12 Yfirlit yfir lagabreytingar
Lagabreytingar vegna tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins:
Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Lagt verður til að tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta verði framlengdar óbreyttar um eitt ár.
Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Lögð verður til hækkun á fjárhæðum og skerðingarmörkum barnabóta.
Lög nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Lagt verður til að fjárhæðir kolefnisgjalds verði hækkaðar til samræmis við forsendur frumvarps til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja.
Lög nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Lagt verður til að bifreiðagjald hækki um 2,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2025.
Lög nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Lagt verður til að áfengis- og tóbaksgjald hækki um 2,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2025.
Lög nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Lögð verður til 2,5% hækkun á sérstöku gjaldi til Ríkisútvarpsins í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2025.
Lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Lögð verður til 2,5% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2025.
Lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Lögð verður til breyting á fjárhæðum úrvinnslugjalda í samræmi við tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs.
Lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Lögð er til framlenging á afnámi tekna hjá starfsendurhæfingarsjóðum, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, af almennu tryggingagjaldi.
Lög nr. 145/2018, um veiðigjald. Lagt verður til að hækka veiðigjald á uppsjávarfisktegundir úr 33% í 45%, á móti er fellt niður álag á uppsjávarfisktegundir. Einnig verður lagt til að fella niður heimild laganna um að veiðigjald sé rekstrarkostnaður sem draga megi frá tekjuskattsstofni samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga.
Lög nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Lögð verður til tímabundin breyting á heimild Náttúruhamfaratryggingar Íslands til innheimtu hærra álags á iðgjöld sem renna til stofnunarinnar.
Lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Lögð verður til hækkun skilagjalds á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plastefni.
Lög nr. 96/2023, um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Lagt verður til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2025 skv. 4. mgr. 20. gr. verði breytt til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður.
Lagabreytingar vegna gjaldahliðar fjárlagafrumvarpsins:
Lög nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl. Lagt verður til að festa fjárhæð sóknargjalda við 1.133 kr. á einstakling á mánuði.
Lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Lögð verður til lækkun á framlagi ríkissjóðs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.
Lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lögð verður til breyting í því skyni að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða fyrir árið 2025. Þá verður lögð til breyting sem undanþiggur lífeyrissjóði, sem njóta bakábyrgðar ríkis og sveitarfélaga, ákvæði um gjaldmiðlaáhættu.
Lög nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Lögð verður til breyting á hlutfalli af álagningarstofni sem gjaldskyldir aðilar skulu greiða miðað við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar fyrir árið 2025 með hliðsjón af áætlaðri stöðu í árslok 2024.
Lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald. Lögð verður til breyting á eftirlitsgjaldi í samræmi við áætlanir Seðlabanka Íslands um rekstrarkostnað við fjármálaeftirlit og skilavald á árinu 2025.
Lög nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Lögð verður til framlenging á bráðabirgðaákvæðum þar sem kveðið er annars vegar á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2025 og hins vegar að atvinnurekendur, þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóðir greiði áfram sama hlutfall af stofni til iðgjalds á árinu 2025, eða 0,10%.
Lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Lögð er til framlenging á ákvæði til bráðabirgða um samanburð á útreikningi kostnaðarþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Lögð verður til framlenging á því að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða.
Lög nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Lögð verður til breyting á ákvæði um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga við byggingu hjúkrunarheimila þar sem sveitarfélög verða undanþegin þátttöku í stofnkostnaði þeirra. Breytingin er háð því að samkomulag náist um tilfærslu annarra verkefna frá ríki til sveitarfélaga eða breytingu á tekjustofni þeirra.
Lög nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Lögð verður til breyting á ákvæði til bráðabirgða í því skyni að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða fyrir árið 2025.
Lög nr. 100/2007, um almannatryggingar. Lögð verður til breyting á 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í því skyni að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða fyrir árið 2025.
Lög nr. 100/2007, um almannatryggingar. Lögð verður til framlenging á 1. tölul. bráðabirgðaákvæðis um frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna.
Lög nr. 100/2007, um almannatryggingar. Lögð verður til breyting á almennu frítekjumarki ellilífeyrisþega og það hækkað úr 300 þúsund kr. á ári í 438 þúsund kr. á ári samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar.
Lög nr. 51/1995 um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Lagt verður til brottfall laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks sem tryggir fiskvinnslufólki sömu réttindi innan atvinnuleysistryggingakerfisins og aðrir þátttakendur á vinnumarkaði sem eru tímabundið án atvinnu.
Lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Lögð verður til breyting á um lögum um atvinnuleysistryggingar sem tryggir fiskvinnslufólki sömu réttindi innan atvinnuleysistryggingakerfisins og aðrir þátttakendur á vinnumarkaði sem eru tímabundið án atvinnu.
Lög nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Lögð verður til framlenging um eitt ár á II. bráðabirgðaákvæði sem kveður á um heimild til að nota fé ofanflóðasjóðs til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.