15 Orkumál
Skilgreining málefnasviðs
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur 15.10 Stjórnun og þróun orkumála sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2023–2025. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.
Heildaryfirlit útgjalda og breytingar eftir tilefnum
Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.
Heildargjöld málefnasviðs 15 Orkumál árið 2025 eru áætluð 14.370,7 m.kr. og lækka um 410,2 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2024, eða sem svarar til 2,8%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum lækka útgjöldin um 299,8 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 2%.
Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.
Hagræn skipting útgjalda
Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2023 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.
15.10 Stjórnun og þróun orkumála
Frá og með 1. janúar 2025 er starfsemi málaflokksins í höndum nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar sem kom til með sameiningu Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Hin nýja stofnun mun heyra undir málaflokk 17.50 Stjórnsýsla umhverfismála á málefnasviði 17 Umhverfismál, enda sinnir stofnunin stjórnsýslulegu hlutverki. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2025 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Tryggt orkuöryggi fyrir alla landsmenn |
||
Söfnun og miðlun upplýsinga um raforkuframboð og bætt yfirsýn og eftirlit með tiltæku varaafli raforku í landinu. Aukin úrræði til að tryggja orkuöryggi. |
Umhverfis- og orkustofnun |
Innan ramma |
Aukið eftirlit og stýring vegna öryggisbirgða olíu. |
Umhverfis- og orkustofnun |
Innan ramma |
Nýir orkukostir og bætt orkunýtni, s.s. vindorka á landi og á hafi, greining á möguleikum smávirkjana, varmadælna, sólar- og sjávarfallaorku og nýting glatvarma og græns varaafls. |
Umhverfis- og orkustofnun o.fl. |
Innan ramma |
Átaksverkefni um leit og nýtingu jarðhita.** |
Loftslags- og orkusjóður |
Innan ramma |
Græn orkuöflun. Virkir notendur framleiða fyrir eigin notkun og selja umframorku. Stuðningur við ör- og smávirkjanir og verkefni sem stuðla að bættri orkunýtni. |
Loftslags- og orkusjóður |
Innan ramma |
Markmið 2: Aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap landsins |
||
Beinn stuðningur við kaup á ökutækjum er ganga fyrir hreinni orku og uppbygging innviða. |
Loftslags- og orkusjóður |
Innan ramma |
Greining á stöðu innviða fyrir orkuskipti og uppfærð orkuskipta- og innviðaáætlun. |
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti |
Innan ramma |
Orkuskipti í húshitun – varmadælur.* |
Loftslags- og orkusjóður |
Innan ramma |
Fræðsla og hnippingar varðandi úthlutun beinna styrkja til almennings til kaupa á hreinorkubifreiðum.**** |
Loftslags- og orkusjóður |
Innan ramma |
Markmið 3: Jöfnun orkukostnaðar á landsvísu |
||
Átak í jarðstrengjavæðingu og þrífösun á dreifikerfi raforku á landsbyggðinni.*** |
RARIK og Orkubú Vestfjarða |
Innan ramma |
Áframhaldandi jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku á landsbyggðinni. |
Umhverfis- og orkustofnun |
Innan ramma |
Aukin neytendavernd og samkeppni á raforkumarkaði. |
Umhverfis- og orkustofnun o.fl. |
Innan ramma |
* Með breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunar í júní 2022 var styrkjakerfi einfaldað til kaupa á orkusparandi búnaði til húshitunar (s.s. varmadælum) á svæðum þar sem ekki er hitaveita. Áætlað heildarumfang nemur 1–1,3 ma.kr. næstu 8–10 ár frá og með 2023. Verkefnið styður einnig við markmið 3 í sama málaflokki.
** Alþingi samþykkti, að tillögu fjárlaganefndar, að veita 450 m.kr. til átaksverkefnis um leit og nýtingu jarðhita á árunum 2023–2025 í fjárlögum 2023.
*** Leiðir af vinnu átakshóps stjórnvalda um uppbyggingu innviða. Heildarumfang verkefnisins er áætlað 600 m.kr. á árunum 2021–2025. Þar af er tillaga að fjármögnun 275 m.kr. af byggðaáætlun. Styður einnig við markmið 1.
**** Um er að ræða jafnréttisaðgerðir sem er ætlað að stuðla að jafnara kynjahlutfalli og aukinni fjölbreytni í hópi styrkþega. Markmið verður skilgreint í fjármálaáætlun 2026–2030.
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 14.370,7 m.kr. og lækkar um 410,2 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 110,4 m.kr.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 829,9 m.kr. vegna sameiningar Orkustofnunar og hluta Umhverfisstofnunar inn í nýja Umhverfis- og orkustofnun. Við þessa sameiningu flytjast umræddar fjárheimildir Orkustofnunar yfir á málefnasvið 17 Umhverfismál og málaflokk 17.50 Stjórnsýsla umhverfismála en ný stofnun fellur undir viðfangsefni þess málaflokks.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 225,4 m.kr. vegna sameiningar Loftslagssjóðs við nýjan Loftslags- og orkusjóð. Við þessa sameiningu flytjast umræddar fjárheimildir Loftslagssjóðs yfir á málefnasvið 15 Orkumál og málaflokk 15.10 Stjórnun og þróun orkumála en nýr sjóður fellur undir viðfangsefni þessa málaflokks.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 25,3 m.kr. vegna tekjuáætlunar jöfnunargjalds til jöfnunar á kostnaði við dreifingu raforku.
- Almennt útgjaldasvigrúm málaflokksins eykst varanlega um 500 m.kr. sem ætlað er til ráðstöfunar í orkumál með áherslu á græna orkuöflun þar sem virkir notendur framleiða fyrir eigin notkun og selja umframorku, á stuðning við ör- og smávirkjanir og verkefni sem stuðla að bættri orkunýtni. Auk þess eykst almennt útgjaldasvigrúm á árinu um 13 m.kr. sem bættist við málaflokkinn á árinu 2023 en var frestað um tvö ár.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 250 m.kr. vegna tímabundinnar fjárheimildar af loftslagsfjármagni á málefnasviði 17 sem fellur niður.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 7,3 m.kr. vegna breytinga á sértekjuáætlun málaflokksins.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 101,3 m.kr. Við útdeilingu á aðhaldskröfu málaflokksins er beitt hlutfallslegri skiptingu niður á fjárlagaliði að teknu tilliti til stöðu og áhættumats. Lögð er sérstök áhersla á að standa vörð um þau verkefni og stofnanir sem hafa lítið fjárhagslegt svigrúm.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.