10 Heimildir ráðherra
Í 40. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, segir að ekki megi selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Enn fremur segir í 46. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, að afla skuli heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, skip og loftför, söfn og safnhluta sem hafa að geyma menningarverðmæti, eignarhluti ríkisins í félögum og aðrar eignir sem verðgildi hafa. Lagaheimildir til þessara ráðstafana eru venju samkvæmt veittar í 6. gr. fjárlaga að undangengnu samráði við ríkisaðila sem bera ábyrgð á þeim málaflokkum sem um ræðir.
Heimildum fjármála- og efnahagsráðherra er skipt í sjö flokka og eru þær alls 147 talsins. Heimildirnar skiptast þannig að tvær heimildir eru til eftirgjafar gjalda, 36 til sölu fasteigna, 35 til ráðstöfunar lóða, spildna og jarða, 24 til kaupa og leigu fasteigna, 17 til kaupa og sölu hlutabréfa og annarra ráðstafana vegna umsýslu félaga, fjórar til samningsgerðar um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni og ýmsar heimildir eru 29 talsins. Í frumvarpinu er lagt til að fjárheimild vegna útgjalda sem kunna að falla til vegna heimildargreinarinnar nemi 308,5 m.kr. Ástæða er til að benda á að áætlað heildarumfang greinarinnar næmi hins vegar mun hærri fjárhæð væri ákveðið að nýta allar heimildir til fulls.
Í fyrsta flokki er heimild fjármála- og efnahagsráðherra til að fella niður virðisaukaskatt af efniskostnaði og sérfræðiþjónustu sem keypt er fyrir styrktarfé vegna rannsóknar Hjartaverndar á heilbrigði öldrunar. Í þessum flokki er einnig að finna heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn. Gerð er lítilleg breyting á seinni heimildinni og bætt við því skilyrði að staðfesting þurfi að liggja fyrir frá Sjúkratryggingum Íslands að sérstakur styrkur hafi ekki verið veittur vegna kaupa á íþróttabúnaðinum en sá styrkur getur verið jafnhár heildarverðmæti tiltekins tækis með virðisaukaskatti.
Í öðrum flokki eru heimildir til sölu fasteigna. Flestar heimildirnar í þessum flokki eru til sölu á húsnæði sem er óhentugt eða nýtist ekki lengur í ríkisrekstrinum. Almennar heimildir eru í 2.1–2.4 sem ætlað er að veita svigrúm til að endurskipuleggja húsnæðismál stofnana og annarra ríkisaðila í tengslum við skipulagsbreytingar sem eiga sér stað í viðkomandi málaflokkum. Aðrar heimildir eru til sölu á einstökum eignum, einkum á höfuðborgarsvæðinu sem endurnýjaðar eru frá fyrra ári. Gerð er breyting á heimild í 2.16 sem varðar Kópavogsbraut 1c en sú eign hefur verið nýtt undir starfsemi hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar. Til viðbótar við söluheimildina er lagt til að heimilt verði að færa fasteignina til Vigdísarholts í formi hlutafjár en félagið er alfarið í eigu ríkissjóðs. Vigdísarholt áformar að ráðast í talsverðar endurbætur á eigninni til að það uppfylli nútímaviðmið. Þar sem framkvæmdirnar verða á vegum félagsins og eignfærðar í bókum þess er til skoðunar að færa eignarhaldið til félagsins eða dótturfélags á vegum þess til einföldunar á rekstrarfyrirkomulagi. Heimild 2.36 er einnig ný og varðar sölu á fyrrum meðferðarheimili við Lækjarbakka á Geldingalæk sem ekki er lengur í nýtingu.
Þriðji flokkurinn felur í sér heimildir til ráðstöfunar lóða, spildna og jarða. Heimildirnar eru margar óbreyttar frá fyrra ári og flestar til komnar vegna almennrar umsýslu ríkisjarða. Heimild 3.11 er endurnýjuð frá fyrra ári sem aflað var í tengslum við forkaupsréttarákvæði ríkisins sem er að finna í lögum um náttúruvernd og menningarminjar. Heimild 3.30 er ný og varðar heimild til að ráðstafa landi ríkisjarðarinnar Skriðufells í Þjórsárdal. Fyrirhuguð er talsverð uppbygging á svæðinu sem er ætluð ferðaþjónustu en heimilt er samkvæmt skipulagi sveitarfélagsins að byggja þjónustumiðstöð, tjaldsvæði og gistiaðstöðu á landi ríkisins við Selhöfða. Sveitarfélagið stóð fyrir auglýsingu á uppbyggingu á innviðum svæðisins sem nær bæði til landsvæðis innan þjóðlendu og ríkisjarðarinnar Skriðufells. Til að hægt sé að ganga til samninga um ráðstöfun á landi í eigu ríkisins við Skriðufell þarf að afla heimildar til slíkrar samningsgerðar í 6. gr. fjárlaga og fylgja því ferli sem kveðið er á um í lögum nr. 100/2021 um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni. Heimild 3.31 er ný og varðar heimild til að ráðstafa landi Mógilsár með sérleyfis- eða rekstrarleyfissamningum vegna áforma um uppbyggingu á þjónustumiðstöð og svifferju í Esjuhlíðum. Á vegum FSRE er til skoðunar hvort áhugi sé meðal markaðsaðila á að ráðast í uppbyggingu við Mógilsá við Esjuhlíðar fyrir ferðaþjónustu og göngufólk. Unnið er að forathugun þar sem möguleikar svæðisins eru betur greindir og valkostir metnir í samræmi við lög nr. 100/2021 um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni. Heimild 3.32 er ný og varðar heimild til að selja ríkisjarðirnar Önundarhorn og Gíslakot. Ríkið eignaðist þessar tvær jarðir í kjölfar eldgossins undir Eyjafjöllum árið 2010. Í gildi er skammtímaleigusamningur um jarðirnar. Ekki er talið að sérstakir almannahagsmunir kalli á að land jarðanna þurfi að vera í eigu ríkisins og af þeim sökum er lagt til að sölumöguleikar á jörðunum verði skoðaðir. Heimild 3.33 er einnig ný og varðar ráðstöfun á landi Ólafsdals í Gilsfirði. Minjavernd stendur fyrir umtalsverðri uppbyggingu og endurgerð menningarminja í Ólafsdal þar sem fyrsti bændaskólinn á Íslandi var upphaflega rekinn. Árið 2015 var þáverandi byggingum og 57,5 hektara landi afsalað til Minjaverndar. Frá þeim tíma hefur Minjavernd staðið að framkvæmdum á svæðinu fyrir um 700 m.kr. en áætlaður heildarkostnaður er um 1.250 m.kr. Til skoðunar er að ganga til samninga við Minjavernd um ráðstöfun á stærra landi undir verkefnið eða um 40 hektara til viðbótar sem liggja við Gilsfjörð til að auka aðdráttarafl fyrir starfsemi á svæðinu. Til greina kemur einnig að Minjavernd og Storð ehf. komi á fót félagi sem yrði í sameiginlegri eigu þeirra til að halda utan um uppbyggingu og eignarhald á eignum í Ólafsdal.
Í fjórða flokki eru heimildir til að kaupa og leigja fasteignir. Flestar þeirra eru óbreyttar frá fyrra ári og skýra sig að mestu sjálfar. Gerð er breyting á heimild 4.7 frá fyrra ári þannig að hún nái einnig til leigu á húsnæði undir meðferðarheimili en ekki eingöngu þjónustustofnanir fatlaðra. Heimild 4.23 er ný þar sem lagt er til að afla nýrrar aðstöðu fyrir Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Núverandi starfsemi er á fjórum stöðum og talið er hægt að ná fram hagræði í starfseminni með því að koma henni fyrir á einum stað. Einnig er lagt til að heimild verði veitt til að ráðast í möguleg kaup á hesthúsi í Hjaltadal sem Háskólinn á Hólum hefur leigt undanfarin ár undir hestafræðideild skólans. Húsið hefur fyrst og fremst verið nýtt undir nemendahesta og hesta í eigu skólans.
Í fimmta flokki er fjallað um heimildir til að kaupa og selja hlutabréf og aðrar sambærilegar ráðstafanir. Nær allar heimildir í þessum flokki eru endurnýjaðar frá fyrra ári. Heimild 5.17 er ný þar sem lagt er til að heimild sé veitt til að koma á fót félagi í samstarfi við sveitarfélög um rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir liggur samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaga um fyrirkomulag á rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu þar sem miðað er við að ríkissjóður taki þátt í stofnun sérstaks félags sem fær það hlutverk að annast þróun, skipulag og rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að félagið verði í sameiginlegri eigu ríkis og sveitarfélaga og ríkissjóður fari þar með þriðjungshlut en einnig kemur til greina að einingunni verði komið fyrir hjá Betri samgöngum ohf.
Í sjötta flokki eru heimildir vegna samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni á vegum ríkisins. Allar heimildir eru endurnýjaðar frá fyrra ári og eru til komnar sökum þess að talið er að fimm ára samningstími, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sé of skammur þegar kemur að kaupum á þessari tilteknu þjónustu. Í samræmi við 2. mgr. 40. gr. laganna þarf heimild þingsins til að semja megi til lengri tíma en fimm ára enda eigi þau skilyrði við sem þar koma fram.
Í sjöunda flokki eru ýmsar heimildir sem nær allar eru óbreyttar frá fyrra ári. Heimild 7.26 er ný og mælir fyrir um heimild til úthlutunar á losunarheimildum gróðurhúsalofttegunda í viðskiptakerfi ESB sem tilheyra íslenska ríkinu til flugrekenda og byggir á því fyrirkomulagi sem mælt er fyrir um í lögum nr. 96/2023. Þá er heimild 7.28 einnig ný og varðar stofnun sérstaks sjóðs um verk Jóns Leifs tónskálds og ráðstöfun eigna og réttinda úr dánarbúi sonar hans til slíks sjóðs sem annars myndu renna til ríkissjóðs.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.