Doktorsnemi í náms- og starfsráðgjöf við Félagsvísindasvið, Háskóli Íslands
Doktorsnemi í náms- og starfsráðgjöf við Félagsvísindasvið, Háskóli Íslands
Háskóli Íslands, námsbraut í náms- og starfsráðgjöf auglýsir doktorsnemastyrk til 3ja ára til að taka þátt langtímarannsókn á starfsferilsþróun ungs fólks á Íslandi sem nefnist The fire within: Influence and integrated development of interest personality and life-goals from adolescence to adulthood.
Um er að ræða alþjóðlegt rannsóknarverkefni, fjármagnað af Rannís í langtímarannsókn sem hefur verið í gangi síðan 2006 verða áhrif áhuga, persónuleika og lífsmarkmiða á velgengni í starfi, almenna líðan og velferð prófaðar. Þróun samræmis í áhuga og starfi verður könnuð inn í fullorðinsár og hvaða áhrif það hefur á líf og störf að vera í starfi sem fellur að eigin áhugasviði. Kenningar sem samþætta ólíka einstaklingsbundna þætti s.s. persónuleika, áhuga og markmið hafa kallað eftir að gerðar séu rannsóknir á samspili lífsmótandi einstaklingsbundinna þátta og þróun þeirra yfir ævina.
Verkefninu er stýrt af Sif Einarsdóttur og er rannsóknin unnin í samstarfi við vísindamenn á sviði náms- og starfsráðgjafar, vinnusálfræði og menntunarfræða í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Menntavísindasviði HÍ. Doktorsneminn mun að mestu stunda rannsóknir á Íslandi í nánu samstarfi við erlenda þátttakendur verkefnisins.
Helstu verkefni og ábyrgð
- Þátttaka í rannsóknarvinnu, bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
- Gagnaöflun og greining, aðallega megindleg.
- Þátttaka í prófun og mótun rannsóknarspurninga
- Miðlun rannsóknarniðurstaðna, einkum í formi doktorsritgerðar (greina í viðurkenndum vísindatímaritum), en þó einnig í formi fyrirlestra á innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum.
- Skipuleggja samstarf og miðlun til þátttakenda, vettvangs og samfélags.
Hæfniskröfur
- Meistarapróf á sviði félagsvísinda, sálfræði eða menntavísinda með að lágmarki fyrstu einkunn, miðað við einkunnarviðmið Háskóla Íslands.
- Menntun og/eða reynsla á sviði náms- og starfsráðgjafar er kostur.
- Þekking og áhugi á starfsferilsþróun, áhugahvöt, persónuleika, menntun og vinnumarkaði
- Reynsla af framkvæmd og greiningu á megindlegum rannsóknargögnum, notkun greiningarforrita (t.d. SPSS eða R).
- Mjög góð tök á ensku í rituðu og mæltu máli.
- Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott skipulag og marksækni.
- Reynsla af teymisvinnu. Reynsla af þverfræðilegu og þverþjóðlegu samstarfi er kostur.
- Góð hæfni í mannlegum samskiptum.
Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara hafa gert.
Starfskjör og -skilyrði:
Boðið er upp á spennandi og hvetjandi verkefni í öflugu alþjóðlegu og þverfræðilegu umhverfi.
- Í boði er styrkur til 3ja ára.
- Laun eru samkvæmt launaflokki 695-030 í kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.
- Bjóðist umsækjanda starfið þarf viðkomandi að sækja formlega um doktorsnám í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. Inntaka í doktorsnám er forsenda ráðningarinnar. Sjá allar nánari upplýsingar hér: https://www.hi.is/felagsvisindasvid/doktorsnam_a_felagsvisindasvidi#fylgigogn
Skilyrði er að umsækjandi sinni starfinu í Háskóla Íslands og búi á Íslandi á starfstímanum. Engu að síður þarf umsækjandinn að geta sótt fundi og ráðstefnur erlendis vegna rannsóknarinnar.
Gögn sem þurfa að fylgja umsókninni:
- Kynningarbréf (um það bil 2 blaðsíður) á ensku þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað viðkomandi hefur fram að færa við mótun og vinnslu þess.
- Ferilskrá (1-2 bls.) á ensku þar sem fram kemur starfsreynsla, hæfni tengd verkefninu og ritaskrá ef við á.
- Staðfest afrit af prófskírteinum (BA/BSc og MA/MSc).
- Afrit af meistararitgerð eða rannsóknargreinum ef við á.
- Tvö meðmælabréf og upplýsingar um hvernig nálgast megi umsagnaraðilana. Skoðið sérstaklega vel leiðbeiningar um meðmælabréf hér.
Aðrar upplýsingar:
Umsóknin á að vera á ensku.
Doktorsneminn þarf að geta byrjað sem fyrst og eigi síðar en 1. júní 2023.
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.
Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans, sjá hér: http://www.hi.is/haskolinn/jafnrettisaaetlun#markmid2
Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands, sjá hér: https://www.hi.is/haskolinn/malstefna_haskola_islands
Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands. Háskóli Íslands er gróskumikið þekkingarsamfélag og er fjölbreyttur og lifandi vinnustaður. Akademískt frelsi, fagmennska og jafnrétti eru gildi skólans og er mikið lagt upp úr sveigjanleika og þátttöku starfsmanna í uppbygginu náms og rannsókna við skólann.
Á Félagsvísindasviði starfa vel á þriðja hundrað manns við kennslu og rannsóknir. Vísindafólk sviðsins stundar grunnrannsóknir, hagnýtar rannsóknir og þjónusturannsóknir og lögð er áhersla á fjölbreytta miðlun þekkingar, öflugar samræður víð íslenskt samfélag og alþjóðlega fræðasamfélagið.
Námsbraut í náms- og starfsráðgjöf starfar innan Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar sem er ein sex deilda Félagsvísindasviðs. Markmið námsbrautar í náms- og starfsráðgjöf er að brautskrá fagmenn og fræðinga sem eiga þátt í því að efla náms og starfsráðgjöf í íslensku samfélagi og skapa þekkingu á fræðasviðinu.
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 12.04.2023
Nánari upplýsingar veitir
Sif Einarsdóttir, prófessor - [email protected]