Hoppa yfir valmynd
Kennsla og rannsóknirHöfuðborgarsvæðið201909/1639Háskóli Íslands

Doktorsnemi við Líf- og Umhverfisvísindastofnun

Doktorsnemi við Líf- og Umhverfisvísindastofnun, Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Háskóli Íslands 

Erfðafræðilegur grundvöllur aðlögunar og aðskilnaðar náskyldra bleikjuafbrigða:
Í Þingvallavatni er að finna bleikjuafbrigði sem hafast við í mismunandi búsvæðium og lifa á ólíkum tegundum smádýra og fiska. Að hve miklu leyti má rekja mismunandi svipfar þessara afbrigða til genasæta með nokkur eða veruleg áhrif? Eru samsætur tengdar svipfarinu arfhreinar í mismunandi afbrigðum eða er tíðni þeir breytileg milli og innan afbrigða? Eru vísbendingar um að jákvætt náttúrulegt val hafi mótað erfðabreytileika innan og milli afbrigða bleikjanna. Er mikil skörun á samsætum sem náttúrulegt val hefur mótað og samsætum sem sýna sterk tengsl við tiltekna svipfarseiginleika bleikjuafbrigðanna? Í rannsóknarhóp okkar er nú leitað svara við ofangreindum spurningum og mun doktorsstúdentinn taka virkan þátt í því. 

Bleikjan (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni hentar mjög vel til rannsókna á vist- og erfðafræði afbrigðamyndunar og aðlögnum tengdri henni: i) Bleikjuafbrigðin eru mjög vel aðgreind og hefur öllum lykilþáttum í útliti, vistfræði, lífssöguþáttum, atferli og þroskaferlum þeirra verið vel lýst, ii). Flest bendir til þess að afbrigðin hafi þróast á nokkrum árþúsundum eftir að ísaldarjökullinn hopaði. Þarna er því líkast til um að ræða óvenjulega hröð ferli aðskilnaðar og aðlögunar. 

Það hefur hamlað rannsóknum á þróun bleikjuafbrigðanna að tegundin er með nokkuð langan lífsferil þannig að rannsóknir með eldistilraunum eru tímafrekar. Þá hefur vitnaskja um erfðamengi tegundarinnar verið af skornum skammti. Miklar framfarir á sviði sameindaerfðafræði á allra síðustu árum hafa nú opnað möguleika á að leita svara við spurningum er snerta afbrigða- og tegundamyndun. 

Helstu verkefni og ábyrgð
Meginmarkmið verkefnisins er að svara lykilspurningum um erfðafræðilegan grunndvöll hins óvenju hraða aðskilnaðar bleikjuafbrigðanna, m.a. með því að finna og kanna eðli genasæta sem tengjast eiginleikum fiskanna, hvernig þau dreifast í erfðamenginu, hversu sterk áhrif þeirra eru á tiltekin svipfarseinkenni og hvort nema megi áhrif náttúrulegs vals á genasætum sem tengjast aðskilnaði bleikjugerðanna. Við munum leitast við að svara ofangreindum spurningum bæði með aðferðum klassískrar erfðafræði og vel hönnuðum æxlunartilraunum, en einnig með því að nota nýjustu aðferðir við að greina erfðamengi fiska sem safnað verður í náttúrunni. 

Við leitum að nemanda sem er áhugasamur og með góðan fræðilegan bakgrunn í þróunar- og þroskunarfræði, kann góð skila á aðferðum sameindalíffræði og hefur áhuga á atferli dýra. Vinnan er fólgin í að skipuleggja og framkvæma söfnun sýna úti í náttúrunni, söfnun og tölfræðilegri greiningu gagna úr raðgreiningu erfðaefnis og hönnun vinnustofutilrauna. Doktorsneminn verður staðettur við Háskóla Íslands. Verkefnið er unnið í samstarfi við Michael B. Morrissey við háskólann í St Andrews, Skotlandi, og Moira M Ferguson við háskólann í Guelph í Kanada og fer hluti vinnunnar fram þar. Einnig munu vísindamenn frá háskólanum á Hólum koma að verkefninu.

Hæfnikröfur
-Meistaragráða í líffræði eða skyldum greinum frá viðurkenndum háskóla.
- Nemendur sem tekið hafa meistaragráðu sem innifelur ritgerð um eigið rannsóknarverkefni sem er að minnsta kosti 60ECTS einingar hafa forgang.
- Góð enskukunnátta í töluðu og rituðu máli
- Góð hæfni í mannlegum samskiptum
- Umsækjandi þarf að geta unnið sjálfstætt og eiga gott með að vinna í teymi
- Nemandinn skal ljúka náminu innan fjögurra ára. Nemandinn getur tekið þátt í kennslu að hámarki í tvö misseri.

Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara hafa gert.
Verkefnið er til þriggja ára og hefst í lok ágúst 2019, eða eftir samkomulagi. Vinna doktorsnema við verkefnið verður uppistaða doktorsritgerðarinnar. Starfsaðstaða er við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, og við Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði. 

Umsókn skal fela í sér i) greinargerð um áhuga umsækjanda á verkefninu, af hverju hann sækist eftir doktorsgráðu, hvað hann vonast til að fá út úr náminu og af hverju hann telur sig vel hæfan í verkefnið. Greinargerðin skal ekki vera lengri en 2 blaðsíður. Til viðbótar skal fylgja: ii) ferilskrá, iii) afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistarapróf), staðfest afrit af námsárangri í námskeiðum og afrit af ritgerðum tengdum rannsóknaverkefnum, og iv) nöfn og netföng tveggja umsagnaraðila sem eru tilbúnir að veita meðmæli.

Í framhaldi af ákvörðun um ráðningu þarf að sækja formlega um doktorsnám í Háskóla Íslands. 

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans, sjá hér: http://www.hi.is/haskolinn/jafnrettisaaetlun#markmid2.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands, sjá hér: https://www.hi.is/haskolinn/malstefna_haskola_islands.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi. Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans. 

Frekari upplýsingar um bleikjuhópinn má sjá á slóðinni http://luvs.hi.is/en/arctic-charr-development-and-genomics

Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 31.10.2019

Nánari upplýsingar veitir
Kalina Hristova Kapralova - [email protected] - 5254000


Háskóli Íslands
Líf- og umhverfisvísindastofnun
Sturlugata 7
101 Reykjavík


Smelltu hér til að sækja um starfið
 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira