05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Skilgreining málefnasviðs
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2023–2025. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.
Heildaryfirlit útgjalda og breytingar eftir tilefnum
Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.
Heildargjöld málefnasviðs 05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla árið 2025 eru áætluð 31.119,7 m.kr. og aukast um 262,6 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2024, eða sem svarar til 0,9%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 1.6761,1 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 5,7%.
Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.
Hagræn skipting útgjalda
Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2023 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.
05.10 Skattar og innheimta
Skattframkvæmd er á hendi Skattsins og yfirskattanefndar. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2025 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Bæta skattskil með skilvirkara og einfaldara skattkerfi |
||
Áframhaldandi efling skattrannsókna og skatteftirlits með það að markmiði að sporna við skattundanskotum og uppræta peningaþvætti, m.a. með áherslu á þróun áhættumiðaðs eftirlits samhliða eflingu stafræns umhverfis. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Skatturinn |
Innan ramma |
Unnið verði að breytingum á ákvæðum laga um virðisaukaskatt um uppgjörstímabil og ákvæðum tollalaga um uppgjör virðisaukaskatts í tolli. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Skatturinn |
Innan ramma |
Unnið verði að breytingum á ákvæðum virðisaukaskattslaga um gjalddaga virðisaukaskatts og ákvæðum tollalaga um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Skatturinn |
Innan ramma |
Markmið 2: Efla þjónustu og upplýsingagjöf við einstaklinga og fyrirtæki |
||
Áframhaldandi þróun stafrænna þjónustulausna. Á árinu verður lögð áhersla á sjálfsafgreiðslu fyrir flóknari skattskuldamál auk innleiðingar umboðskerfis á Ísland.is til að bæta öryggi og þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Skatturinn |
Innan ramma |
Áfram verður unnið að því að efla og staðla rafrænt viðskiptaumhverfi til þess að fækka viðskiptahindrunum og einfalda fyrirtækjum að miðla upplýsingum milli Norðurlanda og senda tilkynningar til yfirvalda. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti og Skatturinn |
Innan ramma |
Markmið 3: Skattkerfið styðji við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum og nýsköpun |
||
Áframhaldandi vinna við innleiðingu á nýju tekjuöflunarkerfi vegna umferðar og orkuskipta í formi kílómetragjalds vegna notkunar ökutækja. Kolefnisgjald verður samhliða hækkað til að viðhalda hvata til orkuskipta. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti, innviðaráðuneyti og Skatturinn |
55 m.kr. |
Tekið verði til skoðunar hvernig framkvæmd og nýting ívilnana vegna grænna fjárfestinga hefur gengið fyrir sig og metið hvort gera eigi úrræðið varanlegt. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Skatturinn |
Innan ramma |
Verkefnisstjórn komið á fót sem gerir tillögur að umbótum á regluverki, stjórnsýslu og fjárhagslegri umgjörð um stuðningskerfi við rannsóknir og þróun.1 |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti |
Innan ramma |
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 10.523,2 m.kr. og lækkar um 136,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 651,9 m.kr.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins er aukin um 55 m.kr. vegna aukins kostnaðar Skattsins í tengslum við upptöku nýs tekjuöflunarkerfis vegna umferðar og orkuskipta í formi kílómetragjalds sem felur í sér kostnað við uppsetningu og rekstur álagningarkerfa og hugbúnaðarkerfa.
- Fjárheimild málaflokksins er aukin um 70 m.kr. til að styrkja eftirlit með þeim verkefnum sem hljóta frádrátt frá álögðum tekjuskatti vegna rannsóknar- og þróunarverkefna.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 107,2 m.kr. vegna breytinga á áætluðum rekstrartekjum stofnana til samræmis við áætlanir en sértekjur stofnunarinnar voru ofmetnar í fjárlögum ársins 2024. Breytingarnar hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem þær hafa samsvarandi áhrif á tekjuhlið.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 161,4 m.kr.
05.20 Eignaumsýsla ríkisins
Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með yfirumsjón og fyrirsvar eigna í eigu ríkisins, þ.m.t. í félögum, fasteignum, jörðum og auðlindum, auk þess að vera ábyrgðaraðili opinberra framkvæmda. Starfsemi sem hér fellur undir er að hluta falin Framkvæmdasýslu – Ríkiseignum (FSRE). Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2025 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Bætt yfirsýn, aukið gagnsæi og samfélagslega arðbær og ábyrgur rekstur eigna í eigu ríkisins |
||
Yfirfærsla á verkefnum Bankasýslunnar til ráðuneytisins og innleiðing á nýju fyrirkomulagi varðandi umsýslu og stýringu eignarhalds ríkisins í félögum. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
-15 m.kr. |
Endurskoðun og mat á félagasafni ríkisins þar sem horft er sérstaklega til tilgangs, sjálfbærni og ábata eignarhalds. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Reglur um val og hæfniskröfur stjórna verði gefnar út og innleiddar. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 2: Markvissari stýring á fjárfestingum ríkisins |
||
Leggja fram frumvarp um fjárfestingar ríkisins sem felur í sér heildarendurskoðun á skipan opinberra framkvæmda með það að markmiði að bæta umgjörð og samræma málsmeðferð fjárfestinga á vegum ríkisins. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Greina hvaða eignir í eignasafni ríkisins væri æskilegt að selja m.t.t. nýtingar og viðhaldsþarfar, m.a. til að ná fram hagkvæmari stýringu á eignasafni ríkisins. |
FSRE |
Innan ramma |
Hefja innleiðingu á nýju fasteignafyrirkomulagi Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 3: Aukin sjálfbærni og hagkvæm nýting lands, náttúru og auðlinda í umráðum ríkisins |
||
Vinna að heildstæðu yfirliti yfir auðlindatekjur ríkisins af ríkisjörðum og þjóðlendum. |
FSRE |
Innan ramma |
Stuðla að aukinni nýtingu og eflingu byggðar á ábúðarjörðum í eigu ríkisins. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti og FSRE |
Innan ramma |
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 3.321,7 m.kr. og hækkar um 179,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 88,1 m.kr.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Felld er niður 64,6 m.kr. fjárheimild Bankasýslunnar þar sem gert er ráð fyrir að starfsemi hennar verði lögð niður. Gert er ráð fyrir að verkefnum stofnunarinnar verði áfram sinnt innan málaflokksins og því er gert ráð fyrir 50 m.kr. framlagi til þeirra verkefna.
- Í fjárlögum ársins 2024 var samþykkt að fresta 200 m.kr. útgjöldum vegna framkvæmda á vegum Stjórnarráðsins. Um var að ræða tímabundna ráðstöfun sem fellur úr gildi árið 2025 og hækkar því fjárheimild málaflokksins um 200 m.kr.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 5,8 m.kr.
05.30 Fjármálaumsýsla ríkisins
Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með yfirstjórn ríkisrekstrar og vinnur að gagnsæjum rekstri ríkisins og einföldu skipulagi sem tryggir góða þjónustu. Hlutverk ráðuneytisins í umbótum í ríkisrekstri er víðtækt og nær m.a. til stafvæðingar hins opinbera, hagræðingar í ríkisrekstri, mannauðsstjórnunar og árangursstjórnunar. Undir málaflokkinn falla þær stofnanir sem annast rekstrarlega innviði ríkiskerfisins og veita miðlæga grunnþjónustu til ríkisstofnana í mannauðsmálum, fjármálum, innkaupum og upplýsingatækni, þ.e. Fjársýsla ríkisins og Umbra, þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins. Þá er hér fjallað um verkefni sem unnið er að hjá kjara- og mannauðssýslu ríkisins og verkefnastofu um Stafrænt Ísland. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 6.753,7 m.kr. og hækkar um 206,9 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 321,2 m.kr.
Helstu verkefni 2025 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Betri og skilvirkari þjónusta ríkisstofnana |
||
Innleiðing samræmds þjónustukerfis hjá ríkisstofnunum sem skilar ávinningi þvert á stofnanakerfið og tækifærum til bættrar þjónustu. |
Stafrænt Ísland |
Innan ramma |
Innleiðing stafrænnar kjarnaþjónustu hjá opinberum aðilum sem styður við skilvirkari rekstur og aðgengilegri þjónustu. |
Stafrænt Ísland |
Innan ramma |
Áhersla á stuðning við stafræna þróun lífsviðburða með áherslu á heilsu, atvinnu og félagsþjónustu. |
Stafrænt Ísland
|
Innan ramma |
Koma á fót miðlægum kjarna (CoE) um gögn í ríkisrekstrinum undir stjórn gagnahirðis ríkisins. |
Fjármála og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 2: Efla ríkið sem góðan vinnustað og styrkja hæfni þess til að veita góða opinbera þjónustu |
||
Innleiðing stefnu ríkisins í mannauðsmálum. |
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins |
Innan ramma |
Útgáfa leiðbeinandi viðmiða um gerð heilsu- og viðverustefnu hjá stofnunum. |
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins |
Innan ramma |
Útgáfa mælaborðs mannauðsmála. |
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Fjársýslan |
Innan ramma |
Formgerð aðild fjármála- og efnahagsráðuneytis að verkefni um virðismatskerfi starfa. |
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins |
120 m.kr. |
Útgáfa viðmiða um launaumhverfi ríkisins m.t.t. þjóðréttarlegra skuldbindinga. |
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins |
Innan ramma |
Markmið 3: Öflugri og vistvænni rekstur ríkisstofnana |
||
Innleiðing samningakerfis hjá stofnunum ríkisins. |
Fjársýsla ríkisins |
Innan ramma |
Mælaborð innkaupa og viðeigandi aðgerðastuðningur innleiddur til allra ráðuneyta. |
Fjársýsla ríkisins |
Innan ramma |
Útgáfa sameiginlegra tæknilegra lágmarksviðmiða fyrir stofnanir. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins er aukin um 15 m.kr. af útgjaldasvigrúmi málefnasviðsins til að koma til móts við aukinn miðlægan kostnað við rekstur fjárhagskerfis ríkisins.
- Fjárheimild málaflokksins er aukin um 70 m.kr. til að styðja við aukinn samrekstur í ríkisrekstri sem og á vettvangi Stjórnarráðsins.
- Fjárheimild málaflokksins er hækkuð um 143 m.kr. vegna breytinga á áætluðum rekstrartekjum stofnana til samræmis við áætlanir. Breytingarnar hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem þær hafa samsvarandi áhrif á tekjuhlið. Munar þar mest um hækkun rekstrartekna Umbru, þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins, vegna aukins samreksturs, aukinnar þjónustu við stofnanir í skýjageira ríkisins og innleiðingar á nýrri málaskrá Stjórnarráðsins. Fjárheimild málaflokksins hækkar um 39,2 m.kr. vegna aukins rekstrarframlags Umbru, þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins, vegna lengri afskriftatíma fjárfestinga. Breytingin felur ekki í sér hærri greiðslur úr ríkissjóði á afskriftatímabilinu heldur dreifast greiðslurnar á lengra tímabil.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 60,3 m.kr.
05.40 Stjórnsýsla ríkisfjármála
Undir málaflokkinn fellur aðalskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytis, ráðstöfunarfé og ýmis önnur verkefni sem ekki verða auðveldlega felld undir önnur málefnasvið eða málaflokka. Fjármunir sem ráðstafað er í verkefni Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og verkefnastofu um Stafrænt Ísland falla undir málaflokkinn, en gerð er grein fyrir markmiðum og áherslum þessara verkefna í málaflokki 5.3. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2025 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Skýrari tengingar milli stefnu, fjármuna og árangurs |
||
Bætt upplýsingagjöf á vef um þróun mælikvarða m.t.t. markmiða sem sett hafa verið fram í fjármálaáætlun. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Aukin eftirfylgni með upplýsingagjöf ráðuneyta um stöðu aðgerða innan ársins m.t.t. markmiða sem sett hafa verið fram í fjármálaáætlun, auk annarra áhersluverkefna sem tengjast stefnu ríkisaðila. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Þróun aðferða og leiðbeininga sem miða að því að jafnréttismat fjárlagatillagna taki í auknum mæli til fleiri breyta en kyns. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 2: Bætt upplýsingagjöf um fjármál og rekstur ríkisins |
||
Ársfjórðungsuppgjör birt á vef. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Vefurinn rikisreikningur.is bættur og tíðari uppfærsla á gögnum innan ársins. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun birt á gagnvirku svæði með notendavænum hætti. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 3: Bætt áætlanagerð og eftirfylgni með fjármunum ríkisins |
||
Verklagsreglur um framkvæmd fjárlaga og áhættumat endurskoðaðar. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Áætlanagerð ríkisaðila til þriggja ára unnin í miðlægu áætlanakerfi. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Innleiðing reglugerðar um innra eftirlit. |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti |
Innan ramma |
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 10.521,1 m.kr. og hækkar um 12,7 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 352,3 m.kr.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins er aukin um 30 m.kr. af útgjaldasvigrúmi málefnasviðsins, m.a. til að styðja við uppbyggingu gagnainnviða.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 120 m.kr. í tengslum við innleiðingu virðismats starfa í samræmi við yfirlýsingu vegna kjarasamninga. Innleitt verður í áföngum virðismatskerfi sem byggir á tillögum um launajafnrétti. Gert er ráð fyrir sex stöðugildum í verkefnið til ársloka 2026.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 318,6 m.kr. vegna leiðréttingar í samræmi við raunrekstrartekjur málaflokksins. Breytingin er gerð í samræmi við áætlanir í tengslum við miðlæg innkaup á hugbúnaðarleyfum. Breyting hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem hún hefur samsvarandi áhrif á tekjuhlið.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 280 m.kr. vegna tímabundinna framlaga til endurnýjunar upplýsingakerfa sem falla niður í samræmi við áætlanir.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 176,7 m.kr.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.