtt skipulag er að finna á www.vedur.is
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 07.02.2023
Nánari upplýsingar veitir
Harpa Grímsdóttir
-
[email protected]
-
5226000
Borgar Ævar Axelsson
-
[email protected]
-
5226000