Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2019 Félagsmálaráðuneytið

Ný framkvæmdaáætlun í barnavernd – stórsókn í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til fjögurra ára. Um er að ræða fjórðu framkvæmdaáætlun ríkisins í barnavernd en með henni er blásið til stórsóknar í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.

„Áætlunin er metnaðarfull og hefur það að markmiði efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum svo hægt verði að koma að vanda barna eins fljótt og auðið er. Þá er henni ætlað að fjölga gagnreyndum úrræðum sem mæta þörfum barna og draga þannig úr líkum á að vandamál þróist og verði alvarleg. Framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir aukinni samvinnu og samstarfi á milli ríkis og sveitarfélaga og að lögð verði 600 milljón króna fjáraukning í að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu, ekki síst í nærumhverfi barna,“ segir Ásmundur Einar.

Framkvæmdaáætlunin var unnin í góðu samráði við helstu hagsmunaaðila meðal annars um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna. Félagsmálaráðuneytið, Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga skulu vinna samkvæmt áætluninni með meginmarkmið barnaverndarlaga að leiðarljósi; að tryggja viðunandi uppeldisskilyrði barna og að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð.

„Eigi þau markmið að nást þarf að tryggja með afdráttarlausum hætti samstarf ýmissa kerfa sem eiga snertifleti við börn og fjölskyldur og veita þeim stuðning og aðstoð eins fljótt og auðið er. Það þýðir að grípa þarf til aðgerða miklu fyrr en þegar þröskuldur til inngripa á grundvelli barnaverndarlaga næst,“ segir Ásmundur Einar.

Hann segir hagsmuni barna krefjast þess að horft sé heildstætt á öll kerfi sem reyna að vernda og þjónusta þau og fjölskyldur þeirra. Í forgangi verði fyrirbyggjandi aðgerðir, forvarnir og valdefling foreldra og barna. „Lækka þarf þröskuld til inngripa með því að efla stuðning, ráðgjöf og skimun fyrir mögulegum vandamálum í almennum þjónustukerfum eins og skólum, heilsugæslu og félagsþjónustu. Þá þarf að gera kröfu um skýra ábyrgð og samþættingu þjónustu og úrræða og er mikill vilja fyrir því innan ríkisstjórnarinnar. Það er jafnframt hluti umfangsmikillar endurskoðunar á allri þjónustu við börn, þvert á kerfi og ráðuneyti og í samstarfi við þverpólitíska nefnd þingmanna.“

Félagsmálaráðuneytið mun hafa heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og sömuleiðis umsjón með tilteknum aðgerðum. Barnaverndarstofa og sveitarfélög bera síðan ábyrgð á öðrum aðgerðum. Allar aðgerðir hafa verið kostnaðarmetnar og verður lagt mat á þær í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir eru innan hverrar aðgerðar.

Víðtækt samstarf verður haft við fag- og hagsmunaaðila um framkvæmd áætlunarinnar til að þekking og reynsla nýtist sem best en auk þess tekur hún mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Framkvæmdaáætlunin tekur einnig mið af þeirri þróun sem orðið hefur í þjónustu við börn og í meðferðarúrræðum barnaverndar og leggur áherslu á samfélagsþátttöku barna.

Áætlunin er umfangsmikil og er skipt niður í eftirfarandi átta stoðir:

 

               A. Samstarf og heildarsýn í málefnum barna.

               B. Breytingar á barnaverndarlögum.

               C. Snemmtæk íhlutun og fyrirbyggjandi aðgerðir.

               D. Stuðningur vegna barna á fósturheimilum.

               E. Meðferð alvarlegs hegðunar- og vímuefnavanda.

               F. Bætt verklag í barnavernd.

               G. Kannanir, rannsóknir og gæðamat.

               H. Eftirfylgni og innleiðing breytinga.

 

Nánari grein er gerð fyrir þeim í þingsályktunartillögunni

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira