4 Tekjur ríkissjóðs (A1-hluta)
Tekjur ríkissjóðs aukast í krónum talið á næsta ári samkvæmt tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins en lækka þó lítið eitt sem hlutfall af landsframleiðslu (VLF). Í kjölfar kórónuveirufaraldursins jukust efnahagsumsvif ítrekað umfram þær spár sem lágu til grundvallar tekjuáætlun fjárlaga. Telja má að það ástand sé nú að baki þar sem hægt hefur á efnahagsumsvifum og hagkerfið færist nær jafnvægisstöðu. Þar með má vænta meiri stöðugleika milli hagspáa en áður og að það endurspeglist einnig í tekjuáætlunum.
Nánar er fjallað um áhrif efnahagsforsendna á einstaka tekjustofna og áhrif og umfang skattabreytinga síðar í kaflanum. Jafnframt eru breytingum á tekjuáætlun ársins 2024 gerð skil en tekjur yfirstandandi árs mynda grunn fyrir tekjuáætlun ársins 2025. Í lok kaflans má finna áætlun um skattastyrki ársins 2025 þar sem eftirgjöf í skattkerfinu er skipt eftir málefnasviðum. Tafla 4.1 dregur fram helstu niðurstöður tekjuáætlunarinnar ásamt endurmati á tekjum yfirstandandi árs og tekjuuppgjöri ársins 2023.
Tafla 4.1 Tekjuáætlun 2023-2025
4.1 Endurmetin tekjuáætlun 2024
Heildartekjur yfirstandandi árs hafa verið endurmetnar og er áætlað að þær muni nema um 1.373 ma.kr., eða 30% af VLF. Skatttekjur og tryggingagjöld ársins hafa verið endurmetin í samræmi við breyttar efnahagsforsendur og nýjustu upplýsingar um álagningu og innheimtu. Lítur nú út fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði 17 ma.kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins eða sem nemur 1,3%. Sú niðurstaða skýrist að stærstum hluta af endurmati á áætluðum afskriftum skattkrafna á grundvelli breyttrar aðferðafræði við árlegt mat á eftirstöðvum krafna sem nú er talið að muni minnka afskriftaþörfina 2024 og á næstu árum, sbr. umfjöllun í kafla 3.2.2 Skattastefna og tekjuþróun í fjármálaáætlun 2025–2029. Að því frátöldu er frávikið frá tekjuáætlun gildandi fjárlaga 1,5 ma.kr. til lækkunar.
Af einstökum sköttum eða gjöldum aukast tekjur af fjármagnstekjuskatti mest frá áætlun fjárlaga, eða um 10 ma.kr. Endurmatið er í samræmi við breytingar í þjóðhagsspá fyrir árið þar sem nú er gert ráð fyrir meiri verðbólgu og hærri vöxtum en í þeirri spá sem lá til grundvallar samþykktum fjárlögum. Tekjur af arði og vöxtum hækka um 8,1 ma.kr. sem skýrist af auknum arðgreiðslum ríkisfyrirtækja umfram fyrri áætlanir. Jafnframt er tekjuskattur lögaðila endurmetinn um 4,7 ma.kr. til hækkunar. Hækkun tekjuskatts lögaðila endurspeglar nýjar upplýsingar fengnar úr ársreikningum stærstu fyrirtækja. Tekjuskattur lögaðila verður endurskoðaður þegar álagning á lögaðila liggur fyrir í október næstkomandi. Gert er ráð fyrir um 13,8 ma.kr. lækkun á virðisaukaskatti (VSK) sem er stærsti skattstofn ríkisins. Þar vegast á áhrif minni einkaneyslu og meiri verðbólgu en áður hafði verið gert ráð fyrir.
4.2 Tekjuáætlun 2025
Tekjuáætlun fyrir fjárlagaárið 2025 byggir á endurmetinni tekjuáætlun ársins 2024 og þjóðhagsspá Hagstofu Íslands að teknu tilliti til fyrirhugaðra skattkerfisbreytinga.
4.2.1 Skattkerfisbreytingar
Þær skattabreytingar sem ráðast á í árið 2025 taka m.a. mið af viðbrögðum stjórnvalda við efnahagslegri þróun og áhrifum tæknibreytinga á tekjustofna ríkisins. Skattkerfisbreytingar ársins 2025 byggjast jafnframt á fyrri ákvörðunum og pólitískum áherslum í fjármálastefnu og fjármálaáætlunum ríkisstjórnarinnar.
Stærsta skattkerfisbreyting ársins felst í kerfisbreytingu á gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022–2026 var stefnt að því að tekjur af ökutækjum og eldsneyti yrðu aftur 1,7% af VLF, sem var sögulegt meðaltal áranna 2010–2017. Tekjur af ökutækjum og eldsneyti eru að miklu leyti tengdar því eldsneyti sem notað er á ökutækin og losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum. Með hröðum orkuskiptum í samgöngum og sífellt sparneytnari bílvélum hafa því tekjur af ökutækjum og eldsneyti fallið töluvert og má búast við að sú þróun haldi að óbreyttu áfram. Til að bregðast við þeirri þróun hefur verið ákveðið að taka upp kílómetragjald vegna notkunar bifreiða en samhliða verði eldri gjöld felld niður, þ.e. vörugjöld af bensíni og olíugjald af dísilolíu. Jafnframt verður kolefnisgjald hækkað til að viðhalda hvötum til orkuskipta. Fyrsta skrefið í þessari kerfisbreytingu var tekið í byrjun árs 2024 með upptöku kílómetragjalds á notkun rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbifreiða. Annað skrefið verður stigið í byrjun árs 2025 og felst í því að kílómetragjald verður einnig lagt á bifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Með þessum breytingum er ekki aðeins skotið styrkari stoðum undir tekjuöflun ríkisins heldur einnig komið á skilvirkara og sanngjarnara gjaldakerfi þar sem þeir borga sem nota vegakerfið en þó að teknu tilliti til áhrifa af þyngd ökutækja á vegslit.
Á vettvangi OECD og G20-ríkjanna hefur verið unnið að aðgerðum til að sporna gegn tilfærslu skattstofna á milli landa. Í þeirri vinnu felst m.a. upptaka 15% alheimslágmarksskatts á alþjóðleg fyrirtæki. Tilgangur skattlagningarinnar er að koma í veg fyrir að stór alþjóðleg fyrirtæki geti komist hjá skattlagningu með því að færa hagnað til lágskattaríkja. Frá síðustu áramótum hefur fjöldi ríkja þegar innleitt alheimslágmarksskatt. Ísland hefur samþykkt að innleiða alheimslágmarksskattinn og mun hann taka gildi í ársbyrjun 2025. Óvissa er með væntar tekjur af innleiðingunni en gert er ráð fyrir að hún geti skilað ríkissjóði auknum tekjum frá árinu 2026.
Auknum ferðamannastraumi á undanförnum árum hefur fylgt álag á náttúru og innviði. Til skoðunar er að gera breytingar á gjaldtöku ferðamanna í samræmi við nýsamþykkta ferðamálastefnu og í samráði við menningar- og viðskiptaráðuneytið.
Gert er ráð fyrir auknum tekjum af veiðigjaldi á árinu 2025. Matvælaráðuneytið leiðir endurskoðun á lögum um veiðigjald sem gert er ráð fyrir að skili um 2 ma.kr. í ríkissjóð á árinu 2025.
Verðmætagjald sjókvíaeldis hækkar úr 4,3% í 5% af markaðsverði afurða. Gert hafði verið ráð fyrir að hækka gjaldið úr 3,5% í 5% í fjárlögum ársins 2024 en ákveðið var að áfangaskipta hækkuninni. Því kemur seinni áfanginn til framkvæmda í fjárlögum ársins 2025 og er gert ráð fyrir að tekjur aukist um 300 m.kr. vegna breytingarinnar.
Jafnframt er fyrirhuguð vinna til að varna mismunun í skattlagningu. Vinnan snýr að því að við þær aðstæður að framteljandi hefur nær eingöngu fjármagnstekjur sér til framfærslu verði litið svo á að tiltekin fjárhæð eða hlutfall teknanna verði talið fram sem laun í skattframtali og þannig leggist útsvar á þann hluta við álagningu opinberra gjalda en ekki innan staðgreiðsluársins.
Sem fyrr er gert ráð fyrir hækkun krónutölugjalda á milli ára. Vegna fyrirhugaðrar kerfisbreytingar á gjaldtöku af notkun ökutækja munu bensín- og olíugjöld falla niður. Því er umfang krónutölugjalda minna en áður hefur verið. Miðað er við að gjöldin hækki um 2,5% í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga og verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands þrátt fyrir að verðbólga sé áætluð 5,2% yfir þetta ár samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Tekjuáhrif breytingarinnar nema um 1,4 ma.kr. Hækkunin nær til áfengis-, tóbaks- og bifreiðagjalds, gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjalds.
Tafla 4.2 Aðgerðir og helstu skattabreytingar
4.2.2 Umfjöllun um forsendur helstu tekjustofna
Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 1.448 ma.kr. fjárlagaárið 2025 sem svarar til 29,6% af VLF. Þar af eru skatttekjur og tryggingagjöld áætluð 1.290 ma.kr.
Aukning er í tekjuskatti lögaðila árið 2025 sem skýrist einkum af tímabundinni hækkun skatthlutfallsins á árinu 2024 úr 20% í 21% sem kemur til álagningar árið 2025. Tekjur af tekjuskatti lögaðila taka mið af skattskyldum hagnaði ársins á undan. Áætlaðar tekjur af tekjuskatti lögaðila eru um 143,7 ma.kr. á árinu 2025. Auk þess er gert ráð fyrir um 7,5 ma.kr. af sérstökum fjársýsluskatti. Gert er ráð fyrir að tekjurnar aukist á milli ára í krónum talið en lækki lítillega sem hlutfall af VLF enda hefur það hlutfall verið sögulega hátt sl. tvö ár. Tekjur af tekjuskatti einstaklinga eru áætlaðar 286,8 ma.kr. árið 2025. Vel hefur árað á vinnumarkaði undanfarin misseri, laun hafa hækkað, fjöldi vinnustunda hefur aukist og atvinnuleysi haldist lítið. Þessi mikli vöxtur er að baki og stefnir vinnumarkaðurinn í meira jafnvægi á árinu 2025. Innheimta staðgreiðslu hefur því verið góð en hluti ríkissjóðs í staðgreiðslunni er minni en áður vegna eftirgjafar tekjuskatts til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks sl. tvenn áramót. Vegna verðbólgu á yfirstandandi ári og gildandi lagaákvæða um þróun viðmiðunarfjárhæða munu skattleysis- og þrepamörk hækka umtalsvert næstu áramót. Önnur breyting, sem tók gildi fyrir tekjuárið 2022, fól m.a. í sér að framangreind mörk hækka sem nemur verðbólgustigi við lok hvers árs að viðbættu 1% framleiðniviðmiði. Henni er ætlað að koma í veg fyrir raunskattskrið og verja kaupmátt launa. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir 5,2% verðbólgu í lok árs 2024 og er því áætlað að persónuafsláttur og þrepamörk hækki um 6,3% árið 2025.
Áætlað er að annað skref fyrirhugaðrar kerfisbreytingar á gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti skili ríkissjóði um 8 ma.kr. Auk þess er gert ráð fyrir verðlagsuppfærslu á bifreiðagjaldi. Tekjur af ökutækjum og eldsneyti eru áætlaðar 74,4 ma.kr sem nemur um 1,5% af VLF sem er fremur lágt í sögulegu samhengi og undir 1,7% markmiði ríkisstjórnarinnar.
Tekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti samanstanda af staðgreiðslu vegna vaxtatekna og arðs ársins 2025 og eftirágreiddum skatti vegna söluhagnaðar og leigutekna fyrra árs skv. álagningu í maí nk. Gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur skili 67,5 ma.kr. í ríkissjóð á árinu 2025. Það er nokkru minna en árin 2023–2024 enda er búist við að vaxtatekjur landsmanna dragist saman með lækkandi vaxtastigi og aðrar fjármagnstekjur aukist hóflega.
Stærsti einstaki liður skatttekna ríkisins er virðisaukaskattur (VSK). Eftir kröftugan vöxt í neyslu landsmanna og erlendra ferðamanna eftir veirufaraldurinn hægðist á vexti einkaneyslu árin 2023 og 2024, en hún er sá þáttur hagvaxtarins sem mestu ræður um þróun VSK. Aðföng og fjárfesting í starfsemi hins opinbera og aðila utan VSK-kerfisins skila ríkinu einnig VSK og almennt fylgir því sá skattur efnahagsstarfseminni nokkuð vel. Skattalagabreytingar og ekki síður hinir ýmsu tímabundnu skattastyrkir hafa þó sín áhrif á tekjurnar. Hafa árlegar tekjur af VSK sveiflast á bilinu 7,9–8,9% af VLF á síðustu níu árum, þ.e. síðan skattþrepunum tveimur var breytt, árið 2015.
Eftir innan við 1% vöxt á árunum 2023 og 2024 er nú búist við 2,4% aukningu einkaneyslu á næsta ári. Að frátalinni neyslu á ferðalögum erlendis eykst neysla landsmanna um 6,9% að nafnvirði. Neysla erlendra ferðamanna eykst nokkru minna, eða um 1,8% að raunvirði og 5,7% að nafnvirði.
Lagabreytingar hafa fyrst og fremst óbein áhrif á tekjuþróun VSK árið 2025. Hliðaráhrif verða af breytingum á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, þegar hefðbundin eldsneytisgjöld falla brott samhliða hækkun kolefnisgjalds og breikkun kílómetragjalds. VSK myndar ekki stofn til kílómetragjalds og er gert ráð fyrir 2,7 ma.kr. lækkun VSK vegna þessara áforma. Ívilnanir í VSK-kerfinu minnkuðu verulega um síðustu áramót þegar Orkusjóður tók við því hlutverki að styrkja kaup á hreinorkubílum. Ívilnun við kaup á hjólum rennur út um næstu áramót en sérstök ívilnun við sölu notaðra hreinorku- og tengiltvinnbíla verður í gildi út árið 2025. Í tengslum við aðgerðaráætlun í loftslagsmálum mun ívilnunin við kaup á hjólum verða tekin til skoðunar. Þá ber að nefna að áætluð tekjulækkun 2025 vegna afskrifaðra krafna í VSK er minni en hún hefur sögulega verið og skýrist það af bókhaldslegum breytingum.
Gangi framangreindar forsendur eftir verða tekjur af VSK rúmir 430 ma.kr. Þær hækka lítillega í hlutfalli af VLF, upp í 8,8%. Vægi VSK af skatttekjum í heild að tryggingagjöldum meðtöldum mun áfram aukast og nema þriðjungi.
Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi muni nema 149,8 ma.kr. árið 2025. Stofn tryggingagjalds hefur vaxið mikið undanfarin ár samhliða fjölgun vinnandi handa og miklum launahækkunum. Á árinu 2024 hefur hægst á þessum vexti. Í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir minni launahækkunum árið 2025 en á fyrra ári, svipuðu atvinnuleysi en færri vinnustundum. Þessar lykilbreytur ákvarða tekjur ríkisins af tryggingagjaldi, sem búist er við að aukist um rúm 6% að nafnvirði á milli ára og haldist nær óbreytt í 3,1% hlutfalli af VLF.
Vaxtatekjur samanstanda af vöxtum af skattkröfum og bankainnstæðum í innlendri og erlendri mynt auk vaxta og verðbóta af veittum lánum. Meiri hluti vaxtatekna er vegna veittra lána en þau hefur ríkissjóður veitt til að fjármagna m.a. útlán Menntasjóðs námsmanna, Húsnæðissjóðs og Byggðastofnunar auk ýmissa fjárfestingaverkefna. Vaxtatekjur ársins 2025 eru áætlaðar 39,3 ma.kr.
Áætlaðar tekjur af áfengisgjaldi eru 26,8 ma.kr. á árinu 2025. Tekjur næsta árs ráðast af forsendum um einkaneyslu og verðbólgu í uppfærðri þjóðhagsspá.
Gert er ráð fyrir tekjum af veiðigjaldi sem nemur 14,3 ma.kr. á árinu 2025. Þar af eru um 2,3 ma.kr. af verðmætagjaldi af fiskeldi. Hluta af aukningunni á milli ára má rekja til fyrirhugaðrar hækkunar á verðmætagjaldinu úr 4,3% í 5%. Veiðigjald byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns tveimur árum fyrir álagningu gjaldsins og er lagt á í krónum á hvert kílógramm óslægðs afla. Áætlunin fyrir 2025 verður endurskoðuð þegar endanleg ákvörðun um álagningu veiðigjalda árið 2024 liggur fyrir hjá Skattinum í byrjun desember nk.
Yfirlit um arðgreiðslur frá félögum og hlutdeild í hagnaði B-hluta félaga ríkissjóðs má sjá í töflu 4.3. Af eign ríkisins í viðskiptabönkunum er gert ráð fyrir samtals 16,9 ma.kr. arðgreiðslu á árinu 2025 sem er lækkun sem nemur tæplega 5 ma.kr. frá fyrra ári. Það skýrist að hluta til af væntri sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Arðgreiðslur Landsvirkjunar nema 30 ma.kr. á árinu 2024 og 21,2 ma.kr. á árinu 2025.
Tafla 4.3 Arðgreiðslur og tekjur B-hluta fyrirtækja
4.3 Áhrif á jafnrétti kynjanna
Hlutfall kynja er mismunandi á milli starfsstétta og neyslumynstur ólík. Því geta skattabreytingar og aðrar álögur sem snerta einstakar atvinnugreinar eða leggjast með ólíkum hætti á tekjur og neyslu haft mismunandi áhrif á kynin. Hér er að öllu leyti vísað til meðaltala enda eru áhrifin á einstaklinga í sömu atvinnugrein eða með svipaða neyslu þau sömu burt séð frá kyni viðkomandi.
Gera má ráð fyrir að skattlagning á notkun bifreiða hafi mismunandi áhrif á kynin. Konur nota einkabílinn ekki síður en karlar en fara gjarnan fleiri og styttri ferðir. Umtalsverður kynjamunur er á eignarhaldi bifreiða. Karlar eru skráðir eigendur tæplega 2/3 fólks- og sendibifreiða, auk þess sem bílar í eigu kvenna eru almennt léttari og losa minna af gróðurhúsalofttegundum en bifreiðar í eigu karla. Því má gera ráð fyrir að áhrif breyttrar skattlagningar verði meiri á karla en konur.
Líklegt er að hækkun veiðigjalds hafi meiri áhrif á karla en konur en töluvert ójafnvægi er á stöðu kynjanna í sjávarútvegi. Konur voru um fjórðungur þeirra sem störfuðu við fiskveiðar eða fiskvinnslu árið 2023, auk þess sem hlutfall kvenna sem stjórnenda í greininni er enn mun lægra en karla.
Fyrirhugaðar eru breytingar á gjaldtöku af ferðamönnum sem er ólíklegt að hafi áhrif á stöðu kynjanna. Á árinu 2023 sóttu lítillega fleiri karlar en konur Ísland heim og munar þar mest um hærra hlutfall karla en kvenna í hópi þeirra sem eru með meðalháar eða háar heimilistekjur en þessir tekjuhópar eru næstum helmingur alls ferðafólks á Íslandi. Karlar eru rétt ríflega helmingur þeirra sem starfa við ferðaþjónustu skv. tölum Hagstofu Íslands. Meira en 40% starfsfólks eru innflytjendur og hefur aukning starfandi í greininni að miklu leyti verið drifin áfram af erlendu starfsfólki.
4.4 Breytingar á tekjuáætlun ársins 2025 frá fjármálaáætlun
Tekjur ársins 2025 eru áætlaðar 1.448 ma.kr. sem er um 2 ma.kr. meira en í fjármálaáætlun sem lögð var fram í apríl sl. Hlutfall heildartekna af VLF lækkar þó um 0,3 prósentustig, í takt við endurmat tekjuáætlunar út frá m.a. uppfærðri þjóðhagsspá sem felur í sér 1,2% hærri landsframleiðslu að nafnvirði. Þrátt fyrir að lítil breyting sé á áætluðum heildartekjum í krónum talið er nokkur munur eftir einstökum sköttum og öðrum tekjuliðum. Almennt gildir að endurmat á tekjum ársins 2025 frá í vor er byggt á margvíslegum nýjum upplýsingum, allt frá tekjuuppgjöri ársins 2023 og þróun álagningar og innheimtu yfirstandandi árs til hagspár næsta árs. Í endurmetinni tekjuáætlun 2025 munar mest um nær 8 ma.kr. hækkun á fjármagnstekjuskatti sem skýrist af nýjum upplýsingum úr framtölum einstaklinga og álagningu Skattsins frá í maí auk nýrrar þjóðhagsspár. Þótt áfram sé gert ráð fyrir að verðbólga hjaðni og vextir lækki á næsta ári er vaxtastigið 2025 nokkru hærra í hagspá fjárlagafrumvarpsins en fjármálaáætlunar. Tekjuskattur lögaðila er talinn verða 4 ma.kr. hærri sem skýrist einkum af endurmati á tekjugrunni ársins 2024 í ljósi upplýsinga um rekstur og hagnað fyrirtækja árið 2023. Tryggingagjaldið er áætlað 1,5 ma.kr. hærra, en tekjuskattur einstaklinga 1,7 ma.kr. lægri en í fjármálaáætlun þrátt fyrir að stofn beggja sé að hluta sá sami. Ólík niðurstaða endurmatsins skýrist m.a. af ólíkum grunnáhrifum af tekjuuppgjöri ársins 2023, samspili útsvars við tekjuskatt og hinum ýmsu áhrifaþáttum á tekjuþróun landsmanna. Af liðum utan skatttekna má nefna lækkun á áætluðum arði um 5 ma.kr. miðað við áætlun sl. vor.
4.5 Skattastyrkir
Áætlað er að skattastyrkir ríkissjóðs verði 145 ma.kr. árið 2025, eða 3% af VLF. Með skattastyrkjum er átt við eftirgjöf á skattkröfu sem leiðir til fráviks frá grunngerð skattkerfisins og veldur tekjutapi fyrir hið opinbera. Í töflu 4.4 má sjá yfirlit yfir skattastyrki ásamt sundurliðun. Heldur hefur dregið úr umfangi skattastyrkja undanfarin ár, en stærsti hluti þeirra er til kominn vegna neðra þreps virðisaukaskatts þar sem 13 prósentustiga munur er á neðra þrepinu og almenna þrepinu og reiknast sá munur sem skattastyrkur. Meginástæða þess að skattastyrkir eru miklir í ferðaþjónustu, sbr. töflu 4.4, er sú að stór hluti hennar ber 11% í stað 24% VSK. Þá gætir einnig töluverðra áhrifa af endurgreiðslum VSK í skattastyrkjum næsta árs. Í heild nema skattastyrkir í VSK 78% af skattastyrkjum og þar af er neðra þrepið 64% af öllum skattastyrkjum.
Engar nýjar lögfestar tegundir skattastyrkja eru í áætlun ársins 2025. Nokkrir núgildandi skattastyrkja renna hins vegar sitt skeið á enda og því fækkar tegundum skattastyrkja úr 76 í 69 á næsta ári. Ekki er gert ráð fyrir framlengingu á ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán í gegnum almenna úrræðið árið 2025, sem að öðru óbreyttu rennur út í lok árs 2024. Hins vegar verður áfram heimilt að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa undir formerkjum „Fyrstu fasteignar“. Endurgreiðsluheimild á VSK vegna reiðhjóla og léttra bifhjóla fellur brott í lok árs 2024. Þá er áætlað að endurgreiðslur vegna framkvæmda með auknum endurgreiðslurétti sem var í gildi tímabundið sem viðbrögð við heimsfaraldri fjari að mestu út árið 2024. Skattastyrkir í fjármagnstekjuskatti hafa aukist undanfarin ár og á það sér tvær skýringar. Annars vegar hafa vaxtatekjur einstaklinga aukist vegna hás vaxtastigs og þar með einnig vaxtatekjur sem falla undir frítekjumark vaxtatekna. Hins vegar hafa heildartekjur einstaklinga af langtímaútleigu íbúðarhúsnæðis aukist en 50% slíkra leigutekna eru undanþegnar og telst það fyrirkomulag til skattastyrkja.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.