7 Samstæðuyfirlit A-hluta í heild
Í þessum kafla er sett fram samstæðuyfirlit fyrir A-hluta ríkissjóðs í heild til samræmis við framsetningu opinberra fjármála hjá Hagstofu Íslands. Með A-hluta í heild er átt við A1-hluta ríkissjóðs, sbr. 1. gr. fjárlaga og umfjöllun í köflum 3–5 í þessari greinargerð, ásamt A2- og A3-hluta ríkissjóðs sem fjallað er um í 6. kafla. Flokkun á starfsemi ríkisins er skv. 50. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.
Samstæðuyfirlit A-hluta í heild gerir grein fyrir uppgjöri allra aðila í A-hluta að teknu tilliti til innbyrðis viðskipta þeirra á milli. Til innbyrðis viðskipta teljast m.a. framlög úr A1-hluta til reksturs aðila í A2- og A3-hluta. Slík framlög eru skráð sem gjöld hjá A1-hluta en tekjur hjá A2- og A3-hluta. Til innbyrðis viðskipta teljast einnig vaxtagreiðslur til A1-hluta vegna veittra lána til aðila í A2- og A3-hluta. Þegar leiðrétt er fyrir innbyrðis viðskiptum er tekju- og gjaldahlið samstæðunnar lækkuð í jöfnum hlutum og er leiðréttingin því hlutlaus gagnvart afkomunni. Umfang innbyrðis viðskipta þessara aðila er áætlað um 82 ma.kr. árið 2025. Þá hefur afkoma A2- og A3-hluta aðila verið aðlöguð að framsetningu fjárlaga, þ.e. alþjóðlegum hagskýrslustaðli, sem felur í sér að afskriftir eru dregnar frá rekstrarútgjöldum og fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er gjaldfærð. Nánar er fjallað um þessa framsetningu í viðauka um framsetningu og uppgjör ríkisfjármála.
Rekstraryfirlit A-hluta í heild fyrir árin 2022–2025 er að finna í töflu 7.2. Vakin er athygli á því að við vinnslu samstæðuyfirlits A-hluta í heild fyrir árið 2025 og afkomuhorfur ársins 2024 hafa innbyrðis viðskipti verið áætluð annars vegar með upplýsingum um framlög til rekstrar úr ríkissjóði úr samstæðureikningi A2- og A3-hluta sem sett er fram í kafla 6 og hins vegar með áætlun um önnur innbyrðis viðskipti miðað við sögulega þróun.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.