Hoppa yfir valmynd
Kennsla og rannsóknirHöfuðborgarsvæðið201811/2135Háskóli Íslands

Lektor í lífefnafræði

Lektor í lífefnafræði - Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Laust er til umsóknar starf lektors í lífefnafræði við efnafræðinámsbraut Raunvísindadeildar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að umsækjandi stundi rannsóknir á sviði próteinefnafræði með tilraunavinnu sem tengist þeim efna- og eðlisfræðilegu eiginleikum próteina er varða byggingu þeirra og virkni.  

Gert er ráð fyrir að sá er starfið hlýtur byggi upp sjálfstæðar rannsóknir sem standist alþjóðlegan samanburð og séu fjármagnaðar af sjálfsaflafé. Viðkomandi mun einnig kenna námskeið í lífefnafræði, bæði í grunn- og framhaldsnámi, og leiðbeina framhaldsnemum í rannsóknanámi. Fyrirlestrar í grunnnámi fara almennt fram á íslensku en Háskóli Íslands aðstoðar erlenda umsækjendur við að læra og ná tökum á íslensku máli.

Hæfniskröfur
- Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi í lífefnafræði og æskilegt er að ekki séu liðin meira en 10 ár frá próflokum.
- Kennslureynsla á háskólastigi er æskileg
- Virkni og hæfni í rannsóknum
- Reynsla af öflun styrkja til rannsóknastarfa æskileg
- Krafist er góðrar samstarfshæfni og lipurðar í mannlegum samskiptum.
- Góð enskukunnátta í skrifuðu og töluðu máli

Við ráðningu verður horft til þess að umsækjendur falli sem best að aðstæðum og þörfum Raunvísindadeildar. 

Umsóknarfrestur er til og með 14. janúar 2019.
Gert er ráð fyrir að starfið hefjist 1. júlí 2019.

Sótt er um starfið á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Dr. Sigríður Jónsdóttir, námsbrautarstjóri efnafræðinámsbrautar í síma 525-4802, [email protected].

Umsókninni skal fylgja kynningarbréf, ferilskrá (CV) og ritaskrá ásamt stuttum greinargerðum um rannsóknaáform og eigin sýn á kennslu og kennsluhætti. Í umsókn skal koma fram hvert ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest. Umsækjendur senda þessi ritverk sín sem pdf skjöl með umsókn. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Tvö meðmælabréf skulu einnig fylgja umsókninni. Meðmælabréfin skulu send til Baldvins M. Zarioh, deildarstjóra hjá Vísinda- og nýsköpunarsviði á netfangið [email protected]

Umsókn og umsóknargögnum sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík. 

Ráðið verður í starfið til fimm ára, með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Rektor er heimilt að veita framgang í starfi strax við nýráðningu uppfylli viðkomandi þau skilyrði sem kveðið er á um í reglum nr. 263/2010 um framgang og tímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Laun eru skv. kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa um 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2900 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi.  Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem báðar heyra undir Raunvísindastofnun (www.raunvisindastofnun.hi.is), Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans.

Við Raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs stunda um 400 stúdentar nám í efnafræði, eðlisfræði og stærðfræði. Þar af eru framhaldsnemar í meistara- og doktorsnámi um 60 talsins. Akademískir starfsmenn í raunvísindum eru um 40, kennarar og sérfræðingar við Eðlisvísindastofnun (EH). Stofnunin er rannsóknarvettvangur kennara, sérfræðinga og framhaldsnema sem stunda grunnrannsóknir í raunvísindum. EH hefur sterk alþjóðleg tengsl og mörg rannsóknarverkefni eru unnin í víðtæku samstarfi vísindamanna hérlendis og erlendis.

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira