08 Sveitarfélög og byggðamál
Skilgreining málefnasviðs
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð innviðaráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2023–2025. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.
Heildaryfirlit útgjalda og breytingar eftir tilefnum
Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.
Heildargjöld málefnasviðs 08 Sveitarfélög og byggðamál árið 2025 eru áætluð 37.352,1 m.kr. og aukast um 1.812 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2024 eða sem svarar til 5,4%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 3.557,4 m.kr. milli ára eða sem svarar til 10,5%.
Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.
Hagræn skipting útgjalda
Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2023 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.
08.10 Framlög til sveitarfélaga
Starfsemi málaflokksins er í höndum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem er á ábyrgð innviðaráðherra. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2025 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær og ýti undir lýðræðislega virkni íbúa |
||
Heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga, m.a. ákvæða um fjármálaviðmið í rekstri sveitarfélaga, íbúalýðræði, þátttöku í atvinnurekstri og stöðu landshlutasamtaka. |
Innviðaráðuneyti |
Innan ramma |
Endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun.1 |
Innviðaráðuneyti |
Innan ramma |
Þróun mælaborðs yfir tölfræði á sviði jafnréttismála sveitarfélaga, t.a.m. lýðræðislega forystu, starfsmannahald, þjónustu og samsetningu íbúa.2 |
Innviðaráðuneyti |
Innan ramma |
Átak til að stuðla að markvissari árangri sveitarfélaga á sviði umhverfis- og loftslagsmála.3 |
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 2: Sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu |
||
Heildarstefnumótun og upphaf náins samstarfs ríkis og sveitarfélaga um stafræna þjónustu í gegnum island.is.4 |
Samband íslenskra sveitarfélaga, innviðaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma
|
Þróun viðmiða um lágmarksþjónustu sveitarfélaga, þ.e. hvaða viðmið um þjónustu sveitarfélag þurfi að veita til að uppfylla lágmarksrétt íbúa til þjónustu.5 |
Innviðaráðuneyti |
Innan ramma |
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 35.358,1 m.kr. og hækkar um 1.836,4 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 1.738,9 m.kr.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins er aukin um 2.295,6 m.kr. til lögbundins framlags í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þar af eru 1.738,9 m.kr. vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við þjóðhagsspá.
- Fjárheimild til sérstakra viðbótarframlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækkar um 1.290,7 m.kr. vegna flutninga fjárheimilda á 25% framlagi ríkisins vegna NPA-samninga frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 11 m.kr.
08.20 Byggðamál
Málaflokkurinn skiptist í sex liði sem heyra undir innviðaráðherra, þ.e. byggðaáætlun, sóknaráætlanir landshluta, Byggðastofnun, atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni, jöfnun flutningskostnaðar og Grindavíkurnefnd. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2025 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
||
Markmið 1: Jafna aðgengi að þjónustu |
||||
Skilgreina hvað felst í opinberri þjónustu með það að markmiði að jafna aðgengi og þjónustustig. Jafnframt að greina heildarkostnað vegna þjónustusóknar. |
Innviðaráðuneyti |
Innan ramma |
||
Styrkja rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. |
Innviðaráðuneyti |
Innan ramma |
||
Jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu með því að nýta ákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna og fjölga þannig sérfræðingum á heilbrigðissviði á landsbyggðinni.6 |
Heilbrigðisráðuneyti |
Innan ramma |
||
Markmið 2: Jafna tækifæri til atvinnu |
||||
Búsetufrelsi eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni, m.a. með því að störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. |
Innviðaráðuneyti |
Innan ramma |
||
Afhendingaröryggi raforku aukið og aðgengi að áreiðanlegri orku á landsvísu jafnað með jarðstrengjavæðingu dreifikerfis og þrífösun.7 |
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti |
Innan ramma |
||
Markmið 3: Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt |
|
|||
Spornað við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum, m.a. í gegnum verkefnið Brothættar byggðir. |
Innviðaráðuneyti |
Innan ramma |
|
|
Mótuð verði heildræn nálgun á aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga.8 |
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti |
Innan ramma |
|
|
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 1.994 m.kr. og lækkar um 24,4 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 17,9 m.kr.
Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins lækkar alls um 155 m.kr. vegna tímabundinna framlaga sem falla niður. Um er að ræða 120 m.kr. framlag vegna sóknaráætlana landshluta og 35 m.kr. framlag vegna atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 19,4 m.kr. og er skipt hlutfallslega niður á stofnanir og verkefni málaflokks.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 151,6 m.kr. vegna Framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkurbæjar.
1 Verkefnið styður við húsnæðisstefnu.
2 Verkefnið styður við aðgerð C.16 um jafnrétti í sveitarstjórnum í byggðaáætlun.
3 Verkefnið styður við byggðaáætlun, samgönguáætlun, landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu.
4 Verkefnið styður við húsnæðisstefnu.
5 Aðgerðin styður við aðgerð A.15 í byggðaáætlun um jafnt aðgengi að þjónustu.
6 Verkefnið styður við heilbrigðisstefnu og menntastefnu.
7 Verkefnið styður við orkustefnu og nýsköpunarstefnu.
8 Verkefnið styður við stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, landsskipulagsstefnu og tillögur um landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.