Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2021

Athugun á verklagi sveitarfélaga varðandi ofbeldi gegn fötluðu fólki

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Þann 9. september 2020 barst Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) formleg fyrirspurn frá Landssamtökunum Þroskahjálp um verklag sveitarfélaga varðandi ofbeldi gegn fötluðu fólki. Fyrirspurnin kom í kjölfar dóms sem hafði fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur nokkrum dögum áður, í máli ungrar fatlaðrar konu sem varð fyrir kynferðisofbeldi af hálfu starfsmanns í skammtímadvöl á vegum Reykjavíkurborgar. Í yfirlýsingu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér vegna fréttaflutnings af dómnum kemur fram að sveitarfélagið hafi breytt verkferlum eftir að grunur vaknaði um að starfsmaðurinn hefði brotið á konunni í úrræði á vegum sveitarfélagsins.

Þann 9. nóvember 2020 sendi GEF spurningalista til félagsmálastjóra sveitarfélaga en víða á landinu hafa fleiri en eitt sveitarfélag sameinast um félagsmálastjóra. Kannað var hvort sveitarfélög hafi verklag sem tekur til ofbeldis gegn fötluðum, hvort fram hafi farið fræðsla um ofbeldi og að lokum hvort tilkynningar um ofbeldi gegn fötluðu fólki hafi borist sveitarfélögunum síðast liðin 3 ár. Nánari upplýsingar um framkvæmd og niðurstöðu athugunarinnar má finna í hlekk undir fréttinni.

Niðurstöður athugunarinnar sýna að talsvert vantar upp á að verkferlar sem taka til ofbeldis gegn fötluðum hafi verið skilgreindir hjá félagsþjónustu sveitarfélaga. Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar telur að verklagsreglur á þessu sviði séu grundvöllur þess að bæta öryggi í þjónustu við fatlað fólk og tryggja að brugðist sé við með viðeigandi hætti ef grunur um ofbeldi kviknar. Jákvætt er að hjá flestum þeirra félagsþjónustusvæða sem ekki hafa slíkt verklag eru uppi áform um að setja verklagsreglur á þessu sviði. Einnig virðist vera þörf á aukinni fræðslu fyrir fólk sem starfar með fötluðu fólki og ekki síður fyrir fötluðu einstaklingana sjálfa.

Jákvætt er að á síðastliðnum þremur árum hefur verið brugðist við í þeim tilvikum þar sem grunur var um ofbeldi gegn fötluðu fólki. GEF leggur áherslu á mikilvægi skráningar mála þegar upp kemur grunur um ofbeldi gegn fötluðu fólki og úrlausn þeirra. Slíkar upplýsingar nýtast félagsþjónustusvæðum vel til þess að þróa og bæta verklag svo bregðast megi við ofbeldi með viðeigandi hætti hverju sinni.

Í ljósi þess að mörg félagsþjónustusvæði hafa áform um að setja verklagsreglu eða skilgreina verkferla vegna ofbeldis gegn fötluðu fólki mun GEF fylgja eftir þessari athugun og kanna stöðu mála hjá félagsþjónustusvæðunum í lok árs 2021. Gæðaviðmiðin fyrir félagslega þjónustu við fatlað fólk geta nýst við gerð slíks verklags.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira